Tilkynning um dagskrá

102. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 14:27:15 (4743)

[14:27]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Hæstv. forseti. Samgn. hefur haft til athugunar frv. til laga um leigubifreiðar ásamt fylgifrv. þess, frv. til laga um breytingar á lögum um vöruflutninga á landi og frv. til laga um breytingu á lögum um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum, nr. 53/1987, með síðari breytingum. Þessi frumvörp eru mjög tengd og tiltekin ákvæði eru hin sömu í frumvörpunum öllum þannig að ég er þakklátur hæstv. forseta fyrir það að heimild er veitt til þess að mæla fyrir þeim öllum í senn.
    Samgn. hefur fjallað nokkuð ítarlega um þessi mál. Frv. til laga um leigubifreiðar var einnig flutt á síðasta Alþingi af hæstv. samgrh. fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar, en enn fremur flutti frv. hv. 3. þm. Reykv.
    Nefndin hefur fengið á sinn fund til þess að fjalla um þetta mál Helga Jóhannesson, lögfræðing í samgönguráðuneyti, Sigfús Bjarnason formann og Unni Sverrisdóttur, framkvæmdastjóra Frama, Helga Stefánsson formann og Guðmund Kr. Jónsson, framkvæmdastjóra Landssambands vörubifreiðastjóra, Pétur Maack Pétursson stjórnarformann og Ingólf Finnbjörnsson, framkvæmdastjóra Trausta, félags sendibifreiðastjóra, Kjartan Haraldsson varaformann og Rúnar Jónsson, stjórnarmann í Framabraut, félagi launþega í leiguakstri, Sigurð Sigurjónsson, formann Átaks, Guðjón Andrésson leigubifreiðastjóra og Sigurgeir Aðalgeirsson formann og Guðmund Arnaldsson framkvæmdastjóra Landvara.
    Öllum þessum aðilum sem komu á fund nefndarinnar færi ég þakkir fyrir ýmsar ábendingar og annað það sem þeir áttu hlut að varðandi afgreiðslu þessa máls.
    Samgn. lítur svo á að þessi frumvörp fjalli um mjög mikilvæg málefni sem er leigubifreiðaakstur, vöruflutningar og skipulag fólksflutninga. Hér er fjallað um lagaramma utan um ákaflega þýðingarmikla þjónustu sem borgurunum er veitt. Við í samgn. lítum svo á að mikilvægt sé að vanda slíka lagaramma, ekki síst í ljósi reynslu undangenginna ára þar sem tiltekin atriði hafa verið kærð fyrir Evrópudómstóli en einnig leitast við að gæta þess að þessum málum sé skipað á þann veg að hvort tveggja í senn gerist að ekki sé verið að mismuna þeim aðilum sem þessa atvinnu stunda um of og ekki síður hitt að lagaramminn feli það í sér að það megi vænta þess að þeir sem þessa starfsemi stunda hafi burði til þess að gæta fyllsta öryggis í því starfi sem þeir taka að sér. En borgararnir eiga mikið í húfi við það að þess atriðis sé gætt.
    Ég vil gjarnan segja frá því að nefndin leit svo á að það væri þýðingarmikið að reyna að vinna þetta mál með þeim hætti að það mætti takast um það sem breiðust samstaða og nefndin vann sitt verk í ljósi þessara sjónarmiða. Ég vil þakka nefndinni og öðrum sem að þessu máli hafa komið þann mikla hlut sem allir aðilar hafa átt í því að þessi samstaða hefur í meginatriðum tekist.
    Nefndinni tókst að ná samkomulagi sem ég tel að sé breið samstaða um á meðal hagsmunaaðila og sú samstaða byggist á þeim brtt. sem nefndin hefur flutt á þskj. 735, 736 og 737.
    Ég tel þá rétt að ég fari yfir þær brtt. sem nefndin leggur til að gerðar verði á þessum frumvörpum. Þá er það fyrst frv. til laga um leigubifreiðar. Þar er í fyrsta lagi lagt til að við 5. tölul. 3. gr. frv. bætist málsgrein sem nánar verður skýrð þegar vikið verður að brtt. við 7. gr. Gert er ráð fyrir í tillögum nefndarinnar að breytingar verði gerðar á 6. gr. frv. Þar er í fyrsta lagi um það að ræða að við umsóknir um atvinnuleyfi til leiguaksturs verði veittur nokkur forgangur þeim aðilum sem stundað hafa leiguakstur í a.m.k. eitt ár, þ.e. að reynsla í því starfi sem menn þurfa að sækja um leyfi til þess að stunda verði metin nokkurs þannig að að öðru jöfnu gangi þeir fyrir.

    Í 6. gr. frv. er sagt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þó er heimilt að halda námskeið fyrir umsækjendur um atvinnuleyfi`` o.s.frv. Nefndin kýs að gera tillögu um breytingar á þessu orðalagi þannig að það verði heldur ákveðnara og leggur til að þar verði sagt: ,,Að jafnaði skal halda námskeið fyrir umsækjendur um atvinnuleyfi og má gera prófárangur að skilyrði fyrir því að leyfi verði veitt.``
    Nefndin ákvað að hafa þetta ákvæði ekki alveg fortakslaust. Þetta orðalag bendir þó til þess að hverju sinni sem sótt er um atvinnuleyfi, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem aðalþéttbýli landsins er og flestir leigubifreiðastjórar, verði ævinlega um slík námskeið að ræða. Námskrá hefur verið sett upp um slík námskeið. Þau taka hálfan mánuð og þar er hægt að koma við mikilli fræðslu og upplýsingum á þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra sem stunda þjónustu af þessu tagi og er það allt vel. Á hinn bóginn þar sem leiguakstur er stundaður á fámennari stöðum og leigbílstjórar kannski innan við einn tug, umsækjendur kannski einn eða tveir, þá felur þetta orðalag í sér að það er hægt að gera undantekningu eða frávik frá því að námskeið sé haldið eða að þessum umsækjendum sé gert að sækja slíkt námskeið hingað suður til Reykjavíkur.
    Nefndin gerir brtt. við 7. gr. frv. Í 7. gr., eins og frv. er orðað, segir, með leyfi hæstv. forseta, í 3. mgr.:
    ,,Samgönguráðherra er heimilt að fela umsjónarnefnd fólksbifreiða eða félögum bifreiðastjóra að setja reglur um þessar undanþágur`` --- það eru undanþágur sem skýrðar eru í 2. gr. sömu greinar --- ,,og annast framkvæmd þeirra.``
    Ýmsar athugasemdir komu fram við þessa orðaskipan eða þessi ákvæði 7. gr. og ákvað nefndin að gera brtt. sem fela í sér tvennt: Í fyrsta lagi að samgrh. setji reglur um undanþágur samkvæmt 2. mgr. að fengnum tillögum umsjónarnefndar og félags eða félaga bifreiðastjóra á hlutaðeigandi svæði.
    Með þessu er æðsta stjórnvaldi, þ.e. ráðherra, falið að setja reglur um undanþágur að fengnum tillögum frá þeim aðilum sem um málið fjalla og reglunum eiga að hlíta. Það kynni að vera óeðlilegt og nefndin leit svo á að það væri óeðlilegt að heimilt væri að fela einstökum félögum að setja slíkar reglur og miklu sterkara að það sé gert af æðsta stjórnvaldi. Á hinn bóginn leggur nefndin til að ráðherra verði heimilt að fela félagi bifreiðastjóra, þar sem meiri hluti bifreiðastjóra á svæðinu eru félagar, að annast framkvæmd á þessum málum, þ.e. á veitingu undanþágna samkvæmt reglunum í samráði við umsjónarnefnd fólksbifreiða. Síðan segir í brtt. nefndarinnar:
    ,,Bifreiðastjóri getur áfrýjað ákvörðunum félagsins til umsjónarnefndar enda skal fyllsta jafnræðis gætt. Ákvarðanir umsjónarnefndar um kæru eru endanlegar innan stjórnsýslunnar`` o.s.frv., eins og þar segir, sem er óbreytt ákvæði í síðasta málslið þessarar greinar.
    Áfrýjunarréttur þeirra sem telja sinn hlut fyrir borð borinn við veitingu slíkra leyfa er þýðingarmikill og það er jafnframt þýðingarmikið að sú áfrýjun hljóti endanlega niðurstöðu af hálfu stjórnsýslunnar hjá þeim sem áfrýjað er til, en að sjálfsögðu getur sá sem ekki vill una þeirri niðurstöðu leitað til dómstóla til þess að reka réttar síns ef hann telur að þess sé þörf.
    Þá er í 7. gr. tekinn upp nýr málsl. sem bætist við greinina. Í þessari grein er tekin upp sú aðalregla um aldurstakmörk þeirra sem stunda leiguakstur að leyfi falli niður við 70 ára aldur leyfishafa. Þessi regla er tekin upp ekki einvörðungu varðandi leigubifreiðastjóra heldur einnig varðandi þá er stunda akstur vöruflutninga á landi og fólksflutninga, t.d. á svokölluðum hópferðabifreiðum. Nefndin er sammála því að hér sé um aðalreglu að ræða. Á hinn bóginn leggur nefndin til að um undanþágur geti orðið að ræða og leggur til að komi nýr málsliður sem bætist við svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þó er heimilt að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn allt til 75 ára aldurs leyfishafa ef hann telst hæfur til að stunda leiguakstur á grundvelli hæfniprófs og læknisskoðunar eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð.``
    Það er auðvitað alkunnugt að þessi mál hafa verið nokkuð í umræðu á undanförnum árum og sýnast mörgum viðkvæm. Svo er auðvitað um þessa starfsemi, sem ýmsa aðra, að hæfni manna endist misjafnlega lengi fram eftir aldri og e.t.v. gæti verið átæða til þess að ákvæði um hæfnipróf tækju gildi fyrr en við lok 71 árs aldurs. Það er þó ekki gerð tillaga um það hér, en kunnugt er að það er ákaflega mismunandi hvenær einstakir ökumenn eru hæfir og hvenær ekki hæfir til þess að valda sínu starfi. Það er skoðun nefndarinnar og það er túlkun nefndarinnar, sem rétt er að árétta hér, að þeir bifreiðastjórar sem misst hafa atvinnuleyfi vegna aldurs frá því að aðlögunartími samkvæmt lögunum frá 1989 um leigubifreiðar rann út eigi sama rétt á að gangast undir hæfnipróf og læknisskoðun eins og aðrir sem verða 71 árs eftir að þessi lög taka gildi.
    Það er jafnframt álit og skoðun nefndarinnar og það var álit þeirra aðila sem nefndin kvaddi til fundar við sig, að það hæfnipróf sem hér er um rætt verði raunverulegt hæfnipróf og hér verði um raunverulega læknisskoðun að ræða en ekki leyfisveitingar meira og minna sem gefnar eru út eftir að gengið hefur verið undir slík próf til málamynda. Þetta þykir mér rétt að taka fram vegna þess að með þessari tillögu er ekki verið að gefa þessum málum lausan tauminn heldur að gefa hér færi á því að þeir sem raunverulega hafa til þess burði og hæfni geti átt kost á því að stunda þessa atvinnu lengur en til loka 71 árs aldurs.
    Það er rétt að taka það fram að þessi ákvæði gilda um alla þá sem stunda leiguakstur, hvort sem það er á hinum svokölluðu leigubifreiðum og einnig þeim sem stunda vöruflutninga eða fólksflutninga á stærri bifreiðum.

    Þá er brtt. nefndarinnar við 8. gr. sem er um tilnefningu í umsagnarnefnd fólksbifreiða, að í stað þess að bifreiðastöð eða bifreiðatöðvar tilnefni einn mann þá leggur nefndin til að það verði félag eða félög leigubifreiðastjóra sem tilnefni þennan fulltrúa sameiginlega í umsjónarnefnd. Telur nefndin að það sé eðlilegra að það séu þeir sem stunda starfið heldur en þeir sem kunna að vera forstjórar fyrir slíkum stöðvum.
    Nefndin gerir brtt. við 12. gr. frv., sem flutt er til þess að taka af tvímæli þannig að það verði engin breyting á takmörkunum á fjölda bifreiða á hverju svæði fyrir sig fyrr en slíkt hefur verið ákveðið af þar til bærum aðilum á grundvelli þessara nýju laga, ef þau ná afgreiðslu á hinu háa Alþingi. Þetta er m.a. gert að ábendingu frá Landssambandi vörubifreiðastjóra og sýnist vera fullkomlega réttmætt að á þessu sé enginn vafi.
    Þá eru hér að síðustu lagt til að gerðar verði breytingar á ákvæði til bráðabirgða, en þar segir að í fyrsta lagi er lögð til sú breyting að þrátt fyrir ákvæði 5. tölul. 3. gr., þ.e. um lok leyfis hjá þeim sem verður 71 árs skulu þeir sem stunda akstur leigubifreiða við gildistöku laga þessara og hafa verið undanþegnir reglum um hámarksaldur halda réttindum sínum óskertum til 1. jan. 1996. Þetta á við t.d. um alla þá sem eru vörubílstjórar, sem kallað er í daglegu tali, þeir sem annast vöruflutninga, þeir sem annast fólksflutninga á bifreiðum, sem ákvæði um hámarksaldur hafa ekki náð til fram að þessu. Þessi aðlögunartími er auðvitað mjög stuttur eða einungis fáir mánuðir að því tilskildu að lögin fái afgreiðslu. Þetta er 1. jan. 1996. En hann er hafður svo stuttur sem raun ber vitni í ljósi þeirra undanþáguákvæða sem nefndin gerir tillögur um, að þessum aðilum gefist færi á að ganga undir hæfnipróf og læknisskoðun og hljóta framlengingu leyfisins á þeim grundvelli. Væri ekki slík undanþága veitt í lögunum þá tel ég og nefndin telur að þá væri eðlilegt að þessi aðlögunartími væri rýmri eða a.m.k. einu ári lengri, til 1. jan. 1997. En nefndin telur að ekkert sé við því að segja úr því að undanþáguákvæðin sem skýrð hafa verið verði til staðar í lögunum, að þá megi menn sætta sig við það að þessi aðlögunartími sé skammur eins og hér er gerð tillaga um.
    Loks er þess að geta að í b-lið brtt. við ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um það að þeir sem fá undanþágu á grundvelli 2. málsl. 5. gr. geti haldið áfram að aka bifreið standist þeir það hæfnipróf allt til 75 ára aldurs.
    Ég hef þá farið yfir þær brtt. sem lúta að frv. til laga um leigubifreiðar. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum um frv. til laga um breytingu á lögum um vöruflutninga á landi eða frv. til laga um breytingu á lögum um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum vegna þess að þær breytingar sem nefndin leggur til að gerðar verði á þessum frumvörpum er einungis til samræmis við það sem skýrt hefur verið frá og skýrt hefur verið hér við frv. um leigubifreiðar. Ég vil þó geta þess að það komu ábendingar um að skilgreining á því hvað væri flutningabifreið, vörubifreið, væri tæpast nógu glögg í frv. og athugasemdum með frv., en nefndin lítur svo á og leggur til að sú túlkun sé viðhöfð að flutningabifreið teljist svo þrátt fyrir það að hún sé búin krana til lestunar eða losunar á bifreið. ( Gripið fram í: Vörubifreið.) Vörubifreið. Þessi skilgreining er ekki nákvæmlega svo útskýrð í athugasemdum með frv., en nefndin telur eðlilegt að þess háttar skilgreining sé viðhöfð og að lögin taki til þeirra bifreiða sem annast flutninga, þ.e. vörubíla, þó það séu það sem kallað er kranabílar.
    Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að lengja þetta mál. Ég tel að það hafi verið skýrt. Ég fagna því að það skyldi takast sú samstaða um málið í nefndinni sem raun varð á og vænti þess að það megi takast að afgreiða málið á þeim stutta tíma sem eftir lifir þessa hv. Alþingis. Undir nál. skrifa allir hv. nefndarmenn. Varaformaður nefndarinnar, Petrína Baldursdóttir, skrifar þó undir nál. með fyrirvara.