Lánasjóður sveitarfélaga

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 22:15:24 (4659)

[22:15]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Það mál sem nú er tekið fyrir að nýju er frv. til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð sveitarfélaga. Það er nokkuð síðan ég kvaddi mér hljóðs um þetta mál til þess að velta fyrir mér ákveðnu atriði þess og leita skýringa hjá hæstv. ráðherra. Mér þykir rétt að rifja upp um hvað málið fjallar. Það er mjög lítið að vöxtum, einungis tvær lagagreinar. Önnur er gildistökugrein og hin stutt lagagrein þar sem lagt er til að bæta málslið við eina grein núgildandi laga um sjóðinn, sem yrði þá svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Stjórninni er þó ekki heimilt að gefa út og selja skuldabréf og aðrar endurgreiðanlegar skuldaviðurkenningar til almennings.``
    Það er dálítið forvitnilegt að setja í lagatexta ákvæði sem heimilar stjórn lánasjóðsins að gera ekki tiltekna hluti eða með öðrum orðum er verið að fyrirbyggja að stjórnin geri einhverja hluti sem menn vilja væntanlega að stjórn sjóðsins láti ógert. Þegar hins vegar greinargerðin er lesin kemur í ljós hvernig málið stendur og það er í reynd þannig að það er ekkert á döfinni að stjórn lánasjóðsins ætli sér að fara að afla fjár til sjóðsins með útgáfu skuldabréfa. Það kemur því spánskt fyrir sjónir að leggja til að banna að gera eitthvað sem ekki stendur til að gera.
    Þetta varð til þess að ég fór að velta þessu máli fyrir mér og ákvað að biðja um orðið til að leita skýringar á því hvers vegna lagt væri til að þetta ákvæði væri sett inn í lögin um Lánasjóð sveitarfélaga.
    Ef maður skoðar skýringarnar með lagafrv. frekar en ég hef rakið þá virðist ástæðan vera sú að eins og lög um Lánasjóð sveitarfélaga eru núna þá fellur sjóðurinn undir lög um lánastofnanir frá 1993 sem eru samræmd löggjöf um lánastofnanir innan Evrópusambandsins. Tilgangurinn virðist því vera sá að taka Lánasjóð sveitarfélaga undan þeirri löggjöf þannig að þessi sjóður falli ekki að samræmdri löggjöf Evrópusambandsins hvað þetta varðar eins og kveðið er á um að vera skuli samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Í ljósi þess að flm. er ráðherra úr Alþfl. sem hefur mjög gengist fyrir því að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og vill raunar nú ganga lengra og ganga í Evrópusambandið. ( Umhvrh.: Eða Asíubandalagið.) Því miður hefur stefna Alþfl. varðandi aðra heimshluta en Evrópu ekki verið skýrð. Svo merkilegt sem það er með hreyfingu jafnaðarmanna hér á landi sem á að vera brjóstvörn fátækari hluta þjóðarinnar og verkafólks þá virðist sá ágæti flokkur vera einna helst áhugasamur um það að bindast sem föstustum böndum gömlu nýlenduveldunum í Evrópu sem hafa löngum með krafti vopnavalds arðrænt aðra hluta heimsins eins og mönnum er kunnugt úr mannkynssögunni. Það er auðvitað sérstakt umræðuefni, sem vert væri að ræða í þingsölum, að krefja Alþfl. skýringa á því hvers vegna hann hefur þá heimssýn að vilja hvergi annars staðar vera en hluti af safni gamalla heimsvelda og sjá ekki út fyrir múra þá sem Evrópusambandið hefur reist umhverfis sig, sér t.d. ekki til Ameríku eins og vera skyldi.
    Það má nefna þeim alþýðuflokksmönnum til upprifjunar að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur haft það í för með sér að við höfum sett upp sérstaka tolla á vörur frá Ameríku. Við erum að skerða möguleika okkar á að eiga viðskipti við Bandaríki Norður-Ameríku í þágu Evrópuþjóðanna. Þar minni ég á sérstaka tolla sem eru allt 7% þar sem vörur frá Bandaríkjunum eru tollaðar hærra en vörur frá Evrópu. Ég veit ekki hvort það yrði almennt niðurstaða fólks ef því yrði kynnt þessi staðreynd að menn væru á réttu spori í utanríkispólitík okkar að afmarka okkur við þá tollmúra Evrópusambandsins sem reistir hafa verið. Ég tel enga ástæðu til að við þrengjum heimssýn okkar eins og raun ber vitni að menn eru að gera og hafa gert á undanförnum árum undir forustu þeirra alþýðuflokksmanna.
    En mig langaði til að bera fram þá spurningu til hæstv. félmrh. hvers vegna hann leggur til að Lánasjóður sveitarfélaga verði undanþeginn hinum samræmdu lögum og reglum um lánastofnanir eins og lagt er til í þessu frv. Hvernig má það vera að Alþfl., sem er svo áhugasamur um það að við tengjumst Evrópusambandinu á sem flesta vegu og með sem mestum hætti, leggur til hvað þennan sjóð varðar að þá skulum við ekki tengjast Evrópusambandinu?
    Það væri fróðlegt að fá skýringar á því hjá hæstv. félmrh. hvers vegna hann hefur ekki hug á því að tengjast Evrópusambandinu að þessu leyti.
    Ég vil taka fram til að fyrirbyggja allan hugsanlegan misskilning að með þessari spurningu er ég ekki að

segja það að menn ættu ekki að samþykkja efni frv. En mér leikur hins vegar forvitni á að vita út frá stefnu Alþfl. í Evrópumálum hvers vegna hann vill undanþægja sig í þessu máli frá ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Að öðru leyti, virðulegi forseti, tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða um málið á þessu stigi. Það mun fá sína þinglegu meðferð en það er ljóst að mörg mál eru að hrúgast inn á borð félmn. og verður að ráðast hvort tími reynist til að afgreiða það. Við skulum ekkert fullyrða um það til eða frá. En það er ljóst að svo seint sem málið er fram komið þá er óvíst að það nái fram að ganga á þeim skamma tíma sem eftir er. Hæstv. ráðherra hlýtur að gera sér grein fyrir því að með því að mæla seint fyrir málum í þinginu þá er hann að tefla í tvísýnu að mál hans nái fram að ganga. Ég vænti þess að ráðherrann sé þess fyllilega meðvitaður að það er hans en ekki þingsins ef málið nær ekki fram að ganga á þessu þingi.
    Hins vegar er ekki að finna í athugasemdunum neinar útskýringar á efninu sem gefa til kynna að það skaði eitthvað þó að málið frestist fram á næsta þing. En ráðherra upplýsir um það ef svo kann að vera.
    Ég vil svo að lokum segja að mér finnst greinargerðin sem fylgir með frv. ákaflega mikið torf. Ég þurfti satt að segja að lesa hana yfir nokkrum sinnum til þess að greiða í sundur efnisatriði og raða þeim upp á nýtt. Mér finnst að þegar er verið að semja greinargerðir til að útskýra efni lagafrumvarpa þá eigi framkvæmdarvaldið, ráðherrar og starfsmenn hans, að leitast við að hafa efnið þannig að það sé auðskiljanlegt og skýrt að efni til. En ég verð því miður að segja hvað þessa greinargerð varðar að hún er ákaflega torskilin og verið að flækja tiltölulega einföldu máli þannig að úr verður langt mál sem grautast verulega saman, satt best að segja. Ég vildi því koma þeirri athugasemd minni á framfæri við hæstv. ráðherra að ég tel að það mætti gera miklu betur en þarna hefur verið gert í því að semja skýra og gagnsæja greinargerð.
    Virðulegi forseti, fleira er ekki af minni hálfu um þetta mál að segja að sinni en ég vænti þess að ráðherra svari spurningum mínum skýrt.