Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 14:39:44 (4803)


[14:39]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst og fremst koma hér upp til að mótmæla þeim skilningi sem hv. 1. þm. Austurl. lagði í það að setja þetta ákvæði í stjórnarskrá. Það getur ekki verið annað en að slíkt ákvæði hefði í för með sér breytingu á fiskveiðistjórnunarlögunum einfaldlega vegna þess að þjóðareign á auðlindinni hlyti að þýða að með þá eign yrði farið sem eign þjóðarinnar en ekki sem eign einstaklinga eins og gert er í dag. Og höfundar kvótakerfisins tala nú kannski einum rómi --- fyrir munn þeirra talar sjálfsagt einn af höfundunum, fiskihagfræðingur við Háskóla Íslands, sem skrifar í Morgunblaðið fyrir 2--3 dögum. Hann segir:
    ,,Þó kastar fyrst tólfunum þegar þeir kenna kvótakerfið við miðstýringu, haftakerfi og forræðishyggju. Kvótakerfið er kerfi eignarréttar yfir heimildum til að nýta auðlindina. Sem slíkt er það algerlega hliðstætt alþekktum eignarréttindum á landi, eignarrétti á landi, húsum, verksmiðjum, hlutabréfum og öðrum verðmætum.``
    Ég hygg að þessi ágæti prófessor sé að segja það sem segja þarf um það hvernig kvótakerfið virkar og það getur ekki staðið áfram með þeim hætti og orðið jafnframt að þjóðareign samkvæmt stjórnarskrá.