Listmenntun á háskólastigi

102. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 13:27:09 (4727)

[13:27]
     Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 730, um frv. til laga um listmenntun á háskólastigi, frá menntmn.
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem kveður á um listmenntun á háskólastigi á vegum sjálfstæðrar stofnunar er starfi á grundvelli samnings við menntamálaráðherra.
    Nefndin studdist í umfjöllun sinni við umsagnir frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, Leiklistarskóla Reykjavíkur, Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Rithöfundasambandi Íslands, borgarstjórn Reykjavíkur, Tónlistarráði Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Listdansskóla Íslands, Íslensku óperunni, Söngskólanum í Reykjavík, Bandalagi íslenskra listamanna, Helgu Hjörvar, fyrrverandi skólastjóra Leiklistarskóla Íslands, Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Félagi íslenskra leikara, Kennarasambandi Íslands, Háskólanum á Akureyri, Félagi leikstjóra á Íslandi, Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, Arkitektafélagi Íslands, Íslenska Arkitektaskólanum og nemendafélögum Myndlista- og handíðaskóla Íslands.
    Umsagnir framangreindra aðila voru afar jákvæðar. Nefndin telur að tilkoma listaskóla á háskólastigi sé mikið framfaraspor og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með örlítilli breytingu þar sem í stað orðsins ,,laga`` á eftir orðinu ,,framkvæmd`` í 3. gr. komi reglugerðar.