Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 22:16:42 (4775)


[22:16]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegur forseti. Góðir tilheyrendur. Með ríkisstjórn Davíðs Oddssonar urðu vatnaskil í íslensku þjóðlífi. Af nýjum valdhöfum var talið ásættanlegt markmið að atvinnustigið á Íslandi væri sem næst því sem er í Evrópu en þar er atvinnuleysið 10--20%. Glæsileg lífssýn eða hitt þó heldur. Þegar síðustu kjarasamningar voru gerðir á hinum almenna vinnumarkaði sagði talsmaður vinnuveitenda þegar hann var spurður um álit sitt á niðurstöðu samninganna: ,,Þetta eru samningar um atvinnu``. Samningar um atvinnu var svarið. Staðreyndin er sú að atvinnuleysi á Íslandi hefur aldrei mælst meira en í tíð þessarar ríkisstjórnar, nema ef vera skyldi þegar þessir sömu flokkar störfuðu saman fyrir 1970. Atvinnuleysi og fylgifiskar þess, fátæktin og vonleysið, knýja nú dyra hér á landi eftir margra áratuga fjarvist. Atvinnuleysi á Íslandi er mikil uppgjöf og vantrú á möguleikum lands og þjóðar. Atvinnuleysi er ekki aðeins að missa atvinnuna, það er nú notað sem vopn gegn kjarabaráttu launafólks. Launþegum er nú ógnað við að ná rétti sínum til mannsæmandi launa með uppsögnum og atvinnuleysi og þessu til viðbótar þurfa þeir að fórna kjarabótum sér til handa til að verja velferðarkerfið. Af þessu hlýst margvíslegur vandi svo sem ógnvekjandi fjárhagserfiðleikar einstaklinga og heimila eins og dæmin sanna.
    Á valdatíma núverandi ríkisstjórnar hafa skuldir heimilanna vaxið um 90--100 milljarða kr. Á þeim árum sem Alþfl. hefur farið samfellt með málefni fjölskyldnanna í landinu hafa skuldir heimilanna vaxið um 130--140 milljarða kr. Samhliða þessu hafa milljarðar í nýjum skattálögum, þjónustugjöldum og margvíslegum öðrum íþyngjandi aðgerðum verið lagðir á herðar þessa fólks. En á sama tíma og þetta gerist liggja 75--100 milljarðar á einkareikningum í bönkum og sjóðum án þess að af þeim séu greiddir skattar til samfélagsins og 12 milljarðar liggja óinnheimtir vegna skattsvika. Svona lítur þá Ísland út í dag.
    Framsfl. leggur áherslu á að á þessum málum verði tekið tafarlaust. Með samvinnu ríkis, peningastofnana, launþegahreyfingar og fleiri aðila verður að gera fólki kleift að standa í skilum. Ríkisvaldinu hefur mistekist að viðhalda þeim grundvelli sem skuldbindingar heimilanna voru gerðar á og því ber að skapa nýjan grundvöll. Fram hjá þessu verður ekki gengið.
    Með þeirri stefnu, sem hér ríkir, hefur mátturinn til framkvæmda og nýsköpunar í íslensku atvinnulífi verið drepinn í dróma. Það er umhugsunar- og áhyggjuefni hversu eignartilfærslan í landinu er mikil sem best kemur í ljós í því að nú eru það þjónustufyrirtækin í landinu sem eru að eignast framleiðslufyrirtækin sjálf. Auknar fjárfestingar í atvinnulífinu eru lykillinn að uppbyggingu þess. Þó verður að tryggja að erlendum fjárfestum takist ekki að ná eignarhaldi í aðalatvinnuvegi landsmanna, hvorki í veiðum né vinnslu eins og hugur of margra stjórnarsinna stendur því miður til. Framsfl. vill koma á samstarfi launþega og atvinnulífs er miði að ná aukinni framleiðni og nýsköpun í þjóðfélaginu. Það er besta leiðin til að ná fram bættum lífskjörum í dag. Aukin atvinnutækifæri framtíðarinnar felast í því að auka útflutning á vörum og þjónustu og að draga úr innflutningi með því að efla innlenda framleiðslu. Íslenskur iðnaður hefur lengi búið

við það að sæta síbreytilegum starfsskilyrðum. Á áttunda áratugnum gerðu stjórnvöld ráð fyrir að hlutdeild iðnaðar í úflutningi gæti orðið allt að 40% innan áratugar. Í dag er þetta hlutfall aðeins tæp 18%.
    Á valdatíma núverandi ríkisstjórnar hafa tapast um 1.000--2.000 störf í iðnaði og fluttar eru til landsins iðnaðarvörur sem hægt væri að framleiða hér á landi fyrir um 20 milljarða á ári. Það er mjög raunhæft markmið að færa það stóran hlut þessarar framleiðslu inn í landið skapa megi um 4--5 þús. ný störf fyrir íslenska launþega. Hér vantar framsækna iðnaðarstefnu. Vantrú stjórnvalda á íslenskum iðnaði er óréttmæt.
    Verulegum áhyggjum veldur hversu mjög hallar nú á landsbyggðina. Meginástæða þeirrar þróunar er þær miklu framleiðslutakmarkanir sem grundvallargreinar þjóðarinnar mega nú búa við meðan atvinnulífið á höfuðborgarsvæðinu er nánast frjálst. Um það hefur verið góður friður og sátt að byggja hér upp höfuðborg þar sem fjölbreyttri menningu og þjónustu hafa verið sköpuð skilyrði þannig að sem flestir geti notið.
    Reykjavík ber nú nafn höfuðborgar með sóma. Því er ástæða til að staldra eilítið við og líta til átta. Það er rangt mat að halda að höfuðborgin dafni án öflugrar byggðar þar sem landkostir eru nýttir. Nú er svo komið að fjöldi jarða er án framleiðsluréttar og sjávarplássin búa við mjög takmarkaðan afla og athafnarétt. Það er nauðsyn íslenskri þjóð að sameinast gegn þessari þróun og treysta varnarlínuna þaðan sem sótt verður fram á skipulegan hátt til nýrra verka. Framsfl. vill hafa um það forustu að byggja hér upp þjóðfélag mannúðar og mildi. Við skulum vera minnug þess þegar við mætum öldruðu, vinnulúnu fólki í dag að það var þetta fólk sem lagði grunninn að því Íslandi sem við eigum í dag. Það bar ekki alltaf heim daglaun að kveldi, það lifði við lítil efni, lélegan húsakost og takmarkaða möguleika til náms. Með þrotlausu starfi vanbúið tækjum lagði það nótt við dag að skapa umgjörð þess þjóðfélags sem við lifum nú við. Það land sem þá var talið á mörkum hins byggilega heims liggur nú á krossgötum nýrra leiða og tækifæra.
    Þekkingin, hugvitið og tæknin skapa okkur nú nýja möguleika til frekari framþróunar. Ef skyggnst er til framtíðar er öllum hugsandi mönnum ljóst að það er bæði rétt og okkur Íslendingum nauðsyn að fjárfesta meira í menntun en við höfum áður gert ætlum við okkur að byggja hér það land sem getur boðið þegnum sínum hliðstæð lífskjör og gerast best meðal annarra þjóða. Framsfl. telur nauðsynlegt að taka upp markvissa stefnu er hvetji ungt fólk til frumkvæðis, til stofnunar og reksturs sjálfstæðrar atvinnustarfsemi og það telji sér raunhæfan kost til ákvörðunar um lífsstarf. Allt þetta kallar á dugmikið og velmenntað fólk til fjölbreytilegra starfa, ekki síst í framleiðslu, markaðs- og sölumálum. Ef rétt er á málum haldið bíður æsku þessa lands heillandi verkefni til framtíðar litið. Hér býr lánsöm þjóð í dásamlegu landi sem á ærinn ónýttan auð þar sem milljarðatugir eru í ónýttum möguleikum og þúsundum nýrra atvinnutækifæra. Ísland býr yfir þeim auðæfum að hér á hvorki að vera atvinnuleysi né fátækt eins og því miður er nú. Misskiptingin í landinu er orðin óskapleg og óásættanleg.
    Við framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á að treysta hornstein þessa þjóðfélags sem er heimilið sjálft sem á því miður nú í vök að verjast vegna ranglátrar stjórnarstefnu. Þau sár sem af því hafa hlotist munu seint gróa til mikils tjóns fyrir okkar litla samfélag.
    Virðulegi forseti. Við viljum einnig búa svo um að í landi okkar búi aðeins ein þjóð. Þótt fjármagnið sé mikilvægt má réttur þess til arðs aldrei verða meiri en fólksins.
    Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.