Listmenntun á háskólastigi

102. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 13:56:58 (4735)


[13:56]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég harma það að hæstv. ráðherra hefur ekki haft tök á því að kynna sér betur skjalasafn menntmrn. en þar liggja fyrir niðurstöður varðandi samkomulag á milli skólanna sem hafa veitt kennslu í listum á háskólastigi. Það hefur legið fyrir og samkomulag þeirra allra um það hvernig yrði hagað samvinnu þeirra við Háskóla Íslands. Það kemur mér satt að segja mjög á óvart ef hæstv. ráðherra þekkir ekki til þeirra gagna og ég harma það að svo sé. En það er auðvitað hugsanlegt fyrir hann að gramsa í skúffunum enn þá og athuga hvort hann finnur þessi skjöl. En ef hann finnur þau ekki þá get ég veitt honum lið í þessu efni. ( Menntmrh.: Takk. Það er gott að vita af því að skjölin eru til.)