Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 16:32:18 (4815)


[16:32]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það þarf náttúrlega að vita nákvæmlega hvað hv. þm. á við með stéttarfélag ef hann telur að þau hafi svona mikið gildi í þjóðfélaginu. Það sem við erum væntanlega að tala um eru aðilar vinnumarkaðarins sem hafa mikið gildi sem samningsaðilar um kaup og kjör í þjóðfélaginu og það sé forsenda fyrir því að hæfilegt jafnvægi ríki í þjóðfélaginu að þessir aðilar hafi heilbrigðan starfsgrundvöll, geti starfað og hafi rétt til að starfa, semja um kaup og kjör og komast að sameiginlegri niðurstöðu og leysa þannig úr ágreiningi sem væri kannski enn þá meiri í þjóðfélaginu ef þessir aðilar væru ekki fyrir hendi. Ef í hugtakinu ,,stéttarfélög`` eru Vinnuveitendasambandið og samningsaðilarnir, ef það er það sem hv. þm. er að tala um, samningsaðila sem koma að kjarasamningum almennt og standa í þessum ágreiningi og að lausn þeirra, þá get ég tekið undir það að þeir hafa miklu hlutverki að gegna í þjóðfélaginu, en ef stéttarfélögin eru bara annar aðilinn þá finnst mér að túlkunin sé of þröng. Við sjáum það strax þegar við förum að velta því fyrir okkur og ræða það í þingsalnum að við kunnum að lenda í vandræðum með að túlka hvað í þessu hugtaki felst og þess vegna tel ég að það sé mjög varasamt að taka svona sérgreint hugtak inn í stjórnarskrána.