Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 01:12:13 (4691)


[01:12]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er augljóst mál að ríkisstjórnin, sem í upphafi kjörtímabilsins fór fram með yfirlýsingu í þessum efnum, hefur ekki fyrr en núna á síðustu dögum síðasta þings fyrir kosningar komið fram máli til að efna þau fyrirheit og það mál er óvenju slaklegt, svo ekki sé meira sagt, og ætti reyndar að heita frv. til laga um stuðning sveitarfélaga við ríkissjóð. Það er önnur saga og ég veit að hæstv. fjmrh. mótmælir því ekki að auðvitað er markmiðið að skattleggja sveitarfélögin. Það er ekkert annað sem vakir fyrir hæstv. ríkisstjórninni en að hirða tekjur af sveitarfélögunum í þessu efni, sem er auðvitað fullkomlega óeðlilegt. En það er önnur saga.
    Ég vil svo sem ekkert frekar skattyrðast við hæstv. umhvrh. eða eiga orðastað við hann og deila um hin beinu áhrif af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það liggur allt fyrir skjalfest og óþarfi að vera að skiptast frekar á orðum um það efni, en vil þess í stað spyrja eftir nánari útskýringum á 2. mgr. 4. gr. þar sem er um jöfnunarákvæði að ræða. Ég spyr hvort hámarkið um 20% af heildarkostnaði í 1. mgr. greinarinnar eigi þá við um þetta jöfnunarákvæði líka þannig að sveitarfélag geti aldrei fengið hærra en 20% af kostnaði endurgreiddan. Ef þetta hámark á við líka í síðari málsgrein þá er í raun um að ræða að jöfnunarframlagið geti að hámarki orðið sú fjárhæð sem nemur virðisaukaskattinum af framkvæmdinni og það er ekki ýkjamikill styrkur af hálfu ríkisvaldsins.