Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 00:44:46 (4685)


[00:44]
     Sturla Böðvarsson :
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til meðferðar, frv. til laga um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, er að mínu mati afar mikilvægt mál og í raun tímamótafrv. Ég styð frv. að sjálfsögðu eins og að liggur hér fyrir en auðvitað má ýmislegt um það mál segja og ég tel nauðsynlegt að fara mjög rækilega yfir frv. þegar umræðu í þinginu er lokið.
    Ég vil í fyrsta lagi segja, hæstv. forseti, vegna ræðu hv. 5. þm. Vestf., sem er að vísu á fundi annars staðar í salnum og kannski ekki tilbúinn til þess að hlusta, að það virðist algerlega hafa farið fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, eins og fleira sem hér er sagt í kvöld, að með sveitarstjórnarlögum var sveitarfélögunum falið að annast fráveitumál. Ég vænti þess að hv. 5. þm. Vestf. taki eftir því sem hér er sagt vegna ræðu hans og digurbarkalegra yfirlýsinga í garð ríkisstjórnarinnar, að það sé alveg nauðsynlegt fyrir hv. 5. þm. Vestf. að rifja það upp að samkvæmt sveitarstjórnarlögum er sveitarfélögum ætlað að sjá um og kosta fráveitumál. Þannig að það er alrangt hjá hv. þm. að það sé verið að bylta einhverjum sérstökum aukaverkefnum á sveitarfélögin og allra síst með þessu frv. sem hér er til meðferðar.
    Hins vegar má rifja það upp, af því að hv. þm. nefndi það í umræðunni að það hefði að ýmsu leyti farið öðruvísi á síðasta kjörtímabili, að í lok síðasta kjörtímabils var gefin út reglugerð sem setti einmitt mjög miklar kvaðir á sveitarfélögin varðandi frárennslismál og sú reglugerð er e.t.v. megingrunnurinn að þeim mikilvægu og nauðsynlegu framkvæmdum sem sveitarfélög mjög mörg hafa þurft að fara í, eins og eðlilegt er. Það er krafa okkar daga að umhverfismál séu í góðu ásigkomulagi og við gerum kröfu til þess að það sé sem mest og best hreinsað það sem kemur frá þéttbýlinu þannig að ekki skapist mengun.
    En varðandi þetta frv. vil ég ítreka það, hæstv. forseti, að ég tel að þetta frv. sé mjög mikilvægt og það er afar nauðsynlegt að koma til móts við sveitarfélögin. Ég tel að það sé ekki verið með óeðlilegum hætti að blanda hér verkefnum. Þetta er mjög sérstakt viðfangsefni, úrbætur í umhverfismálum hvað varðar fráveitumál. Þetta er mjög sérstakt verkefni og þetta er verkefni sem leggst mjög mismunandi þungt á einstök sveitarfélög. Sum sveitarfélög búa vel frá náttúrunnar hendi hvað þetta varðar og geta komið sínu frárennsli með einföldum og ódýrum hætti frá sér á meðan önnur þurfa að kosta geysilega miklu til. Við þekkjum dæmi um það, eins og Rangárvallahreppur, svo tekið sé dæmi úr Suðurlandskjördæmi, Borgarnes í Vesturlandskjördæmi, sem þarf að kosta feiknalega miklu til og svo náttúrlega sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem hafa lagt í feiknalega miklar fjárfestingar varðandi frárennslismál. Þannig að aðstæður sveitarfélaganna eru mjög mismunandi hvað þetta varðar. Þess vegna er mikilvægt að koma til móts við þau og þetta frv. miðar að því.
    Hins vegar er alveg ljóst og ekki síst með tilliti til þess með hvaða hætti sveitarstjórnarlögin segja fyrir um þessa verkaskiptingu, að það er eðlilegt að það sé með einhverjum hætti gengið til samninga milli ríkisvaldsins annars vegar og hins vegar forustu sveitarfélaganna í landinu um það með hvaða hætti þarna sé staðið að verki. Og eins og niðurstaðan hefur hér orðið, samkvæmt 4. gr. frv., um það að allt að 200 millj. kr. á ári gangi til þessa verkefnis og framlag ríkisins geti numið allt að 20% af staðfestum heildarkostnaði styrkhæfra framkvæmda, þá ég tel að þarna sé komið verulega til móts við sveitarfélögin. En ég vil samt undirstrika og ítreka það að ég tel að þarna þurfi eftir sem áður að líta sérstaklega til þeirra sveitarfélaga, hæstv. ráðherra, sem þurfa að leggja meiri fjármuni, þegar litið er til heildartekna viðkomandi sveitarfélaga, en önnur þurfa að gera. Ég sé ekki annað en frv. heimili það að taka tillit til þess að þessu marki.
    Allt tal hv. þm. hér um að það sé verið að gera þessi útgjöld að féþúfu fyrir ríkið, þá er náttúrlega á meðan við höfum skatta, meðan við höfum virðisaukaskattskerfi, þá getum við náttúrlega krafist þess að allt sé undanþegið meira og minna. Það eru öll verkefni sem kosta útgjöld og verkefni sem eru virðisaukaskattsskyld með þeim hætti. Ég held því að það sé ekki eðlileg krafa hjá hv. 5 þm. Vestf., sem flutti hér að öðru leyti ágæta ræðu og þekkir þessi mál mjög vel, að ætlast til þess að þessi þáttur virðisaukaskattsskyldrar þjónustu eða starfsemi sé sérstaklega undanþeginn. Við vitum hins vegar að þarna er um mikinn kostnað að ræða sem er óumflýjanlegur og á þessu máli þurfum við að taka. Ég tel að þetta frv. geri það og það sé og eigi að vera hægt á grundvelli þess að ganga til móts við sveitarfélögin varðandi þetta mikilvæga verkefni, sem eru framkvæmdir í fráveitumálum og ná miklum og góðum árangri. Og ég tel að allir þeir sem raunverulega vilja leggja hönd að því verki að bæta hér umhverfi eigi að sameinast um það að þetta frv. hljóti hér skjóta og vandaða afgreiðslu þannig að hægt sé að greiða þennan kostnaðarhlut sem sveitarfélögin verða fyrir hið allra fyrsta.