Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 14:59:35 (4806)


[14:59]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi lýsa sérstakri ánægju minni með þá ágætu samstöðu sem tekist hefur milli þingflokkanna á Alþingi um afgreiðslu þessa máls. Það liggur geysileg undirbúningsvinna að baki þessu frv. sem hér er til lokaafgreiðslu. Sú vinna rekur sig jafnvel áratugi aftur í tímann því að þetta mál hefur verið til umfjöllunar í stjórnarskrárnefnd í tvo áratugi. Þegar stjórnarskrárnefnd birti tillögur sínar í ársbyrjun 1983 voru þar ítarleg ákvæði einmitt um mannréttindi. Þar var sem sagt nýr mannréttindakafli og þó að Alþingi bæri ekki gæfu til að samþykkja það frv. á sínum tíma er ljóst að þar var forvinna unnin sem kom að góðu gagni á síðari stigum. En seinasta árið hefur líka verið tekin býsna snörp lota í þessum málum og allt fram á seinustu stundu hefur verið í gangi að tjaldabaki mikil umræða um það hvernig þessum ákvæðum yrði best fyrir komið í okkar stjórnarskrá og hvernig þau yrðu best orðuð.
    Á fyrra stigi málsins, þ.e. þegar Alþingi hét þjóðinni því á Þingvöllum á sl. sumri að afgreiða stjórnarskrárfrv. áður en þingi yrði slitið nú í vetur, komu fram óskir um að málið yrði ekki eingöngu til umfjöllunar milli stjórnmálamannanna og þingmannanna heldur fengi það nokkra umfjöllun úti í þjóðfélaginu og að umræður yrðu um það í fjölmiðlum. Ég held að ekki sé hægt að kvarta yfir því að þetta mál sé að fljóta í gegn umræðulítið. Ég held að það verði að segjast eins og er að á seinstu vikum hafa orðið feiknamiklar umræður um málið og stjórnarskrárnefnd þingsins hefur fengið óvenju ítarlegar og vandaðar umsagnir um þetta mál frá fjöldamörgum aðilum í þjóðfélaginu. Eins og rakið er í greinargerð þá sendi Lögmannafélag Íslands mjög vandaða greinargerð til nefndarinnar. Mannréttindaskrifstofan sendi líka ágæta greinargerð og þannig mætti lenga telja fjöldamarga aðila sem létu sig málið skipta og sendu okkur tillögur sínar og athugasemdir.
    Auðvitað ber ekki að neita því að það voru mörg álitamál á ferðinni sem ræða þurfti nánar og við sem fluttum málið á þinginu í desembermánuði vorum alls ekki þeirrar skoðunar að hver setning í frv. væri endilega sú eina rétta sem til greina kæmi. Okkur var fullljóst að með því að margir kæmu að málinu mundi vera auðið að fá fram betri texta því að betur sjá augu en auga. Það er einmitt það sem gerst hefur. Við höfum fengið svo margar gagnlegar og góðar ábendingar utan úr þjóðfélaginu að okkur hefur tekist að vinna úr þeim fjöldamargar breytingartillögur og, sem er ekki síður mikilvægt, náð um þær samstöðu milli allra flokka.
    Ég verð hins vegar að leggja áherslu á það, eins og oft hefur komið fram áður, að auðvitað er hér um málamiðlun að ræða milli flokkanna. Auðvitað er margt sem ég tel persónulega að vanti í þetta stjórnarskrárfrv. og ég er ekki í neinum vafa um að það eru fjöldamargir aðilar í þjóðfélaginu sem enn sakna ýmislegs sem þeir vildu sjá í stjórnarskránni. Ég ætla að víkja að því hér á eftir hvað það er helst sem ég sakna. Ég tel nauðsynlegt og þarflegt að halda því til haga vegna þess að ég lít ekki svo á að hér sé verið að leggja síðustu hönd á stjórnarskrána og svo verði ekkert við henni hreyft og ekkert komið nærri þessu máli meir á næstu áratugum. Ég lít svo á að þetta sé fyrsta meiri háttar endurskoðunin sem á sér stað á stjórnarskránni frá því að lýðveldið var stofnað fyrir 50 árum en þetta er kannski bara byrjunin á miklu víðtækari endurskoðun stjórnarskrárinnar sem þarf að fara fram.
    Ég minni á það að við höfum ekki gengið til kosninga að undanförnu án þess að gerðar væru einhverjar lagfæringar á stjórnarskránni. Þetta gilti þegar kosið var árið 1983 og þannig var þetta árið 1987.

Þannig var þetta enn árið 1991 og þannig verður þetta á árinu 1995. En þarna voru löngum á ferðinni frekar smávægilegar breytingar, vissulega mikilvægar margar hverjar t.d. sú að gera Alþingi að einni málstofu og breyta þingstörfum í samræmi við það. Það er vissulega mikilvæg breyting en samt bara lítill hluti stjórnarskrárinnar sem þá var undir. Ég ætla sannarlega að vona að á næsta kjörtímabili verði tekin ný lota í endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þar er fjöldamargt sem enn þarf að lagfæra, enn þarf að færa til nútímalegs horfs og við skulum sannarlega ekki líta svo á að við séum að setja endapunktinn á eftir endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það er líka starfandi stjórnarskrárnefnd og hún mun að sjálfsögðu starfa áfram og hefur næg verkefni þó að þessum áfanga ljúki.
    Þegar ég vík að því að hér er um málamiðlun að ræða kemst ég ekki hjá því að minnast á það upphlaup sem orðið hefur í kringum þetta mál vegna tillögugerðar ríkisstjórnarinnar frá því í gærkvöldi þar sem hún kemur óvænt með tillögu sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Nytjastofnar á hafsvæði því sem fullveldisréttur Íslands nær til eru sameign íslensku þjóðarinnar. Kveðið skal á um hagnýtingu og verndun þessarar auðlindar í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.``
    Ég vil að vísu strax taka það fram að þetta er ágæt tillaga og ég er henni í flestu sammála. Ég er ekki að gagnrýna efni þessarar tillögu vegna þess að ég tel að tillögugreinin sé nokkuð vel orðuð þótt auðvitað þurfi hún nánari athugunar við og ég vilji alls ekki binda mig við að orðalagið eigi að vera nákvæmlega eins og þarna stendur. Þó ég hefði vissulega talið að þessi tillaga ætti að vera miklu víðari og ná til fleiri náttúruauðlinda en fiskstofnanna einna þá er þetta eftir sem áður bæði skynsamlegt og athyglisvert spor í rétta átt ef það væri stigið. En því miður eru engar horfur á að þessi tillaga nái fram að ganga. Þetta er ekkert annað en leikaraskapur, þetta er ekkert annað en hreinn skrípaleikur sem hér er hafður uppi, að koma með þessa tillögu tveimur dögum fyrir þinglok og ætlast til að fólk trúi því að um alvörutillögu sé að ræða.
    Á nákvæmlega sama tíma og ríkisstjórnin var að fjalla um þessa tillögu þá sátum við fulltrúar í stjórnarskrárnefnd með fulltrúum stjórnarflokkanna á fundi og þar var innt eftir því hvort ekki væri hugsanlegt að taka þetta mál upp, þ.e. sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum og fiskstofnum. En þá var því neitað. Þá kom það ekki til greina. Á nákvæmlega sama tíma og ríkisstjórnin er að undirbúa þessar tillögur er verið að hafna því í sameiginlegri nefnd stjórnmálaflokkanna að þetta mál megi koma á dagskrá og megi vera með í tillögugerð flokkanna. Það þýðir auðvitað að ekkert verður af samþykkt slíkrar tillögu. Ef tillagan hefði verið tekin upp í tengslum við hina sameiginlegu tillögugerð flokkanna þá hefði kannski verið einhver von til þess að málið hefði komist inn í þingið og fengið þinglega meðferð. En eins og að málinu er staðið af hálfu ríkisstjórnarinnar eru vonir til þess ákaflega smávaxnar, að ekki sé meira sagt.
    Málið þarf að leggja fyrir formlega. Það er alveg ljóst að það verður ekki lagt formlega fyrir þingið öðruvísi en fyrst fari fram viðræður milli forustumanna flokkanna um málið. Þær hafa ekki farið fram og engin tilraun verið gerð til að ná mönnum saman til að ræða það. Síðan þarf að útbúa frv. Það þarf að mæla fyrir því í þinginu. Það þarf að senda málið til stjórnarskrárnefndar. Hún þarf síðan að kalla á sérfræðinga og lögfræðinga til þess að átta sig á því hvort tillagan er í réttum búningi og eðlilega orðuð. Hér er um allt of stórt mál að ræða en svo að hægt sé að kasta til þess höndunum með einhverri handabaksvinnu. Þó að tillagan sem slík, sem hér liggur fyrir, sé á margan hátt góð þá er ekkert sem segir okkur að hún sé örugglega nákvæmlega rétt orðuð og þarf þar af leiðandi að skoða nánar.
    Allur þessi ferill er því bersýnilega miklu lengri en svo að hann rúmist innan þess tíma sem við höfum í þinginu til þess að fjalla um málið. Þegar af þeirri ástæðu er ljóst að þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru ekkert annað en skrípaleikur. Það er vísvitandi verið að slengja fram tillögu sem getur ekki náð fram að ganga vegna þess hvernig að henni er staðið.
    Ég vil í þessu samhengi minna á að þetta er gömul tillaga. Ég vil láta það koma hér fram skýrt og greinilega að þessa tillögu fluttum við alþýðubandalagsmenn fyrstir í stjórnarskrárnefnd á árinum 1981 eða reyndar á árinu 1978 upphaflega. Hún kom síðan mjög sterklega inn í umræðuna árin 1981 og 1982 og ég tel sjálfsagt að varðveita það í þingskjölum hvernig þessi tillaga hljóðaði, rifja hana hér upp, með leyfi forseta. Hún hljóðaði þannig:
    ,,Náttúruauðlindir landsins skulu vera ævarandi eign Íslendinga. Öll verðmæti í sjó og á sjávarbotni innan efnahagslögsögu, svo og almenningar, afréttir og önnur óbyggð lönd utan heimalanda teljast sameign þjóðarinnar allrar, einnig námur í jörðu, orka í rennandi vatni og jarðhiti neðan við 100 metra dýpi.``
    Nú er það að segja um afdrif þessarar tillögu á sínum tíma að hún náði ekki fram að ganga en hún hafði veruleg áhrif á afgreiðslu nefndarinnar á þeim tíma vegna þess að nefndin tók hluta af tillögu okkar alþýðubandalagsmanna inn í sínar tillögur og svo ég kynni það hvernig stjórnarskrárnefndin 1983 orðaði þessa tillögu eftir langvarandi umræður í nefndinni, bersýnilega á grundvelli þeirra tillagna sem við höfðum gert, þá var tillaga stjórnarskrárnefndar þannig:
    ,,Auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu eru þjóðareign. Eignarrétti að öðrum náttúruauðæfum skal skipað með lögum.``
    Þessum tveimur tillögum hef ég síðan haldið fram í umræðunni innan stjórnarskrárnefndarinnar og minnti á þær við undirbúning þess stjórnarskrárfrv. sem stjórnarskrárnefnd sendi frá sér á sl. sumri. Því miður reyndust menn þröngsýnni þá en þeir voru árið 1983 því að þeir fengust ekki einu sinni til að taka upp tillöguna frá 1983. Síðan var enn á þetta minnst í samtölum formanna þingflokka á liðnu sumri en það var

ekki talinn grundvöllur til að taka nein slík ákvæði með og þess vegna varð ekkert af því. Ég vil taka það alveg sérstaklega fram að fulltrúar Alþfl. skáru sig á þeim tíma ekki á nokkurn hátt úr eða frá talsmönnum Sjálfstfl. Þeir sýndu engan áhuga á málinu, hvorki á liðnu vori, liðnu sumri né liðnu hausti, orðuðu þessa tillögu aldrei og tóku aldrei undir með mér að það væri þörf á því að koma þessu máli inn í tillögur þingflokksformanna. Af því varð þess vegna ekki og ég taldi mig nokkuð einan á báti í þessum efnum og þurfti ekki að ítreka oft beiðni mína um að þessi hugmynd yrði tekin upp því að það var bersýnilega tilgangslaust.
    Það er ekki fyrr en hæstv. utanrrh. fær svona gríðarlegan áhuga á því að koma Íslandi í Evrópusambandið að hann grípur þetta sem hálmstrá í umræðunni, finnst að með því að draga fram þessa hugmynd að sameign þjóðarinnar á fiskimiðunum verði lögfest í stjórnarskrá, þá sé hann að bæta stöðu sína í Evrópuumræðunni því að þá geti menn treyst því að hann sem utanrrh. eða þeir sem taka við af honum sem utanrrh. muni ekki geta samið þennan rétt af Íslendingum í viðræðum við Evrópusambandið eftir að búið sé að stjórnarskrárbinda þetta ákvæði. Svo vitlaus sem sú hugsun að sjálfsögðu er vegna þess að auðvitað bindur slíkt stjórnarskrárákvæði ekki hendur þings og þjóðar á síðasta stigi ef mönnum sýnist svo. Ef hæstv. utanrrh., eða annar sem á eftir honum kemur, semur við Evrópusambandið um aðild þá neyðist hann til þess að koma til þingsins og óska eftir því að stjórnarskránni sé breytt af mörgum öðrum ástæðum. Það er viðurkennt að hjá því yrði ekki komist ef Íslendingar ætla að ganga í Evrópusambandið. Og þeim yrði þá ekki skotaskuld að breyta þessu ákvæði líka ef með þyrfti ef þeir hefðu meiri hluta til þess og fylgi til þess. Stjórnarskrárbinding þessa atriðis er því engin trygging fyrir alla framtíð og síst af öllu einhver trygging gagnvart Evrópusambandinu sem mundi ekki hirða um það eitt andartak hvað stæði í íslensku stjórnarskránni vitandi það að við þurfum að breyta okkar lögum og stjórnarskrá í samræmi við þann samning sem hugsanlega væri gerður við Evrópusambandið.
    Þetta er því af hálfu Alþfl. jafnfráleitur málatilbúnaður og nokkur getur verið, að láta málið kyrrt liggja og sýna því engan áhuga fram á síðustu stundu, en þegar það loksins passar inn í Evrópusambandsáróður hæstv. utanrrh. þá er þetta gripið á lofti og á að nota sem hálmstrá í komandi kosningum.
    Hlutur forustumanna Sjálfstfl. er reyndar síst betri vegna þess að þeir neita þessu allan tímann alveg þangað til í gær að þeir gefa það til kynna að þeir kunni að vera reiðubúnir til þess að gera þessa breytingu. Ég segi kunna að vera reiðubúnir vegna þess að hæstv. forsrh. hafði ekki einu sinni samþykkt í þingflokki Sjálfstfl. á bak við sig og hafði ekki á nokkurn hátt tryggt sér að það væri þingmeirihluti fyrir málinu enda er alveg ljóst af viðtalinu sem var við hæstv. forsrh. í Ríkisútvarpinu núna í hádegisfréttunum að hann gerði alls ekki ráð fyrir því að málið næði fram að ganga og tekur meira að segja beinlínis fram að það geti verið gagnlegt að málið sé kynnt, eins og hann mun hafa tekið til orða í þessu viðtali. Svo ég fari með hans óbreytt orð eins og þau eru skráð af starfsmönnum Ríkisútvarpsins, með leyfi forseta, en hæstv. forsrh. mun hafa orðað þetta svo: ,,Svo þegar samstarfsflokkurinn óskaði eftir því að þetta atriði stjórnarsáttmálans yrði uppfyllt, þó sú ósk kæmi dálítið seint fram, var ekkert því til fyrirstöðu af okkar hálfu a.m.k. að það yrði kynnt í þinginu.``
    Þetta er allur áhuginn á málinu og þess vegna endurtek ég það að svona vinnubrögð á lokadögum þingsins geta ekki flokkast undir neitt annað en skrípaleik.
    Fyrr á fundinum urðu lítils háttar orðaskipti um þetta mál milli hv. 1. þm. Austurl., Halldórs Ásgrímssonar, og hæstv. sjútvrh. Ég kom því þá að að ég væri mjög ósáttur við vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar í málinu en því miður var virðulegur forseti búinn að slá í bjölluna áður en ég komst lengra í máli mínu. Ég átti að sjálfsögðu eftir að mótmæla málflutningi hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar sem var alls ekki nógu traustur. Ég var innilega ósammála honum þegar hann hélt því fram að með ákvæði af þessu tagi væri verið að festa kvótakerfið í sessi. Þegar ég les yfir þá tillögu sem ríkisstjórnin hefur verið að fjalla um þá er ekkert í henni sem festir kvótakerfið í sessi. Það er bara allt annað mál sem kemur þessari tillögu ekkert við þannig séð. Auðvitað snertir það sama mál en það er ekki á nokkrun hátt verið að lögfesta kvótakerfið eða styrkja stöðu þess. Það er hreinn misskilningur og mér þótti vont að heyra þá yfirlýsingu hér áðan en sem betur fer var hv. 3. þm. Vesturl., Jóhann Ársælsson, til að mótmæla þessum skilningi hv. 1. þm. Austurl. og það skal ítrekað að þarna var um mikla missögn að ræða.
    Ég vil segja það um þessa tillögu að endingu að ég tel það persónulega til bóta að þar er skilið á milli eignarréttarins annars vegar og nýtingarréttarins hins vegar. Ég held að það sé gagnlegt að gera það í hinni opinberu umræðu vegna þess að þetta tvennt er ekki eitt og hið sama og það er skýrara og gleggra gagnvart öllum almenningi og öllum þeim sem lesa þessa grein að gera þarna greinarmun á. Annars vegar er um að ræða sameign íslensku þjóðarinnar á nytjastofnum á hafsvæði því sem fullveldisréttur Íslands nær til, eins og segir í tillögunni. Hins vegar er um að ræða hagnýtingu og verndun þessarar auðlindar. Það er gott að aðgreina þetta með þeim hætti sem gert er í tillögunni. Ég er hins vegar ekkert viss um það ef menn skoða tillögugreinina að hún eigi endilega að vera nákvæmlega orðuð eins og þar er gert og til þess þyrfti sérstaka lögfræðilega athugun.
    Eins vil ég láta það koma skýrt fram að ég er enn þeirrar skoðunar að grein af þessu tagi ætti að ná til náttúruauðlindanna allra en ekki bara til fiskstofnanna í sjónum umhverfis landið. Það er í fullu samræmi við þær tillögur sem við höfum borið fram í stjórnarskrárnefndinni og er hið eina rétta að ein grein stjórnarskrárinnar fjalli sérstaklega um náttúruauðlindir landsins í heild sinni.

    Ég vil í þessu sambandi líka taka fram að ég hefði viljað sjá hér sérstakt ákvæði um útivistarrétt landsmanna. Ég minni á þá tillögu sem við alþýðubandalagsmenn höfum margsinnis flutt um það efni en hún var svona, með leyfi forseta:
    ,,Landsmönnum öllum skal tryggður réttur til eðlilegrar umgengni og útvistar í landinu. Stjórnvöldum er skylt að vernda náttúru landsins og auðlindir þess svo að tryggt sé að allir landsmenn geti notið útivistar og varðveittur sé sá höfuðstóll sem felst í auðæfum náttúru landsins. Nánar skal í lögum fjalla um umgengnisrétt landsmanna við landið og verndun náttúru og auðlinda landsins og hvernig tryggja skal að ekki spillist að óþörfu líf, land eða haf.``
    Þetta er tillaga sem við höfum margsinnis flutt við undirbúning málsins en hefur ekki náð fram að ganga í heild sinni. Hins vegar vek ég enn athygli á því að þrátt fyrir að tillagan næði ekki fram að ganga í heild sinni hafði hún áhrif á tillögugerð stjórnarskrárnefndar árið 1983, þó hún hefði ekki áhrif á árinu 1995.
    Þegar stjórnarskrárnefnd sendi frá sér sínar tillögur á árinu 1983 var tekið visst tillit til þeirra hugmynda sem þarna komu fram hjá okkur alþýðubandalagsmönnum með því að orða eina tillögugreinina m.a. á þennan hátt.:
    ,,Vernda skal náttúru landsins og auðlindir þess svo að ekki spillist líf eða land að nauðsynjalausu.``
    Það vantar sem sagt í þessa tillögugerð ákvæði um auðlindirnar, um náttúruvernd og um útivistarrétt landsmanna. Það eru málaflokkar sem þurfa að eiga sitt sæti í stjórnarskrá og þó að ekki hafi tekist samkomulag um það nú að hafa slík ákvæði í stjórnarskrá þá ætla ég sannarlega að vona að þau verði áfram til umræðu og eigi aðgang að tillögugerð um endurskoðun stjórnarskrárinnar á næsta kjörtímabili en þessari vinnu verður örugglega fram haldið.
    Ég minni líka á tillögugerð okkar sem snýr að friðlýsingu landsins. Við gerðum þá tillögu á sínum tíma að í stjórnarskrá væri tekið svohljóðandi ákvæði:
    ,,Ísland er friðlýst land. Aldrei má leyfa geymslu kjarnorkuvopna eða annarra gereyðingarvopna í landinu né heldur flutning þeirra við Ísland, lofthelgi þess eða fiskveiðilögsögu.``
    Og á öðrum stað gerðum við tillögu sem hljóðaði þannig: ,,Herskyldu má aldrei í lög leiða.``
    Þessar tillögur hafa ekki náð fram að ganga. En það er sjálfsagt af minni hálfu að halda þeim til haga og minna á þær við þetta tækifæri. Ég vil sérstaklega taka fram að tillaga okkar um að herskyldu megi aldrei í lög leiða nefndu margir umsagnaraðilar sem skrifuðu stjórnarskrárnefnd. Ég get t.d. nefnt umsögn Rauða kross Íslands þar sem lögð var þung áhersla á það að ákvæði af þessu tagi væri í stjórnarskránni. Og ég get nefnt mörg önnur samtök sem lögðu áherslu á þetta. En þetta náðist ekki fram og er ekkert um það frekar að segja nema að hægt er að vonast til þess að á síðara stigi verði menn opnari fyrir svo sjálfsögðum ákvæðum.
    Í tillögugerð okkar árið 1978 og síðan aftur 1982 og 1983 var að finna ákvæði um jafnan rétt kvenna og karla. Við alþýðubandalagsmenn lögðum til á sínum tíma, með leyfi forseta, að í stjórnarskrána væri tekið svohljóðandi ákvæði:
    ,,Konur og karlar eiga jafnan rétt á öllum sviðum þjóðlífsins og ber að tryggja þeim sömu tækifæri til starfa og jafnt kaup fyrir sambærilega vinnu.``
    Þetta var ekki tillaga sem náði eyrum stjórnarskrárnefndar árið 1983. Hún var ekki tekin upp meðal tillagnanna sem sú nefnd lagði fram. Að því leyti stendur málið akkúrat öfugt í þessu tilliti að gömlu tillögurnar voru þrengri hvað þetta varðar en nýju tillögurnar því að í nýju tillögurnar er þetta ákvæði einmitt tekið upp þó að það sé ekki nákvæmlega orðað eins og hér er nefnt. Eins og hv. þingmenn þekkja þá er ákvæði af þessu tagi í frv. og margir hafa orðið til að fagna því að þetta ákvæði sé þar og ég tek mjög eindregið undir það. Ég vildi reyndar að ákvæðið væri með tilvísun til allra sviða þjóðlífsins eins og var í gömlu tillögunum okkar en það náði ekki fram að ganga heldur er talað um að það skuli gera í hvívetna, eins og þar segir, og má vera að það orðalag geti talist allvel viðunandi.
    Ég vil svo að endingu víkja að félagafrelsinu en um það hafa orðið verulegar umræður á liðnum vikum. Eins og kunnugt er er í frv. ákvæði byggt á gömlu stjórnarskránni okkar um það að menn eigi rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi án þess að sækja um leyfi til þess. Síðan settum við á liðnu hausti í tillögur okkar nýmæli sem stundum hefur verið kennt við neikvætt félagafrelsi og felur í sér að engan megi skylda til aðildar að félögum en með lögum megi þó kveða á um slíka skyldu ef það teljist nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmætu hlutverki vegna almennra hagsmuna eða réttinda annarra.
    Eins og margoft hefur komið fram er ekki sambærilegt ákvæði að finna í stjórnarskrám nálægra ríkja svo mér sé kunnugt. Má jafnvel vera að þetta sé í fyrsta sinn sem slíkt ákvæði er tekið inn í stjórnarskrá þó að ég hafi að vísu ekki kynnt mér það sérstaklega. Ég hygg að það sé í öllu falli mjög óvíða sem slíkt ákvæði er að finna ef nokkurs staðar. En þetta er í fullu samræmi við þá þróun sem hefur átt sér stað í umræðunni um mannréttindi og ég studdi það eindregið að ákvæðið af þessu tagi væri tekið í stjórnarskrá því ég tel að það sé í takt við tímann og eigi fyllilega rétt á sér. Hins vegar er því ekki að leyna að viss ummæli og orðalag í greinargerð með frv. vöktu upp nokkurn storm og ég tel að sú gagnrýni sem kom fram einkum frá stéttarfélögunum, m.a. frá Alþýðusambandi Íslands, hafi átt talsverðan rétt á sér.
    Því miður gafst mjög lítill tími til að fjalla um greinargerð frv. og ég hefði hiklaust viljað orða

þar vissar setningar á annan hátt ef mér hefði gefist tími til að fjalla um það þegar frv. var undirbúið. En nú hefur stjórnarskrárnefnd bætt úr þessu mjög myndarlega. Hún hefur tekið af öll tvímæli um að sá misskilningur sem upp kom sé ekki á rökum reistur og er það vel. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þeim ummælum í nefndarálitinu þar sem á það er bent að í núgildandi löggjöf séu launþegar ekki skyldaðir til að vera í stéttarfélagi. Jafnframt er á það minnt að í 2. mgr. 12. gr. um neikvæða félagafrelsið sé ekki verið að víkja að þeim aðstæðum sem eiga við um stéttarfélög og þar af leiðandi megi ekki líta á þetta ákvæði sem nokkra ógnun við hagsmuni verkalýðshreyfingarinnar. Í nál. segir, með leyfi forseta:
    ,,Sérstök ástæða er til að nefna svonefnd forgangsréttarákvæði, þegar í kjarasamningum er samið um að félagsmenn viðkomandi stéttarfélags skuli hafa forgang til vinnu á félagssvæði þess, leiða ekki af sér félagsskyldu af þeim toga sem fyrri málsl. 2. mgr. tekur til. Þá verður heldur ekki litið svo á að umsamin skylda launþega til að greiða gjöld til stéttarfélaga sé félagsskylda af þeim meiði sem ákvæði þetta nær til.``
    Ég tel afar mikilvægt að stjórnarskrárnefnd hefur einróma gefið út yfirlýsingu af þessu tagi og þar með tekið af öll tvímæli um að ákvæðið verði ekki túlkað á þennan hátt. Ég tel jafnframt afar mikilvægt að nefndin hefur áréttað enn frekar þann skilning sinn í næstu málsgrein með því að segja, með leyfi forseta:
    ,,Í ljósi þessa lítur nefndin svo á að með samþykkt frv. sé í engu verið að hrófla við núverandi réttarstöðu á vinnumarkaði að því er varðar forgangsréttarákvæði, greiðslu félagsgjalda eða önnur réttindaákvæði.``
    Ég er ekkert undrandi á því að viss stormur hafi vakist innan verkalýðshreyfingarinnar þegar upp komu raddir um það að í stjórnarskrárfrv. væru ákvæði sem beindust að réttindum hennar. Það er fullkomlega eðlilegt að menn séu á varðbergi um réttindi sín og ég er þakklátur fyrir það að við í stjórnarskrárnefnd fengum margar góðar ábendingar í þessa átt, sérstaklega út frá greinargerðinni sem fylgdi frv. Það er rétt að taka það fram að frá verkalýðshreyfingunni komu ekki fram bein mótmæli við því að í stjórnarskrárfrv. væru ákvæði um neikvæða félagafrelsið. Því var ekki haldið fram að orðalag greinarinnar væri óviðunandi en það var látinn í ljós ótti um að greinin yrði mistúlkuð og þá einkum vísað til ummæla sem hægt væri að misskilja í greinargerðinni.
    Þessi ótti var kannski skiljanlegur líka í ljósi þess að í stjórnarskrárfrv. var ekki að finna neina tilvísun til stéttarfélaga eða samningsfrelsis. Úr þessu hefur nú verið bætt og ég er mjög ánægður með það að skotið hefur verið inn í 12. gr. um félagafrelsið skýrum ákvæðum um tilvist stjórnmálafélaga og stéttarfélaga. Ég hef reyndar lengi talið fullkomlega óeðlilegt að stjórnmálafélög væru ekki beinlínis nefnd í stjórnarskránni en svo hefur ekki verið fram að þessu. Við höfum komist af með stjórnarskrá allt frá 1874 sem frá upphafi var með þeim annmörkum að þar fannst hugtakið stjórnmálafélag alls ekki, það var ekki til. Og reyndar var töluvert liðið á öldina þegar orðið ,,flokkur`` komst inn í stjórnarskrána en það mun hafa verið þegar orðið þingflokkur kom þar fyrst inn. Stjórnmálaflokkar hafa hins vegar ekki verið nefndir berum orðum í stjórnarskránni heldur einungis framboðslistar og ég tel það ótvíræða framför að stjórnmálafélög séu nefnd á sama hátt og trúfélög eru nefnd og sveitarfélög verða nefnd.
    Fjórði hópur félagasamtaka sem er nefndur í stjórnarskránni eru stéttarfélögin. Það eru ein mikilvægustu félagasamtök landsmanna og fullkomlega eðlilegt að þeirra sé getið í stjórnarskránni.
    Ég er líka mjög sáttur við að síðar í tillögum stjórnarskrárnefndar er samningsfrelsið, frelsi stéttarfélaganna til þess að semja um kjör sín og starfsskilyrði, sérstaklega nefnd. Það var nauðsyn að fá það inn. Orðalagið: ,,Rétti manna varðandi vinnu og orlof skal skipað með lögum``, var alls ekki fullnægjandi og það sem komið hefur í staðinn er miklu heppilegra og eðlilegra á allan hátt.
    Ég vil svo að endingu segja um þennan þátt málsins að vissulega hefði verið gott að í stjórnarskránni hefði jafnframt verið vikið að vinnuskilyrðum og starfsumhverfi vinnandi manna í landinu. Það hefði sannarlega mátt vera ítarlegra ákvæði um þann þátt þjóðlífsins en ég er engu að síður þakklátur fyrir það sem hefur komist inn og er til verulegra bóta.
    Þá vil ég að endingu geta þess að nokkuð var gagnrýnt að félagsleg, efnahagsleg og menningarleg réttindi væru ekki nefnd í stjórnarskránni á nægilega skarpan hátt en úr því hefur verið bætt. Orðalagið sem nú er komið um þau efni er miklu afdráttarlausara en áður var og því ber að fagna. Það er því ekki nokkur minnsti vafi á að með þeim tillögum sem hér liggja fyrir, ef samþykktar verða, fáum við verulega miklu betri stjórnarskrá en við höfum haft, ef þær verða samþykktar að loknum almennum kosningum sem fram fara í aprílmánuði nk. Ég vil svo að endingu ítreka þá ósk mína að þessi mikla endurskoðun á síðasta hluta stjórnarskrárinnar þarf að vera byrjunin á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar en ekki endapunkturinn. Það þarf að halda þessu starfi áfram á næsta kjörtímabili.