Skoðun kvikmynda

102. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 14:15:12 (4740)


[14:15]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir framlagningu þessa frv. og afgreiðslu á því. Fyrr á þessu þingi bar ég fram fyrispurn um hvað liði frv. um þetta efni þar sem ljóst var að við setningu laga um vernd barna og unglinga hafði hlutverk Kvikmyndaeftirlits ríkisins í raun og veru fallið úr lögunum þannig að það hafði starfað án lagastoðar. Þess vegna var bent á að nauðsynlegt væri að setja sérstök lög um hlutverk þess. Þetta hefur verið gert og vil ég þakka bæði hæstv. ráðherra og hv. nefnd fyrir það.
    Það er ekki vandalaust að setja lög sem þessi því að allar hömlur á efni eru auðvitað ákveðin ritskoðun sem er orð sem við öll erum mjög hrædd við. Ég held þó að enginn efist um að það geti verið alvarlegt fyrir börn og óharðnaða unglinga að horfa á mikið af ofbeldiskenndu efni hvort sem það heitir ofbeldi eða klám, eða er það nú ekki eitt og það sama þegar öllu er á botninn hvolft? Það er þess vegna ekki auðvelt að gera slík lög þannig úr garði að óumdeilanlegt sé að þau séu nauðsynleg.
    Hér hefur verið minnst á annars vegar fréttir og hins vegar annað efni. Ég held að þarna sé mikill munur á vegna þess að fréttir eru þannig fram settar að yfirleitt er fréttamyndin skýring á því sem hefur verið að gerast. Hvort sem það er í eftirlætisríki hv. 3. þm. Reykv., Rússlandi, eða öðrum ríkjum, nógu er af að taka í okkar vonda heimi, þá held ég að viðbrögð þess sem á horfir séu hryllingur og eiga að vera það, en því fylgir skýring, bæði fréttamanna og þeirra fullorðnu sem horfa á fréttina með börnunum. Það sem er miklu óhuggulegra er hryllingsiðnaðurinn sem er beinlínis gerður til þess að skemmta fólki og sem afþreying. Auðvitað vitum við það að eins og okkar samfélag er sett saman þá er hópur af börnum einn heima langan tíma úr deginum og hefur greiðan aðgang að slíku efni og börnin hafa engan sér við hlið til þess að greiða úr eða fá skýringu á nokkurn hátt. Ég er ekki í nokkrum vafa um að sú ofbeldisalda sem hefur verið að ríða yfir okkur meðal barna og unglinga á rætur í þessum iðnaði, svo skemmtilegur sem hann nú er.
    Hvernig svo á að koma í veg fyrir það er verra að dæma. Það er auðvitað hægt að skylda kvikmyndahúsin til þess að láta skoða sínar myndir og stjórna því að börn og unglingar fari ekki til að horfa á slíkar myndir. Miklu verra er auðvitað að eiga við myndbandaleigurnar og síðan alla aðra möguleika sem upp hafa komið sem eru alls kyns kapalkerfi innan fjölbýlishúsa. Nú er ég ekki svo vel að mér að ég viti hvar það fólk kaupir sínar myndir en grun hef ég um að það geti gert það hvar sem er, bæði á myndbandaleigum, sem ættu að vera undir einhverju eftirliti, en líka erlendis þar sem eftirlit er miklu minna. Þess vegna hafa komið öðru hverju fréttir af því að börn hafi verið að horfa á einhverja andstyggð sem enginn kannski kærði sig um að hafa í kapalkerfi.
    Ég held þess vegna að hér sé enn verk að vinna. Það verður að koma í veg fyrir að þetta efni sé á boðstólum. Ég held að við þurfum ekkert á því að halda og það sé engum til góðs, hvorki fullorðnum né börnum og allra síst börnunum. Það nær ekki nokkurri átt að börn vaxi upp með þeirri fyrirmynd að það sé hægt að afgreiða alla hluti með kjaftshöggum og byssukjöftum og auðvitað fá börnin fullkomna ranghugmynd um hvernig ber að greiða úr vandamálum og bregðast við þeim.
    Þó að ég sé þakklát fyrir að þetta frv. nær afgreiðslu á þessu þingi, sem ég mun að sjálfsögðu styðja, þá vildi ég biðja hæstv. menntmrh. eða hvern þann sem þar við tekur að sjá svo til að hér verði unnið betur að þeim öðrum möguleikum sem menn hafa.
    Hvort það er svo yfirleitt hægt skal ég ekki segja. Nú hafa margir skerma sem ná um hálfa heimsbyggð og þar veður allt uppi í þessum sora sem menn virðast nenna að leggja sig niður við að framleiða. Hvort hægt er að hindra það á nokkurn hátt, það má vel vera að svo sé ekki ( GHall: Skjóta . . .  ) og e.t.v. er heimurinn varnarlaus fyrir þessu. Hv. 16. þm. Reykv. var að kalla eitthvert ráð fram í og hafi hann einhver ráð við þessu vildi ég biðja hann að skýra það fyrir þingheimi.
    En meira skal ég ekki segja um þetta. Ég fagna því að þetta frv. er fram komið og líklegt til að ná afgreiðslu en ég mælist til að betur verði að unnið svo við getum varið litlu börnin okkar fyrir sora af þessu tagi. Hann er engum til góðs.