Gjald af áfengi

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 01:40:55 (4702)


[01:40]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. flutti afar sérkennilega ræðu, svo ekki sé meira sagt, og kenndi í henni ýmissa grasa. Mér fundust til að mynda mjög merkileg ummæli hans sem nánast hljómuðu eins og hótanir í mínum eyrum þegar hann var að fjalla um að það væri sérkennilegt að menn á opinberum styrkjum væru við það að framleiða áróður eða efni af tilteknu tagi og demba yfir þingmenn. Það var varla hægt að skilja hæstv. ráðherra öðruvísi en hann teldi ekkert annað við þetta lið að gera en taka af því styrkina, þeir gætu þá a.m.k. fjármagnað það sjálfir að demba svona efni yfir menn. Ég verð að segja alveg eins og er að það er langt síðan ég hef heyrt svona tekið til orða af hálfu eins hæstv. ráðherra um opinbert ráð sem starfar samkvæmt lögum því ætli ekki sé óhætt að tala hér mannamál, hæstv. fjmrh. er væntanlega að tala um áfengisvarnaráð. Þetta var nokkuð sérkennileg kveðja af því að ég veit ekki til þess án þess að það sé mitt hlutskipti að forsvara þá menn hér annað en þeir telji sig vera að gera skyldur sínar og rækja trúnað við það verkefni sem þeim ber að gera samkvæmt lögum.
    Í öðru lagi var hæstv. ráðherra eiginlega að biðjast vorkunnar vegna þess að hann ætti svo bágt vegna þess að útlendingar skildu ekki þegar hann væri að segja þeim að hann kæmist ekkert áfram með mál sín á þingi. Hæstv. ráðherra verður bara að horfast í augu við það að ekki er hægt að sjá að hér hafi verið lögð nein sérstök áhersla á þessi mál af þeim sem hafa stjórnað þinginu og það er auðvitað forusta ríkisstjórnarliðsins í þinginu sem ber þar aðalábyrgð á, formenn þingflokka stjórnarliðsins og hæstv. forseti. Staðreyndin er ósköp einfaldlega sú að það er búið að taka fáeina klukkutíma í þessi mál. Þó að það sé út af fyrir sig rétt hjá hæstv. ráðherra að þau hafi verið komin fram fyrir jólaleyfi þá liggur þetta svona. Það þýðir ekkert að nöldra eða skammast út í aðra hér, áfengisvarnaráð eða aðra og enn síður held ég að menn glúpni fyrir því að hæstv. ráðherra eigi svo bágt í útlöndum vegna þess að honum gangi illa að útskýra það fyrir útlendingum að hann komist ekkert áfram með sín mál.