Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 00:53:03 (4686)


[00:53]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins vegna nokkurra atriða sem fram komu í máli hv. 1. þm. Vesturl., þá er það þannig að almenn starfsemi sveitarfélaga er undanþegin virðisaukaskatti. Það er meginreglan að ríkisvaldið er ekki að skattleggja þá starfsemi sveitarfélaga sem þeim ber með lögum að sinna og að sjálfsögðu á sú sama regla að gilda í þessum efnum eins og þar, eins og hin almenna regla kveður á um.

    Í öðru lagi dró ég fram þá staðreynd að með EES-samningnum var undirgengist að lögtaka hér á landi reglugerðir Evrópusambandsins um fráveitumál en í þeim reglugerðum er að finna miklar kvaðir á sveitarfélögin í þessum efnum, bæði kröfur og tímasetningar. Og það er ástæða þess að þetta mál er að mínu viti komið hér fram að þessar kvaðir sem voru lagðar á sveitarfélögin með samninnum um Evrópska efnahagssvæðið eru of miklar til þess að þau geti fengið risið undir þeim. Frv. þetta, eins og ég sagði, viðurkennir að ríkisstjórnin lagði kvaðir á sveitarfélögin án þess að leggja þeim til tekjustofna til að standa undir þeim kvöðum. Frv. gengur mjög lítið í átt til þess að rétta af þetta misvægi og ég dró það eðlilega fram að ríkisstjórnin hefði brotið meginreglurnar í samskiptum milli ríkis og sveitarfélaga og sérstaklega sína eigin meginreglu eins og hún túlkar hana, að það eigi ekki að leggja verkefni eða kvaðir á sveitarfélög án þess að tekjustofnar fylgi á móti.