Lánasjóður sveitarfélaga

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 22:36:11 (4662)


[22:36]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Það er mesti misskilningur ef þingmaðurinn telur að það sé til einhvers persónulegs vansa fyrir mig ef málið nær ekki fram að ganga eða það sé einhver sérstök handvömm af minni hálfu að þetta mál hefur ekki komið fram fyrr eða að af einhverjum annarlegum orsökum sé það vilji ríkisstjórnar að þessi litla lánastofnun, Lánasjóður sveitarfélaga, sem ég tel að þingmaðurinn þekki mjög vel til, falli ekki undir þær skilgreiningar sem er að finna í lögum nr. 123/93. Það er allt mesti misskilningur.
    Ég held að það hafi verið skamman tíma, e.t.v. tvær vikur, eftir að ég tók við ráðherraembætti í félmrn. um miðjan nóvember sem ég átti samráðsfund með forráðamönnum Sambands ísl. sveitarfélaga þar sem eitt af erindunum var að ganga eftir því við ráðherra að hann flytti frv. til laga varðandi Lánasjóð sveitarfélaga og Bjargráðasjóð. Þeir fluttu fyrir máli sínu fullgild rök að mínu mati. Það eru mjög ítarlegur reglur um aðrar lánastofnanir en viðskiptabanka og sparisjóðir en það er verið að setja slíkar reglur vegna þess að það er gengið út frá því að slíkar lánastofnanir hafi mjög víðtæka starfsemi. Lánastofnanirnar sem hér eru flutt frv. um hafa mjög þrönga starfsemi og ég held að allir sem hafa kynnt sér það og skoðað hvað í þessu felst geti verið sammála stjórn sambandsins og forráðamönnum um að það sé sjálfsagt mál að flytja þessi frv. og undanskilja þá þeirri kröfu að þurfa að gera svo ítarlegar breytingar á sínum lögum til þess að falla undir þær allítarlegu reglur um lánastofnanir sem felast í lögum nr. 123 /93 vegna þeirrar starfsemi sem þar fer fram.
    Ég varð því við þessari ósk Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég tel að þetta sé gott mál og er sannfærð um að þegar þingmaðurinn fjallar um þetta mál í nefnd og fær fulltrúa sambandsins á fund nefndar og ræðir við þá verði hann sammála mér um það að þetta hafi verið gott mál að flytja. Svo getum við jagast um það hvort það hefði verið hægt að ná því fyrr fram en á þeim tíma sem það kom eða hvort að það sé að skemma fyrir málinu. En hér er málið flutt, ég held að þetta sé gott mál fyrir sveitarfélögin í landinu og mikilvægt fyrir þau sveitarfélög sem hafa viðskipti við þennan lánasjóð og ég sé enga ástæðu til að það sé verið að búa til allítarlegar reglur um þennan lánasjóð miðað við eðli hans.