Lánasjóður sveitarfélaga

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 22:27:05 (4660)


[22:27]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Mér er ljúft að svara fyrir þessi mál og svara spurningum þingmannsins. Afstaðan til þessa frv. hefur lítið að gera með afstöðuna til EES-samningsins eða viðhorfs einstakra þingmanna eða flokka til þess hvort sækja beri um aðild að Evrópusambandinu. Vísa ég þar til að þegar lögin voru sett, nr. 123/93, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, þá held ég að ég fari rétt með að það mál hafi verið afgreitt af efh.- og viðskn. í heild sinni og fulltrúum þar alveg óháð því hvaða afstöðu þeir höfðu til tengingar og viðskiptasambanda í Evrópu.
    En það sem snýr að málinu sjálfu sem slíku þá er þessi grein um það að stjórninni er ekki heimilt að gefa út og selja skuldabréf og aðrar endurgreiðanlegar skuldaviðurkenningar til almennings. Í 1. málsl. 6. gr. laganna um stjórn þessa sjóðs segir að það sé heimilt að gefa út skuldabréf fyrir hans hönd til þess að afla sjóðnum lánsfjár skv. c- og d-lið 5. gr. þeirra laga.
    Með því að þessi grein stæði óbreytt yrði það túlkað að Lánasjóður sveitarfélaga teldist lánastofnun í skilningi laga nr. 123/1993 sem í raun fjalla um annars konar lánastofnanir en þessa afmörkuðu sjóði sem Lánasjóður sveitarfélaga og Bjargráðasjóður eru. Því er gripið til þess ráðs að setja inn í þessa grein: ,,Stjórninni er þó ekki heimilt að gefa út og selja skuldabréf og aðrar endurgreiðanlegar skuldaviðurkenningar til almennings.`` Það er sú skýring sem felst í viðkomandi frv. um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði en þau lög voru sett, eins og áður segir, í desember 1993.
    Þetta er fyrst og fremst ástæðan fyrir því að í lögin er sett þessi skýring: ,,þó ekki heimilt að gefa út og selja skuldabréf og aðrar endurgreiðanlegar skuldaviðurkenningar til almennings.`` Þessi litla breyting gerir að verkum að þessi lánastofnun, sem hefur svo sérhæft verkefni, þarf ekki að fara út í talsvert viðamiklar breytingar á sínum lögum eins og ella þyrfti og ákvæði voru um að slíkar stofnanir mundu hafa aðlagað starfsemi sína ákvæðum laganna eigi síðar en 1. jan. 1995.
    Auðvitað finnst mér miður að þetta frv. hafi ekki komið fram fyrr. Um það er ekki að sakast við aðra en mitt eigið ráðuneyti og það að dregist hefur að ég hafi fengið að mæla fyrir frv. frá því að það kom fram. Það verður að hafa sinn gang hvernig tekst til með frv. á þinginu. Nái það ekki fram að ganga þá reikna ég fremur með að það verði þá tekið fyrir síðar, á næsta þingi. En vandinn er sá að þessir sjóðir áttu að hafa aðlagað starfsemi sína eigi síðar en 1. janúar 1995.