Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 00:59:32 (4689)


[00:59]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hér er um að ræða gífurlega mikið verkefni og dýrt fyrir sveitarfélög í landinu að koma í viðunandi horf öllum fráveitum, eins og komið hefur fram í þessari umræðu. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það.
    En það er eitt atriði þessa máls sem ég vildi víkja að og beina spurningum til hæstv. umhvrh. um. Þeir sem til þekkja vita að sveitarfélögin kosta ekki allar fráveitur í landinu. Það eru fyrst og fremst fráveitur í þéttbýli sem sveitarfélögin kosta. Á sveitabýlum þarf einnig að koma upp rotþróm og frárennsli og ég sé ekki að á það sé minnst í þessu frv. Ég á erfitt með að trúa því að hæstv. ríkisstjórn ætli að mismuna svo þegnum í landinu eftir því hvar þeir búa, að hugsa eingöngu um þá sem eru í þéttbýli en ekki hina sem eru í hinum dreifðu byggðum. Eða er það svo að hæstv. umhvrh. ætli sveitarfélögunum að annast framkvæmdir allra fráveitna? Ég vil gjarnan fá skýrt svar frá hæstv. umhvrh. hvort hann ætlist til þess að sveitarfélögin taki að sér það verkefni að annast allar fráveitur frá öllum íbúðarhúsum í landinu. Ef svo er þá

að sjálfsögðu sýnist mér að þetta frv. geti raunverulega jafnað þennan kostnað fyrir íbúa í landinu, en ef það er ekki þá er hér um gífurlegt ójafnaðarfrv. að ræða, ef það á aðeins að endurgreiða virðisaukaskatt af framkvæmdum sem unnar eru við fráveitur í þéttbýli en ekki í dreifbýli. Ég tel að slík mismunun sé alveg óskiljanleg hjá hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkum.
    Hér er talað um það í greinargerð, sýnist mér, þó að lítill tími hafi verið til að skoða þetta frv., að framkvæmdir á íbúa geti kostað frá 30 þús. upp í 90 þús. Ef það væri jöfnuður á þá ætti að greiða niður framkvæmdir á sveitabæjum sem færu yfir þá upphæð sem er talið eðlilegt að miða við þegar greiða skal það sem umfram er. Ef ekkert hefur verið hugsað um þessa hlið hjá stjórnarflokkunum þá tel ég óhjákvæmilegt að það atriði verði athugað í nefnd og bætt úr því.
    Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég vænti þess að hæstv. umhvrh. skilji hvað það er sem ég er að fara og hvaða vandamál hér er á ferðinni og mun þá vita hvernig hann mun svara því.