Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 01:04:30 (4690)


[01:04]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka vel undir með hv. þm. Sturlu Böðvarssyni sem sagði að hér væri um tímamótafrv. að ræða vegna þess að það er rétt hjá honum. Hér er um tímamótafrv. að ræða. Þetta er í fyrsta skipti sem ríkisstjórn tekur með svo snöfurmannlegum hætti á þeim mikla vanda sem blasir við í fráveitumálum sveitarfélaga. Það er alrangt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að hér sé að litlu leyti verið að koma til móts við kostnað sem ríkið hafi hellt yfir sveitarfélögin með því að setja stórauknar kvaðir á axlir þeirra. Það er alrangt. Það er nefnilega ekki svo að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hafi gert það að verkum að þær miklu framkvæmdir sem óhjákvæmilegt er að ráðast í séu til komnar, það er ekki svo. Það er einungis að litlu leyti sem samningurinn sjálfur gerir það. Mig minnir að aukakostnaðurinn hafi verið í kringum einn milljarð, ég bara man það ekki svo glöggt. Þetta kom hér fram við umræður í fyrra. Það er nauðsynlegt að menn skilji að framsýni þeirra sem ráða fyrir sveitarfélögum á Íslandi er slík að löngu áður en Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu þá var í mörgum sveitarfélögum, einkum hin stærri hér á suðvesturhorninu og sömuleiðis á Akureyri, að menn höfðu nægilega framsýni til að bera til að móta stefnu til framtíðar sem tók mið af þeim kröfum sem voru gerðar úti í Evrópu. Þannig að ég vísa þessu alfarið á bug.
    Staðreyndin er sú að það er óhjákvæmilegt annað en fyrir alla skynsama menn að fallast á það að ríkisstjórnin hefur tekið mjög röggsamlega á þessu máli. Það er svo að í upphafi kjörtímabilsins lagði ríkisstjórnin fram stefnu. Hún var í nokkrum liðum. Í fyrsta lagi skyldi gerð úttekt á fráveitumálum og vanda sveitarfélaga í þeim efnum um allt land. Það hefur verið gert. Það var jafnframt sagt að það yrði mótuð stefna í þessum málum. Það hefur verið gert. Það liggja fyrir tillögur í sex liðum frá fráveitunefndinni sem umhvn. setti á laggir. Ein af þessum tillögum var sú að ríkið kæmi fram með beinan fjárstuðning. Það voru nefndar ákveðnar tölur í því sambandi. Þær tölur er að finna í þessu frv. Ríkisstjórnin sjálf sagði að hún mundi stuðla að því að framkvæmdir hæfust árið 1995 sem víðast og jafnframt að þeim yrði lokið á 10 árum. Eftir því er þetta frv. sniðið. Það er gert ráð fyrir því að framkvæmdir á yfirstandandi ári, sem eins og hv. þingmenn vita er árið 1995, hæfust núna og þetta frv. tekur einmitt til 10 ára. Það ber að líta svo á að þarna sé um að ræða fjárhagslegan hvata frá ríkisvaldinu til þess að auðvelda sveitarstjórnum að ráðast í þessar miklu framkvæmdir. Það er rétt að það komi fram að fjölmörg sveitarfélög hafa beinlínis beðið eftir því að stefnu ríkisstjórnarinnar yrði með þessum hætti hrint í framkvæmd. Þau hafa beðið með framkvæmdir og mörg þeirra munu á næstu árum ráðist í þær.
    Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson bað mig um rök fyrir því að ríkisstjórnin hefði nú horfið frá stefnu sinni um hina skýru verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, hér væri um blandaða verkaskiptingu að ræða. Þetta er bara alrangt. Hv. þm., sem er mikill sérfræðingur í lögum um málefni sveitarfélaga, veit að í lögunum sem eru nr. 8/1986 kemur það alveg skýrt fram að þetta er á verksviði sveitarfélaganna. Ríkisvaldið þarf í sjálfu sér ekki að leggja fram beinan fjárstuðning. En það er fyrir að þakka framsýni þeirra manna sem nú sitja í ríkisstjórn Íslands og sér í lagi okkar ágæta hæstv. fjmrh. að menn hafa haft skilning á því að það er nauðsynlegt að aðstoða sveitarfélögin við þetta. Vandinn er svo mikill, verkefnin eru svo yfirgripsmikil að það er ekki hægt að ætlast til þess að sveitarfélögin ráðist í þetta án þess að til beins stuðnings komi.
    Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spyr mig jafnframt um það hvað felist í rauninni í jöfnunarákvæðinu sem má lesa í 2. mgr. 4. gr. Það má í stuttu máli útskýra þannig að sum sveitarfélög eru einfaldlega þannig í sveit sett vegna brimlags, vegna staðsetningar uppi í landi, að kostnaðurinn við fráveituframkvæmdir þar er óhjákvæmilega verulega hærri, í sumum tilvikum miklu hærri hjá einstaka sveitarfélagi heldur en þeim, eins og t.d. hér á suðvesturhorninu, sem búa við einstaklega góðar aðstæður til þess að losa sitt skolp út í hafið eftir að það hefur verið hreinsað eftir þeim reglum sem settar eru fram í mengunarvarnarreglugerð sem aftur er byggð á hinum evrópsku reglum. Þetta er ætlað sem jöfnunarákvæði og í rauninni er það svo að hér er yfirleitt um að ræða smá sveitarfélög. Ég nefni t.d. mjög mörg sveitarfélaganna við suðurströndina og reyndar ýmsa þéttbýliskjarna sem þar eru uppi í landi, sem falla undir þetta og það er í rauninni verið að flytja fjármagn frá stærri sveitarfélögunum, hinum allra stærstu, yfir til hinna smærri þannig að

í þessu felst raunveruleg jöfnun.
    Hv. þm. Jón Helgason spyr mig hvort verið geti að ríkisstjórnin fari fram með svo miklum ólögum að hún vilji ekki koma til móts líka við einstaka bændur í dreifbýlinu. Ég skildi mál hv. þm. þannig. Því er til að svara að hér er einungis um að ræða stuðning við fráveitur sveitarfélaga. Ég tel ekki og ég viðurkenni það alveg fúslega, að sú var hugsunin sem sagt og þetta er kannski skýrt betur í 3. gr. Hv. þm. varpar því fram hvort hugsanlegt sé að hér sé brotin jafnræðisregla. Það er auðvitað nauðsynlegt að hv. umhvn. skoði það vel, ég tel að það sé rétt. En eins og þetta mál er hugsað þá er hér fyrst og fremst um að ræða safnkerfi stærri fráveitna í sveitarfélögum. En þarna er mál sem er sjálfsagt að skoða betur.
    Ég vek eftirtekt á því að hér hefur hver þingmaðurinn á fætur öðrum vakið máls og eftirtekt á þeim mikla vanda sem blasir við í mengunarvörnum sveitarfélaga og það er óhætt að segja að stærsta umhverfisvandamálið sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir í dag eru fráveitumálin. Þau eru óvíða í góðu horfi. Þau eru víða illa stödd og sums staðar í algerum ólestri. Þess vegna er óhætt að segja að með þessu tímamótafrv. er verið að aðstoða sveitarfélögin til þess að ráðast til atlögu við þennan vanda. Ég tel að það sé algerlega óhjákvæmilegt að gera það með þessum hætti og vek reyndar eftirtekt á því að flestir þeir þingmenn sem hér hafa rætt hafa, þrátt fyrir ýmsa agnúa sem þeir kunna að sjá á þessu máli, fallist á það að hér er komið til móts við sveitarfélögin.