Gjald af áfengi

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 01:50:39 (4706)


[01:50]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði áðan að það var ákaflega furðuleg framsöguræða fyrir frv., sem yfirleitt eru haldnar til þess að skýra út efni þess, sem hæstv. fjmrh. flutti. Undir öðrum kringumstæðum býst ég við að sú ræða ein út af fyrir sig mundi kalla á býsna miklar umræður á Alþingi. En það er orðið áliðið nætur og ég hafði ekki hugsað mér að tala langt mál. Ég var á mælendaskrá í hinu málinu sem var afgreitt síðast og lét strika mig þar út en af orðum hæstv. ráðherra var ekki annað að skilja áðan en hann nefndi mig sérstaklega sem riddara. ( Fjmrh.: Bindindis, það er ekki skammaryrði.) Nei, en fór síðan að tala um þá sem væru á opinberum styrkjum að tala í þessum málum. Ég veit ekki hvort ég átti þá sneið frá honum en annars var erfitt að skilja hvað hann var að fara.
    Sannleikurinn í málinu er sá að það er takmarkaður ræðutími við þessa umræðu. Ég er búinn að tala einu sinni innan þeirra marka. Ég man ekki nákvæmlega hversu langt það var en yfir 40 mínútur getur það ekki verið. ( Fjmrh.: 37 mínútur.) Ef það er svo að ég með þessari einu ræðu hef komið í veg fyrir að 1. umr. um frv. yrði lokið þá er áhrifamáttur minn mikill.
    Hæstv. ráðherra var að rekja sína raunasögu áðan en ég man ekki betur en þegar síðasta mál var síðast á dagskrá væri mér a.m.k. sagt að umræðu hefði verið frestað vegna þess að hæstv. fjmrh. hefði farið í burtu. Ég verð þá leiðréttur ef það er ekki rétt. Ég held þess vegna að það sé eiginlega sama hvernig á málflutning hæstv. ráðherra er litið, þar er sanngirninni ekki fyrir að fara.
    Hæstv. fjmrh. sagði að ekki væri um grundvallarbreytingu að ræða þó að afnema ætti einkaleyfi á innflutningi áfengis. Þar er að sjálfsögðu um andstæðar skoðanir að ræða. Ég tel að þetta sé grundvallarbreyting. Eins og hér hefur komið fram áður var þetta rætt í sambandi við EES-samninginn. Þá lýstu hæstv. ráðherrar því yfir að sá samningur mundi engin áhrif hafa skipan áfengissölumála hér á landi. Nú segir hæstv. fjmrh. að það hafi ekkert verið að marka þessar yfirlýsingar þeirra, þær væru tóm vitleysa. Hverju á maður þá að trúa af yfirlýsingum hæstv. ráðherra? Ég sagði það í þeirri einu ræðu minni sem ég hef flutt um þetta mál fyrr á þinginu að ég óttaðist að ríkisstjórnin væri búin að gera þennan fyrirvara áhrifalítinn vegna þess að þá lýsti hæstv. fjmrh. því yfir að þessi breyting væri bara bisniss, þetta væri efnahagsmál en ekkert félags- eða heilbrigðismál. Hann er þannig fyrir fram búinn að gera það sem hann getur til þess að gera þennan fyrirvara að engu. Þegar þannig er á málum haldið er auðvitað ekki von á góðu.
    Ég mun ekki, eins og ég sagði, fara mörgum orðum um þetta mál nú. En komi það aftur til 2. umr. mun ég nota tækifærið til þess að koma að ýmsu sem mér finnst ástæða til þess að koma á framfæri, ekki síst eftir ræðu hæstv. ráðherra. En ég vildi aðeins minnast á það að á fyrsta þingi þessarar ríkisstjórnar lagði hæstv. þáv. og núv. heilbrrh. fram frv. til laga um áfengisvarnir og aðrar vímuefnavarnir. Síðan hefur það frv. ekki verið lagt fram. Hefur hæstv. ríkisstjórn komið í veg fyrir það að hæstv. heilbrrh. hafi getað lagt það frv. fram? Hefur hæstv. ríkisstjórn farið eins illa með hæstv. heilbrrh. og hæstv. fjmrh. var að lýsa áðan að við hv. alþm. hefðum farið með hann í þessu máli og bannað honum að flytja þetta frv. aftur eða hvernig stendur á að það hefur ekki séð dagsins ljós aftur á þinginu?
    Það er margt fróðlegt og athyglisvert í þessu frv. og þar stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nefndin sem samdi það frv. lagði áherslu á ýmis atriði. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verði skipuð sérstök stjórn, fortakslaust auglýsingabann á áfengi og merkingar á umbúðir áfengis með hliðsjón af skaðsemi varnings.``
    En ég ætla aðeins að lokum að víkja að einu atriði. Í sambandi við þáltill. sem ég flutti vitnaði ég í eina setningu í greinargerð þessa frv. þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Frá áramótum 1990--1991 hefur verið bannað að selja áfengi við þjóðvegi í Frakklandi og skýtur þar skökku við þegar hér á landi hefur á sama tíma verið leyfð slík sala.``
    Hv. 5. þm. Reykv. tók þetta ákaflega óstinnt upp að ég skyldi vitna í þingskjal hæstv. ríkisstjórnar og sagði að það sem í því stæði væri tóm vitleysa.
    Ég vil svo að lokum víkja að öðru atriði. Hæstv. fjmrh. gaf það í skyn að viðhorf mitt til þessa máls væri eingöngu að bera hag einhverra starfsmanna fyrir brjósti. Nú vil ég ekki gera lítið úr hag starfsmanna þar sem þeir vinna. En ég minnist þess ekki að ég hafi fjallað mikið um þá hlið málsins í minni ræðu enda er mér annað miklu ofar í huga og það eru örlög þeirra mörgu sem lenda í hinum gífurlegu erfiðleikum, slysum og margs konar þrenginum af völdum áfengisneyslunnar. Ekki síst ætti það að vera öllum í fersku minni nú þessa síðustu daga þegar ekki linnir ofbeldi og árásum vegna neyslu áfengis. Og að hæstv. ríkisstjórn skuli þá leggja gífurlegt kapp á að koma þessu máli áfram, breytingu sem allir sem vilja horfa á málið af sanngirni viðurkenna að muni leiða til aukins þrýstings á neyslu eftir því sem þeim fjölgar sem um söluna annast. Það hefur t.d. verið undirstrikað mjög í sambandi við tóbaksvarnir. Ræða hæstv. fjmrh., hvaða orð sem hann hefur um mig og þá sem eru sömu skoðunar og ég, mun þess vegna ekki hafa áhrif á mitt viðhorf.