Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 20:58:41 (4769)


[20:58]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Góðir Íslendingar. Hæstv. forsrh. sagði að það væri allt í góðu lagi í íslensku þjóðfélagi, skuldirnar hefðu verið greiddar niður, kaupmátturinn hefði aukist og við værum ekki lengur á Færeyjaleiðinni. Hver var það sem talaði um Færeyjaleiðina fyrstur hér á Íslandi? Það var hæstv. forsrh. Það var svartsýni í hans orðum í upphafi kjörtímabilsins. En hann sagði jafnframt að þeir ætluðu sér í ríkisstjórninni að lækka skatta, þeir ætluðu að greiða niður skuldir, og þeir ætluðu að auka hag almennings. Hver er raunin, hæstv. forsrh.?
    Skuldir ríkisins hafa aukist á þessum fjórum árum úr 64 milljörðum í 145 milljarða. Erlendar skuldir hafa aukist á fjórum árum um 70 milljarða. En það sem verst er er að atvinnuleysið hefur aukist úr tæplega 2.000 í yfir 6.000 manns. Það ganga á milli 6.000 og 7.000 manns atvinnulausir á Íslandi. Mér finnst ekki vera ástæða til að vera sérstaklega ánægður með þennan árangur.
    Ég ætla ekki hér og nú að kenna hæstv. ríkisstjórn um þetta allt saman. Ég ætla ekki að halda því fram að aðrir hefðu getað komið í veg fyrir að erlendar skuldir hefðu vaxið eða skuldir ríkisins hefðu vaxið. Ég ætla ekki að halda því fram að það væri ekkert atvinnuleysi á Íslandi í dag ef aðrir hefðu verið við völd. En það sem mér þykir verst er að ríkisstjórnin er ánægð með þetta. Hún er ánægð með árangurinn og hún segir ekkert um það hvernig hún ætlar að bregðast við þessum mikla vanda. Hún kemur hér og skýrir frá því hvernig flokkar sem stóðu að ríkisstjórn áður stóðu að málum og fer hér með rangt mál um þau efni og hælir sér og ríkisstjórninni svo að það getur vart talist trúanlegt.

    Við í Framsfl. höfum lagt fram ákveðnar tillögur og ákveðna stefnu um hvernig við viljum taka á málum á næsta kjörtímabili. Við viljum ekki hækka skatta. Við teljum að það megi alls ekki hækka skatta. Við teljum hins vegar að það megi breyta ýmsu í skattlagningunni og það megi færa frá þeim sem meira mega sín til hinna sem minna mega sín. Við erum t.d. ekki ánægðir með þá kjarajöfnun sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar leiða í ljós, þar sem nú er ákveðið að verja um 3.000 millj. til skattalækkana, en í því felst nánast engin kjarajöfnun. Við erum hins vegar þeirrar skoðunar að það eigi ekki að auka skatta á fyrirtækin í landinu vegna þess að við teljum að fyrirtækin í landinu eigi að fá svigrúm til að greiða hærra kaup og fyrirtækin í landinu eigi að fá svigrúm til að auka fjárfestinguna og byggja upp. Við teljum að hagsmunir fólksins og hagsmunir fyrirtækjanna fari saman. Að því leytinu er ég sammála hæstv. forsrh. og ég er ósammála formanni Alþb., sem heldur því fram að það eigi að stórauka skattlagningu á atvinnureksturinn. Alþb. hefur sett fram tillögur um það að stórauka skattlagningu á atvinnureksturinn þegar við þurfum á því að halda að auka atvinnuna í landinu. Þetta fer ekki heim og saman.
    Það eru ýmsir sem halda því fram að tillögur Framsfl. séu eitthvert miðjumoð. Það er ekkert nýmæli í íslenskri pólitík að Framsfl. kenni sig við miðju í íslenskum stjórnmálum, það hefur alltaf verið svo. Við höfnum stefnu til hægri, við höfnum frjálshyggjunni, við höfnum því að peningarnir eigi að ráða öllu, við höfnum því að ríkisvaldið eigi að sýna afskiptaleysi gagnvart atvinnulífinu. En við höfnum líka ýmsu í kenningum þeirra sem kenna sig eingöngu við vinstri. Við höfnum því t.d. að það eigi að líta á atvinnufyrirtækin sem andstæðinga launafólksins og það eigi að skattpína þau. Við höfnum því líka að við eigum ekki að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi eins og t.d. samstarfi vestrænna þjóða. Það er þess vegna ýmislegt sem við höfnum hjá þeim sem kenna sig við vinstri. En við viljum halda á lofti ýmsu sem kennt er við vinstri, eins og félagshyggjuna, en við höfum aldrei talið okkur vera vinstri flokk. Við höfum hafnað kommúnismanum og sósíalismanum og eigum ekki við nein vandamál að etja í því sambandi, enda eru fáir sem tala um sósíalismann í dag. Alþfl. er löngu hættur að tala um hann og Alþb. er svona u.þ.b. að hætta að tala um sósíalismann. Mér er alveg sama hvað þessar stefnur eru kallaðar, hvort þær eru kallaðar vor, haust eða vetur. Ganga sósíalista er orðin löng og hún hefur verið mikil vetrarganga og það er kominn tími til að það birti yfir þeim og það er gott að það skuli vera vor í lofti yfir þeim.
    Alþfl. ætlar að ganga til þessara kosninga með það kjörorð að við eigum að ganga í Evrópusambandið og nú er ákveðið af hæstv. ríkisstjórn að leggja fram stjórnarfrv. um að breyta stjórnarskránni til að taka af öll tvímæli um að Íslendingar eigi fiskimiðin. Er einhver deila um það í landinu að Íslendingar eigi fiskimiðin? Ég hef út af fyrir sig ekkert á móti því að eitthvert slíkt ákvæði sé sett í stjórnarskrá, en ég er andvígur því að það sé gert vegna þess, eins og Alþfl. heldur fram, að þá getum við farið að semja við Evrópusambandið. Formaður Alþfl. hefur skýrt frá því að nú eigi að festa það í stjórnarskrá svo hann geti farið til Brussel til samninga og það sé vissara fyrir hann að hafa þetta stjórnarskrárákvæði í rassvasanum til að það sé öruggt að hann semji ekki af sér. Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin ætlar nú að leggja fram þetta frv.? Má skilja það svo að flokkarnir séu orðnir sammála um það að fara til viðræðna við Evrópusambandið? Ætlar Sjálfstfl. að leggja fram þetta frv. á þessum grundvelli? Hefur hann fallist á þessi rök Alþfl.? Það er nauðsynlegt að fá þessu svarað.
    Ég á von á því að formaður Alþfl. skýri frá því hér í kvöld að þetta sé einmitt ástæðan. Ég á líka von á að hann skýri frá því hversu mjög muni blómgast í íslensku þjóðlífi ef við göngum þarna inn. Hann mun væntanlega ekki segja frá því að það þurfi að borga svona u.þ.b. 6 milljarða til Brussel ef við göngum í Evrópusambandið. Hvar ætlar formaður Alþfl. að ná í þá peninga? Hverja ætlar hann að skattleggja til að koma því heim og saman? Og hvernig ætlar hann að standa að millifærslukerfinu sem verður að taka upp í því sambandi?
    Ég lít svo á að með þessum frumvarpsflutningi sé Sjálfstfl. að taka undir með Alþfl. Framsfl. hafnar aðild að ESB. Við teljum að það þjóni ekki íslenskum hagsmunum og við teljum það vera tímasóun að vera að ræða um það í komandi kosningabaráttu, en við komumst ekki hjá því vegna þess að Alþfl. hefur tekið málið á dagskrá og er að reyna að villa um fyrir kjósendum í þessu máli.
    Virðulegur forseti. Góðir Íslendingar. Það líður senn að kosningum. Mikilvægum kosningum þar sem verður tekist á um það hvernig við ætlum að komast út úr atvinnuleysinu, hvernig við ætlum að fá hjól atvinnulífsins til að snúast á nýjan leik. Það er ekki nóg að líta til hagvaxtar á síðasta ári eða þjóðhagsspár Þjóðhagsstofnunar í ár vegna þess að því miður byggir það mjög á góðri loðnuveiði og mikilli veiði í Smugunni. Að mínu mati er spá Þjóðhagsstofnunar mjög bjartsýn fyrir þetta ár. Það þarf meira að koma til. Ríkisvaldið verður að taka höndum saman við aðila vinnumarkaðarins í atvinnumálum og það viljum við framsóknarmenn gera. Mér þykir leitt að heyra það að meira að segja Alþfl., sem kenndi sig þó einu sinni við sósíalisma og er gjörsamlega horfinn alveg hinum megin, afneitar nokkrum afskiptum ríkisvaldsins af atvinnumálum og gerir grín að tillögum okkar framsóknarmanna í þeim efnum. Verður ekki lítil þjóð eins og við Íslendingar, sem búum við þessar aðstæður, að viðurkenna að markaðsöflin vinna með öðrum hætti hér en víða annars staðar og því verðum við í samvinnu að vinna okkur út úr málunum?
    Virðulegur forseti. Ég vænti þess að komandi kosningabarátta verði málefnaleg. Ég vænti þess að hún verði ekki rekin með sama hætti og var uppi hér í kosningabaráttunni í Reykjavík á sl. vori, að flokkarnir fari út í persónulegt skítkast með því að ráðast á einstaka frambjóðendur. Ég tel það ósæmilegt. Ég tel að við eigum að sýna þjóðinni þá virðingu að fara út í þessa kosningabaráttu með málefnalegum hætti og

bera þá virðingu fyrir framtíðinni að gera þjóðinni grein fyrir því hvað við viljum gera á næstu árum. Það ætlum við okkur að gera í Framsfl. Við teljum að við berum mikla ábyrgð, berum mikla ábyrgð gagnvart framtíðinni, framtíðinni sem er svo mikilvæg og dýrmætasta eign okkar.
    Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.