Vatnsveitur sveitarfélaga

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 23:23:45 (4669)


[23:23]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Fyrst að árétta að það er greinilega ekki ætlan ráðherra að breyta í neinu eða hagga þeirri niðurstöðu sem Alþingi komst að fyrir rúmum þremur árum að tekjur vatnsveitu eigi að standa undir tilgreindum kostnaði og að óheimilt sé að innheimta meira. Það er lykilatriði í málinu.
    Ég vil árétta skoðun mína varðandi eftirlitsskyldu ráðuneytisins og ég vísa til 117. gr. sveitarstjórnarlaga sem kveður skýrt á um það að ráðuneytið skuli hafa eftirlit með sveitarstjórnum. Hæstv. ráðherra lét það koma fram í svari við fyrirspurn minni um vatnsgjald frá 28. nóv. í fyrra, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, að það væru fyrst og fremst skoðunarmenn og eftir atvikum endurskoðendur sem ættu að gæta að þessu atriði þegar þeir færu yfir ársreikninga sveitarfélagsins. Eða eins og segir, með leyfi forseta í svari ráðherrans: ,,Með endurskoðun sinni skulu skoðunarmenn og eftir atvikum endurskoðendur komast að rökstuddri niðurstöðu um áreiðanleika ársreikningsins og skulu þeir ganga úr skugga um að hann sé gerður í samræmi við góða reikningsskilavenju og að fylgt hafi verið ákvæðum laga, reglna og samþykkta um meðferð fjármuna sveitarfélagsins, þar með talið ákvæðum laga um vatnsveitur sveitarfélaga eftir því sem við á.``
    Með öðrum orðum bendir ráðherrann á þessa aðila sem eigi að hafa þetta eftirlit með höndum og eru þar af leiðandi nokkur konar umboðsmenn íbúanna hvað það varðar. Hins vegar bendi ég á að sveitarfélögum ber að skila ársreikningum til félmrn. sem fer yfir þá, eins og fram kemur líka í svari ráðherra sem ég vitnaði til, ráðuneytið fer yfir þessa ársreikninga. Til þess eru þeir jú sendir ráðuneytinu að það geti sinnt eftirlitsskyldu sinni og það gerir það með því að yfirfara þá. Eins og fram hefur komið í svari við annarri fyrirspurn minni um tekjur og gjöld vatnsveitna í kaupstöðum árið 1993 þá eru það ár 25 kaupstaðir sem taka meiri tekjur af vatnsveitum en þeim ber. Því finnst mér afar eðlilegt að spyrjast fyrir um hver viðbrögð ráðuneytisins hafi verið þegar þetta lá fyrir. Lítur ráðuneytið svo á að þrátt fyrir vitneskju sína um það atriði að miklu hærri gjöld eru innheimt en vera ber, 245 millj. kr. samtals hjá 25 sveitarstjórnum, þá sé ráðuneytið stikkfrí og geti leyft sér að setja málið ofan í skúffu og að hagsmunir þeirra sem borga gjaldið komi ráðuneytinu ekki við?
    Ég er ósammála þessari skoðun. Ég tel að ráðuneytinu beri að hlutast til um að sveitarstjórnir fari að lögum. Hvort heldur menn tala um frumkvæðiseftirlit eða annað eftirlit skiptir ekki máli í þessu samhengi sem ég hef rakið. Málið liggur fyrir, vitneskjan liggur fyrir í ráðuneytinu hvað þetta varðar og því ber að bregðast við með einhverjum þeim hætti sem er til að tryggja það að lögum sé framfylgt en það er að ekki sé innheimt meira en lög heimila. Þetta er auðvitað kjarninn í málinu og mér þykir það leitt ef ég og hæstv. ráðherra getum ekki orðið sammála um þetta áður en kjörtímabilinu lýkur en það er líklegt að svo verði við að búa að við náum ekki saman um þetta atriði. En það ræður þá mismunandi sjónarmið um hvert hlutverk ráðuneytisins er. Ég viðurkenni það fúslega að viðhorf félmrh. undanfarin ár hefur verið þetta sama og núverandi félmrh. lýsir.
    Ef það er svo að fulltrúar fleiri flokka en Alþfl. eru á sömu skoðun að þá finnst mér vera nokkur vandi uppi. Þá finnst mér að það þurfi að íhuga í fullri alvöru hvort ekki eigi að breyta hlutverki ráðuneyta og taka frá því það hlutverk að hafa eftirlit með sveitarfélögunum. Fyrst að ráðuneytið vill ekki sinna því eftirliti að taka það þá frá þeim og fela það öðrum. Þá hef ég helst í huga að vænlegast væri að taka upp þann hátt, sem er þekktur erlendis, að setja á stofn svonefnda stjórnsýsludómstóla. Þá fengju íbúarnir, það eru þeir sem við viljum jú vera fulltrúar fyrir, leið til þess að fá með skjótum og skýrum hætti úrskurði um lögmæti eða ólögmæti athafna stjórnvalds, hvort sem það er sveitarstjórn eða ráðuneyti eða stofnun á vegum annarra hvorra þeirra beggja. Mér finnst það í fullri alvöru vel koma til greina að sveigja þessi mál í þennan farveg því að það er ekkert víst að mitt sjónarmið um eftirlitshlutverk ráðuneytis njóti það mikils stuðnings nú eða síðar að líkur séu á að mitt sjónarmið verði ofan á og þá verður maður auðvitað að huga að öðrum leiðum til að ná fram því markmiði að tryggja hagsmuni þeirra sem standa í raun og veru undir stjórnsýslunni og hún beinist gegn og fyrir.
    Hvað varðar hitt sem hæstv. ráðherra nefndi, að það væri krafa frá sveitarstjórnarmönnum á landsbyggðinni að breyta álagningarstofninum í þá veru að miða ekki við fasteignamat eins og það er heldur uppreiknað fasteignamat miðað við Reykjavík, þá er það alveg rétt hjá ráðherranum. Það voru sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni sem báru fram þessa kröfu og fengu henni framgengt. En það var fyrir nokkrum árum og viðhorf hafa nokkuð breyst frá þeim tíma og einnig hafa hlutirnir breyst hvað þessi lög varðar þannig að nú eru menn að tala um gjöld en ekki skatta og á því er grundvallarmunur. En í heild sinni lýsir þessi staða því hversu óviturlegt það er að innheimta gjöld með þeim hætti að tengja þau við mat sem er ekki í neinum tengslum við þá starfsemi sem gjöldin eiga að standa undir. Vatnsgjald er til að standa undir rekstri vatnsveitu. Matið á fasteigninni, hvort sem það er fasteignamat eða rúmmál, er ekki í neinum tengslum við þessa starfsemi og það sama má segja um holræsagjald og að nokkru leyti gatnagerðargjald enda veit ég að það er verið að endurskoða t.d. lögin um gatnagerðargjald í ráðuneytinu m.a. vegna þessa atriðis. Ég tel að menn verði að endurskoða þessa gjaldtöku á fasteignaeigendur hvað þessi þrjú gjöld

varðar sem ég hef nefnt og færa löggjöfina þannig til samræmis við það sem hún á að vera, hún á að vera gjaldtaka til að mæta tilteknum útgjöldum. Þá hlýtur sú gjaldtaka að miðast við notkun eða kostnað sem rekstraraðili kerfisins hefur af viðkomandi notanda, a.m.k. að það standi nær því en nú er eins og þetta er ákvarðað.