Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 15:47:20 (4808)


[15:47]
     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hæstv. forsrh. um það að við í stjórnarandstöðunni munum ekki láta það spilla þessu þjóðþrifamáli sem hér er til afgreiðslu þótt ríkisstjórnin hafi hegðað sér undarlega síðasta sólarhringinn í tillögugerð sinni. Ég vil minna hann á það að ég hef farið heldur jákvæðum orðum um tillöguna sem slíka og tel að hún eigi fullan rétt á sér. En ég hlýt að nota tækifærið og spyrja hæstv. forsrh. að því: Hvers vegna í ósköpunum höfðu hann og hæstv. utanrrh. ekki samband við forustumenn flokkanna og gerðu þeim grein fyrir því að þessi umræða væri í gangi innan ríkisstjórnarinnar og lét okkur vinna í stjórnarskrárnefndinni og ræða um nákvæmlega þetta sama mál án þess að við hefðum hugmynd um að slíkar tillögur væru í farvatninu? Ég minni á að þetta atriði var hvað eftir annað nefnt í viðræðum fulltrúa flokkanna í stjórnarskrárnefndinni en það virtist ekki hvarfla að einum eða neinum að ríkisstjórnin væri á sama tíma að ræða þetta mál. Ef ríkisstjórnin hefði komið með þetta mál eins og viku fyrr þá hefði kannski verið einhver von til þess að það hefði getað fengið málefnalega umfjöllun í þinginu en því miður er sú von bersýnilega brostin vegna tímaskorts, jafnvel þótt um gott mál sé að ræða.