Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 22:40:36 (4778)


[22:40]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Haustið 1991 kynntu Alþfl. og Sjálfstfl. stefnu sína og starfsáætlun undir fyrirsögninni ,,Velferð á varanlegum grunni``. Það er fróðlegt að bera þetta plagg saman við efndirnar nú við lok kjörtímabils. Efst á blaði hjá ríkisstjórninni var það markmið að rjúfa langvarandi kyrrstöðu í íslenskum þjóðarbúskap. Niðurstaðan er hins vegar meira atvinnuleysi en hér hefur þekkst í aldarfjórðung, alls um 9 þús. einstaklingar án atvinnu í lok síðasta mánaðar.
    Ríkisstjórnin lofaði að tryggja jafnvægi í ríkisfjármálum. Niðurstaðan er Íslandsmet í hallarekstri sem stefnir í um 35 milljarða kr. á kjörtímabilinu.
    Orðhagur ritstjóri Alþýðublaðsins, síðar umhvrh., skrifaði vorið 1991 að ríkisstjórnin væri, eins og hann orðaði það: ,,mynduð á bjarghellu gagnkvæms trausts sem spratt milli formanna stjórnarflokkanna tveggja.`` Og hann hélt áfram: ,,Í því felst ekki síst að þingmenn og flokksbroddar allir hafi hemil á athyglisfíkn sinni.`` Menn geta velt því fyrir sér hvort þessi forsenda hógværðar og lítillætis hafi brugðist hjá einhverjum. Ekki verður annað ráðið í ljósi reynslunnar en bjarghellan frá Viðey hafi verið hriplekur sandur. Bindiefnið virðist hafa verið löngunin til að deila og drottna og ásetningurinn um að innleiða hér harðstjórn peninga og óheft markaðslögmál í skjóli reglugerðar Evrópusambandsins. Samt geta forustumenn Sjálfstfl. og Alþfl. vel hugsað sér að sitja áfram ef þjóðin tekur ekki fram fyrir hendur þeirra í kosningum innan skamms. Íslensk þjóð þarf á öðru að halda en stefnunni frá Viðey. Alþb. hefur ásamt öðrum flokkum í stjórnarandstöðu veitt ríkisstjórninni aðhald. Nú sem fyrr er Alþb. kjölfestan á vinstri væng stjórnmála.

Styrkur Alþb. hefur m.a. verið að eiga í sínum röðum þingmenn í öllum kjördæmum. Alþb. fylkir nú liði með óháðu fólki sem gengið hefur til liðs við G-listann víða á landinu. Þar er m.a. að finna forustufólk í samtökum launafólks og bænda.
    Á öflugri ráðstefnu um síðustu helgi mótaði G-listinn stefnu sína og áherslu í komandi kosningum. Ný atvinnustefna, útflutningsleiðin, velferð og aukinn jöfnuður eru þar meðal helstu kjörorða.
    Forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar að kosningum loknum þarf að verða að bæta fyrir skemmdarverkin á velferðarkerfinu. Við setjum á oddinn kröfuna um jöfnuð óháð búsetu. Núv. ríkisstjórn boðaði í upphafi jöfnun húshitunarkostnaðar og að starfa í anda sáttar milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Allt hefur það gengið á annan veg. Húshitunarkostnaður hefur hækkað en ekki lækkað. Nú þurfa þeir sem hita hús sín með rafmagni að greiða 3 þús. kr. meira á ári en við upphaf kjörtímabilsins. Mál er að þessu óréttlæti linni. Alþb. og óháðir telja jöfnun orkuverðs, símgjalda og annarra opinberra þjónustugjalda meðal brýnustu úrlausnarefna nýrrar ríkisstjórnar.
    Eitt sárasta misréttið í þjóðfélaginu er munurinn á rauntekjum karla og kvenna fyrir sambærileg störf. Ráðast verður gegn þessum ójöfnuði með uppstokkun launakerfa, starfsmati og fleiri sértækum aðgerðum. Á glæsilegum baráttufundi Alþb. og óháðra gegn kynja- og launamisrétti um síðustu helgi var lagt á ráðin um aðgerðir. Í ályktun fundarins er bent á að hér ríkir grimmilegt launamisrétti milli kynja og að konum er mismunað á vinnustöðum hvað varðar tækifæri í starfi. Binda verður endi á þetta löglausa óréttlæti, fyrst af öllu hjá hinu opinbera og fyrir því mun G-listinn beita sér af fullri hörku.
    Í áramótaávarpi skoraði forseti Íslands á stjórnmálaflokkana að setja menntun í öndvegi. Alþb. hefur ævinlega haft menntun og menningarmál ofarlega á stefnuskrá sinni. Góð almenn menntun og ríkuleg framlög til skólamála, rannsókna og vísinda eru skilyrði þess að þjóðinni farnist vel í hörðum heimi. Fyrst af öllu þarf að hrinda því í framkvæmd sem jákvætt er í gildandi lögum. Jafnrétti til náms má ekki tefla í tvísýnu eins og núverandi ríkisstjórn hefur gert með breytingum á lögum um námslán og innheimtu skólagjalda. Deilur ríkisins við kennarasamtökin verður að leysa strax. Þvergirðingur ráðherra Sjálfstfl. má ekki lama skólastarf í landinu deginum lengur.
    Í atvinnu- og byggðamálum þurfum við Íslendingar að taka mið af aðstæðum okkar á norðurslóð og virða takmörk auðlinda lands og sjávar. Við þurfum að efla þekkingu okkar á umhverfinu og gæta þes að glata ekki forræði yfir fiskstofnum, landinu sjálfum og orkulindum þess. Löngu er tímabært að lögfesta sameign þjóðarinnar á helstu náttúruauðlindum og binda slík ákvæði í stjórnarskrá eins og Alþb. hefur ítrekað gert tillögur um. Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði hefur þegar breytt réttarstöðunni á þessu sviði, að ekki sé talað um beina aðild að Evrópusambandinu sem vikið getur lögum og stjórnarskrám aðildarríkja til hliðar, stangist þær á við Rómarsamninginn.
    Stefna stjórnvalda á að vera að varðveita byggðarkeðjuna í landinu. Gleymum því ekki að Vestfirðir eru ekki síður en Austfirðir hluti af byggðarhringnum. Núverandi stjórnkerfi í fiskveiðum og landbúnaði vegur að tilvist fjölmargra byggðarlaga og er því óhæft til frambúðar.
    Virðulegi forseti. Þessu þinghaldi er að ljúka og senn kemur að kjósendum að leggja sitt lóð á vogarskálar. Í rauninni eru kostirnir aðeins tveir: Annars vegar hægri stefna Sjálfstfl. að viðbættum Alþfl. eða Framsfl. Hins vegar vinstri stefna fyrir tilstyrk öflugs Alþb. og þeirra sem fylkja saman með því undir merki G-listans. Ég vona að sem flest ykkar hugleiði þær skýru áherslur sem Alþb. og óháðir leggja fram nú í aðdraganda kosninga. Fái þær brautargengi mun vora einnig á vettvangi stjórnmálanna.
    Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.