Vatnsveitur sveitarfélaga

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 23:19:01 (4668)


[23:19]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að flytja langa ræðu til að svara þingmanninum. Það er mjög áhugavert að hlusta á hv. 5. þm. Vestf. fjalla um sveitarstjórnarmál, m.a. vatnsveitumál. Hann hefur á þessum málum góða þekkingu og ég hef áður átt við hann orðastað um þetta á þeim skamma tíma sem ég hef verið í ráðuneyti félagsmála.
    Ég er hins vegar ósammála honum um viðhorfið til þess að ráðuneytið hafi afskipti af málum sveitarstjórna á þann veg sem hann nú hefur lagt mikla áherslu á og reyndar áður í því sem hann hefur gagnrýnt varðandi sveitarfélögin og það sem snýr að ráðuneytinu. Mér finnst ástæða til að árétta það að frumkvæðiseftirlit ráðuneytis felur ekki í sér að ráðuneyti eigi að vera ofan í hverju verkefni sveitarstjórnar, hafa af því afskipti og fella um það einhvers konar dóma. Ráðuneyti er ekki dómstóll sem slíkur heldur stjórnsýsluvald sem kemur með ábendingar um hvernig skuli fara með varðandi laganna hljóðan. Frumkvæðiseftirlit ráðuneytis snýr fyrst og fremst að því að sveitarstjórnir ræki ákveðnar skyldur sínar sem lögboðnar eru og felst í því að þau reki ýmsa þá starfsemi sem þeim er ætlað. Ráðuneytið úrskurðar þegar beint er til þess varðandi þann sem telur heima fyrir að e.t.v. sé á brotið eða rangt aðhafst.
    Þetta vildi ég segja um afstöðuna til furmkvæðiseftirlits vegna þess að það er of oft verið að gefa sér að frumkvæðiseftirlit eigi að snúa að öllum þáttum sveitarstjórnar.
    Varðandi sköttun húseigna utan höfuðborgar þá minnir mig að þessi háttur hafi verið tekinn upp varðandi tekjustofna sveitarfélaga og eftir því leitað af landsbyggðinni á þeim tíma þegar menn áttuðu sig á að ákveðinn hluti tekna sveitarfélags miðaðist við fasteignirnar og hversu mjög mismunandi möguleikar sveitarfélags voru til tekna miðað við fasteignamat þrátt fyrir að sveitarfélög ættu að veita sömu þjónustu óháð því hvernig fasteiginir voru metnar. Eitt sveitarfélag gat lent í því, ef ekki var búið að endurmeta í sveitarfélaginu, að fasteignir voru mjög lágt metnar og þar með gáfu þær tekjur sem miðuðust við fasteignir afar lága fjárhæð til viðkomandi sveitarfélags. Ég tel mig muna það rétt að um þetta hafi verið talsvert mikil sátt af hálfu smærri sveitarfélaga þegar þetta var tekið upp, hvað svo sem mönnum finnst svo um málið.
    Ég vil líka minna á það að sveitarstjórnir eru ekki eitthvert fyrirtæki úti í bæ sem á að hafa eftirlit með. Sveitarstjórnir eru stjórnvald og þetta stjórnvald sækir umboð sitt til kjósenda. Það er nú svo oft sem við minnum á að það er styttri strengurinn og nánara sambandið á milli kjósandans og sveitarstjórnarmannanna en t.d. okkar sem fjær erum. Þess vegna hef ég alltaf talið að það sé bæði mjög mikilvægt að sem mest af verkefnum sem snerta heimilin séu hjá sveitarstjórnunum einmitt vegna þess að þetta samband er nánara og oft sterkara, ekki síst á smærri stöðum. Þess vegna mundi ég nú vilja fara sjálf varlega í það að of mikið væri yfir vakað af stóra bróður en hann á að vera tilbúinn að taka í taumana ef eftir er leitað og óskað er úrskurðar. Við höfum átt orðastað um þetta, ég og þingmaðurinn, og ég tel óþarft að orðlengja meira

um þetta efni.