Skoðun kvikmynda

102. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 14:13:38 (4739)


[14:13]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé líka spurning um fréttamatið og fréttamatið er yfirleitt alltaf heldur neikvætt þannig að það er alltaf verið að sýna það sem er verst og ógeðslegast í hverju tilviki.
    Nú hefur það stundum gerst að það er varað við því þegar verið er að sýna fréttamyndir í sjónvarpi að myndirnar sem á eftir koma séu ekki ætlaðar börnum eða viðkvæmu fólki. Þó ég sé ekki að leggjast gegn því að menn séu upplýstir um það sem er að gerast í heiminum og þar með talið ofbeldi sem á sér stað, þá er stundum hægt að gera það án þess að sýna allar þær myndir sem frá því koma. Ég held að þetta sé líka spurning um það að fólk sjálft sé meðvitað um þetta, að almenningsálitið leggist gegn þessu og fréttamenn finni það. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að það komi fram í umræðum um þetta frv. á Alþingi að fólk er almennt ekki sammála því að allar þær fréttamyndir sem okkur er boðið upp á þurfi að vera til þess að upplýsa okkur um það sem verið er að segja frá. Það er oft hægt að gera það án þess.