Framhald þingfundar

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 01:19:31 (4697)


[01:19]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég gef mér það að hæstv. umhvrh. hafi verið að greiða sérstaklega fyrir þingstörfum með þessari snjöllu ræðu sem hann flutti áðan. Það er ekki svefnleysið aðallega sem hrjáir ræðumann, satt best að segja, og telst ekki til tíðinda þó að forsetar séu spurðir um fundarhaldið þegar kominn er þessi tími sólarhrings. Það sem ég vildi einfaldlega taka hér upp, hæstv. forseti, er að það hefur ekki verið venjan að láta standa hér linnulausa fundi og nefndarfundi nánast allan sólarhringinn í aðdraganda eldhúsumræðu. Lengst af var það hefð og ófrávíkjanleg venja að hvorki voru þingfundir né nefndarfundir þann dag.
    Nú stendur þannig á að á morgun eru bæði boðaðir nefndafundir og síðan þingfundur kl. 10.30. Við erum búnir að vera á stanslausum fundum frá því í morgun, þar á meðal ræðumaður. Ég er einn af ræðumönnum í eldhúsdagsumræðum annað kvöld og var að hugsa til þess hvort ekki væri ætlunin að veita einhverja lágmarkshvíld og einhvern undirbúningstíma fyrir þá umræðu og hafði þess vegna í huga að fara í rólegheitum fram á það við forseta hvort ekki væri orðið ágætis dagsverki lokið. Mér sýnist að við séum búin að fara í gegnum ein 30 mál og koma flestum þeirra frá með atkvæðagreiðslum eða umræðum og hafði látið mér detta í hug að það sem eftir væri mætti bíða morguns.
    En það er kannski efni þessara frumvarpa sem gerir hæstv. umhvrh. svona ákafan að í þeim er eitthvað verið að fjalla um brennivín og hæstv. ráðherra kemur upp af þessum fítonskrafti og krefst þess að málin verði rædd í nótt og menn eigi að leggja á sig miklar vökur og stórar til þess að koma þessu áfram. Ég held að það eigi ekkert að ráðast af því hvort menn eru hlynntir efni viðkomandi frumvarpa og þó að 33. mál fjalli um verslun ríkisins með áfengi og tóbak, þar á meðal væntanlega fínkorna neftóbak, og lyf þá sé ég ekki að það eigi að fá neitt öðruvísi meðhöndlun en önnur mál.