Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 21:28:52 (4771)


[21:28]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Við erum komin hér saman við lok þessa kjörtímabils til að vega og meta árangurinn af störfum þeirrar ríksstjórnar sem mynduð var 1991. Þessi ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. var mynduð um skýra hægri stefnu. Það varð sú stefnubreyting sem varð vorið 1991. Frjálshyggjumennirnir í Sjálfstfl. og frjálshyggjumennirnir í Alþfl., undir forustu þáv. viðskrh., náðu þeim árangri að setja saman stjórnarsáttmála sem bar skýr einkenni þeirrar hægri stefnum sem ríkt hafði t.d. í Bretlandi og Bandaríkjunum um margra ára skeið.
    Vissulega er hægt að segja það nú, að fjórum árum liðnum, að þessir flokkar hafa að mörgu leyti staðið sig vel. Staðið sig vel í því að framkvæma þá hægri stefnu sem þeir lýstu yfir 1991 að þeir ætluðu að festa í sessi. Það ber líka að viðurkenna það að á þessu kjörtímabili hefur verið varðveittur sá arfur um lága verðbólgu sem fyrrv. ríkisstjórn fékk þessari ríkisstjórn í hendur. En hitt er aftur á móti kjarni málsins að líta á íslenskt þjóðfélag í dag og skoða staðreyndirnar. Staðreyndirnar um þær breytingar sem orðið hafa á grundvelli þessarar hægri stefnu. Hallinn á ríkissjóði er vissulega rúmir 30 milljarðar í lok kjörtímabilsins samtals yfir öll árin og það er risavaxin tala. Ísland er enn þá skattaparadís fyrir fjármagnseigendur, eina landið í Evrópu sem er slík skattaparadís þótt stjórnarflokkarnir ætli nú loksins við lok kjörtímabilsins að setja nefnd í málið. Ísland er enn þá skattaparadís fyrir hátekjufólk, eina landið í Vestur-Evrópu sem hefur ekki raunverulegan hátekjuskatt.
    Ég hef tekið saman á grundvelli upplýsinga frá fjmrn., Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka nokkrar staðreyndir sem lýsa mjög vel framkvæmd þeirrar hægri stefnu sem núv. stjórnarflokkar hafa fylgt allt kjörtímabilið. Þeir hafa stórlækkað skatta á fyrirtækin eins og hér kemur fram og forsrh. vék að áðan. En þeir hafa stórhækkað skattana á einstaklingana í landinu. Meira að segja lágtekjufólkið með 65 þús. kr. á mánuði, sem borgaði ekki skatta þegar þessir menn tóku við, hafa borgað verulegan tekjuskatt á þessu tímabili. Tekjuskattur þeirra sem hafa 70 þús. kr. hefur verið tvöfaldaður og síðan upp stigann, 80 þús., 90 þús., 100 þús. kr. mánaðartekjur, hann hefur verið hækkaður jafnt og þétt á öllu kjörtímabilinu og líka með atkvæðum þess þingmanns sem talar á eftir mér. Skuldir heimilanna hafa stórvaxið á þessum árum eins og kemur fram á þessu línuriti. Einstaklingarnir og fjölskyldurnar í landinu eiga nú miklu stærri bagga að bera en í upphafi. Hægri stefnan kemur líka mjög skýrt fram í niðurskurði á námsaðstoð á öllum þessum árum vegna þess að það hefur ekki aðeins verið fylgt þeirri stefnu að hækka skattana á einstaklingum heldur eru námsmenn, sjúklingar og aldraðir látnir bera stórkostlegar byrðar. Hér sjáum við skýrar tölur um það hvernig sjúklingarnir hafa verið látnir bera stórauknar byrðar, hvernig álögurnar á sjúklinga í lyfjakostnaði og heilsugæslu hafa stórhækkað á öllum árum þessa kjörtímabils. Skýr lýsing á því hvernig hægri stefnan birtist í verki. Á sama tíma hafa þeir einnig stóraukið skuldir hins opinbera. Þegar Friðrik Sophusson og Davíð Oddsson tóku við voru skuldir hins opinbera aðeins 15% af landsframleiðslu. Þær eru nú komnar í 30% af landsframleiðslu. Ef það er ekki Færeyjaleið, hæstv. forsrh., þá veit ég ekki hvað á að kalla Færeyjaleið.
    Þessir menn hafa haft stór orð um hvernig staða ríkissjóðs var gagnvart Seðlabankanum þegar þeir tóku við. Jú, hér höfum við það. Það voru 8.000 millj. kröfur sem Seðlabankinn hafði á ríkissjóði og þær voru vissulega of miklar í desember 1991 en þær eru nú orðnar meira en tvöfalt meiri. Kröfur Seðlabankans á ríkissjóð eru nú um 18 milljarðar sem er risavaxin viðvörun um hvernig ástandið er við lok þessa kjörtímabils og ættu þessir menn að rifja upp sín eigin orð um ástandið á þeirri stöðu 1991 og horfast af karlmennsku í augu við það að þeir eru nú búnir að slá það met um meira en 100%. Hvað erlendu skuldirnar varðar er ánægjulegt að þjóðin hefur verið að minnka þær. En ríkið hefur verið að stórauka þær. Ríkið hefur verið að stórauka erlendar lántökur á kjörtímabilinu þannig að þegar þær lántökur verða borgaðar til baka eru það erlendu markaðirnir, erlendu lánardrottnarnir, sem fá þær tekjur í sinn hlut. Og atvinnuleysið sem lítið var rætt hjá hæstv. forsrh. hefur stórvaxið eins og þessar tölur sýna.
    Þetta, virðulegi forseti, eru nokkrar staðreyndir um þann veruleika sem blasir við í íslensku þjóðfélagi. Staðreyndir sem ekki er hægt að hrekja og lýsa skýrt þeirri hægri stefnu sem mótað hefur þetta tímabil. Þess vegna er ánægjulegt að okkur í Alþb. hefur tekist með góðri samvinnu við fjölda einstaklinga, vinstri sinna, félagshyggjufólk og jafnaðarsinna, að ná saman um það að bjóða í þessum kosningum upp á aðra, skýra og afdráttarlausa vinstri stefnu. Á stefnuþingi Alþb. og óháðra, sem haldið var um síðustu helgi, náðist afdráttarlaus og einlæg samstaða um nýjan valkost, nýja skýra vinstri stefnu í íslenskum stjórnmálum og það er fagnaðarefni fyrir okkur, vinstra fólk á Íslandi sem höfum átt okkur draum um breiða samstöðu, að slíkt skuli vera að gerast.
    Í Reykjavík í fyrra fundu vinstri flokkarnir aðferð sem gekk upp í baráttunni við Sjálfstfl. Við í Alþb. og hundruð einstaklinga, vinstri sinnað og félagshyggjufólk, erum núna að finna aðferð í landsmálum sem er líka að ganga upp. Sú stefna sem við göngum fram með í kosningunum er íslensk framtíðarstefna. Hún er íslensk atvinnustefna og íslensk velferðarstefna. Hún felur í sér afdráttarlausa lýsingu á vinstri leiðum í íslenskum stjórnmálum, valkost sem er í andstöðu við þá hægri stefnu sem stjórnarflokkarnir hafa fylgt á þessu kjörtímabili. Þau tíu stefnuatriði sem við leggjum hér fram eru í fyrsta lagi nýtt forrit í hagstjórn á Íslandi, útflutningsleiðin, atvinna fyrir alla sem skapað getur yfir 2.000 ný störf á fyrstu 12 mánuðum nýrrar ríkisstjórnar.
    Í öðru lagi tillögur um velferð og jöfnuð, einstaklinginn og fjölskylduna.
    Í þriðja lagi ný launastefna um kjarajöfnun og launamál kvenna. Það er ekki eðlilegt að fyrirtæki á Íslandi, sem búa nú við sambærilegt raungengi og samkeppnislöndin, svipaða skattastefnu og samkeppnislöndin, svipaða vaxtastefnu og samkeppnislöndin geti ekki greitt svipuð laun og eru í samkeppnislöndunum. Þess vegna er 10--15 þús. kr. hækkun lægstu launa eðlilegur kjarni í nýrri launastefnu.
    Við leggjum í fjórða lagi fram tillögur um réttlátt skattkerfi, um tilflutning 5--7 milljarða til lágtekjufólks og miðtekjuhópa innan núverandi skattkerfis án breytinga á heildarútgjöldum ríkisins.
    Við leggjum í fimmta lagi einnig fram tillögur í menntamálum sem fela það í sér að skila þeim 2.000 millj. til menntakerfisins sem núv. ríkisstjórn tók frá því og stíga frá þeim stalli sem Ísland er í töflu OECD, í neðstu sætunum ásamt Grikklandi og Tyrklandi.
    Aðgerðir í húsnæðismálum, siðbót í stjórnsýslu og fyrirtækjarekstri, einfaldara og ódýrara stjórnkefi eru einnig þættir í okkar tillögugerð.
    Við munum taka upp fjárlög til tveggja ára í senn, taka upp samræmd samgöngufjárlög til að auka hagræðinguna í mikilvægasta fjárfestingarþætti ríkisins og þannig mætti lengi telja.
    En kjarninn í tillögugerðinni er ný stefna í atvinnumálum á Íslandi. Nýtt forrit í hagstjórn á Íslandi sem felur í sér að læra bæði af íslenskri reynslu og læra af reynslu annarra, ríkja t.d. í Asíu, Hollands og Danmerkur og annarra ríkja sem náð hafa ótrúlegum árangri með því að taka upp samræmdar sóknarlínur í atvinnumálum. Það er þetta nýja forrit í atvinnumálum á Íslandi sem er kjarninn í þeirri tillögugerð, kjarninn í þeirri stefnubreytingu sem verður að festa í sessi í kosningunum. Ef við Íslendingar náum ekki 4% hagvexti á næstu árum verður ekki kleift að bæta hér lífskjörin, þá verður ekki kleift að greiða niður skuldir ríkisins, þá verður ekki kleift að reka ríkissjóð án halla og þess vegna er ný atvinnustefna sem skilar arðinum til launafólksins og í betri hagstjórn frumforsendan fyrir þeirri breytingu sem hér verður að eiga sér stað. Það er enginn annar flokkur eða framboð á Íslandi en G-listarnir sem hafa lagt á borðið nú þegar slíka ítarlega atvinnustefnu. Við höfum sagt til viðbótar að hluti hennar er ný heimssýn í viðskiptum. Að við Íslendingar förum að átta okkur á því að kraftvélarnar í hagkerfi 21. aldarinnar eru ekki, hæstv. utanrrh., hjá gömlu nýlenduveldunum sem mynda Evrópusambandið. Kraftvélarnar í hagkerfi 21. aldarinnar eru að dómi allra sérfræðinga í Asíulöndunum, í Ameríkulöndunum og í sunnanverðri Afríku. Ef við Íslendingar förum ekki að taka upp nýja viðskiptastefnu sem beinir sókn okkar á 21. öldina í þessar áttir mun okkur ekki takast að bæta hér lífskjörin. Ný markaðssókn fyrir Íslendinga, lönd hennar eru ekki hjá gömlu nýlenduveldunum, þau eru í þeim hluta heimsins sem býr nú við 6, 10 og 12% hagvöxt. Þetta er grundvöllurinn í þeim breytingum sem verða að eiga sér stað hér.
    Ég lýsti í upphafi þeirri hægri stefnu sem tók við. Hægri stefnu misréttis, ranglætis, skuldasöfnunar og spillingar. Þessari ríkisstjórn hefur vissulega tekist vel að framkvæma hana.
    Góðir Íslendingar. Það er komið nóg af þessum harða hægra vetri. Hann er þegar orðinn of langur. Við skulum taka höndum saman í vor um að breyta um stefnu, að festa hér í sessi íslenska framtíðarstefnu, íslenska atvinnustefnu og velferðarstefnu sem gerir okkur kleift að bera höfuðið hátt í samanburði við aðrar þjóðir.
    Góðir landsmenn. Í apríl skulum við hafna saman þeim hægra vetri sem hefur hneppt íslenskt þjóðfélag hér í fjötra. Við skulum fagna í sameiningu vinstra vori. Göngum heil til leiks.