Tilkynning um dagskrá

102. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 14:52:22 (4744)


[14:52]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég tel rétt að það komi hér fram að gert var samkomulag á fundi þingflokksformanna seint í gærkvöldi um það að þessi fundur yrði haldinn í dag frá kl. 1 til 2.30. Jafnframt var rætt um að það væru samkomulagsmál sem þar væri verið að ræða sem ekki tækju langan tíma. Fundurinn átti fyrst og fremst að vera til þess að gefa þingmönnum kost á að mæla fyrir málum sem eru hér á dagskrá, en mjög aftarlega, og enn er ekki lokið þeim málum sem eru stjórnarfrumvörp.
    Ég vil þess vegna beina þeim tilmælum til hæstv. forseta að það verði gert hlé á þessum málum sem núna var verið að mæla fyrir, þ.e. umræðum um þau verði frestað, og fundi verði slitið eða frestað til kvölds þar sem haldið verður áfram. Annaðhvort að hætt verði nú og þingmannamál komist þá að, a.m.k. verði ekki frekari umræða um þau stjórnarfrumvörp sem hér er verið að ræða.