Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 16:57:55 (4817)

[16:57]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Í þessari umræðu er búið að segja margt og segja vel og ég þarf ekki að tala hér langt mál. Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri til þess að þakka meðnefndarmönnum mínum gott samstarf í nefndinni. Það var ljómandi gaman að vinna í þessari nefnd og ég tel að formaður hennar, hv. 8. þm. Reykv., Geir H. Haarde, hafi stýrt nefndinni af mikilli lipurð og samviskusemi og fyrir það vil ég þakka og láta það koma hér fram.
    Þetta frv. hlaut nokkuð óvenjulega meðferð. Það hefur haft langa meðgöngu og mjög margir sérfræðingar og stjórnmálamenn hafa komið að undirbúningi málsins. Við tókum ákvörðun á Þingvöllum um að taka þetta mál til meðferðar á þessu þingi og það frv. sem lagt var fram af formönnum þingflokka á sínum tíma í haust var sent til umsagnar fjölda aðila í þjóðfélaginu og lýst eftir athugasemdum við frv. Mikil umræða skapaðist um málið. Fjöldinn allur af athugasemdum og brtt. og hugleiðingum barst nefndinni. Sumt af því var réttmætt og eðlilegt, sumt af því var á misskilningi byggt.
    Það kann að vera ágreiningur um það hvað eigi að standa í stjórnarskrá. Á að nota stjórnarskrá til þess að vera stefnuyfirlýsing fyrir framtíðina, einhver framtíðarmúsík handa þjóðinni? Á hún að vera safnrit fjölþjóðasáttmála sem Ísland er aðili að? Á hún að vera einhvers konar lagasafn? Mér kom það í hug að sumum þeim sem gagnrýndu þetta frv. væri það í huga að stjórnarskráin ætti að vera eitthvað af þessu.
    Ég tel að stjórnarskrá eigi í fyrsta lagi að vera skorinorð, stuttorð og skýr. Ég tel að hún eigi að vera rammi fyrir löggjafann og framkvæmdarvaldið og nokkurs konar varnargarður fyrir borgarana í landinu, þar sem borgararnir í landinu geti treyst því að lagasetning eða framkvæmdarvaldsaðgerðir gangi aldrei lengra heldur en að þessari, ef ég mætti segja túngirðingu sem þarna er slegið utan um borgarana. Þetta á að vera trygging þegnanna í landinu að ekki verði gengið lengra heldur en að því sem stjórnarskráin markar.
    Það var góð samstaða um það að vinna úr þessum breytingarhugmyndum. Ég verð að játa að persónulega tel ég að textinn hafi fremur skemmst við þá vinnu, sá upphaflegi texti var skýr og afdráttarlaus, en nú jaðrar við málalengingar á sumum stöðum ef brtt. verða allar samþykktar. En gott og vel, ef friður verður enn þá betri um málið með þessum ítarlegu upptalingum sem komnar eru inn þá er það ágætt og í nefndinni var fullkomin samstaða um að sigla þessu máli sléttan sjó í gegnum þingið á seinustu dögum.
    Nú gerðist það fyrir örfáum dögum að Alþfl. hélt fund þar sem hann var að setja upp ,,slagplan`` fyrir kosningarnar og styrkja sína áróðursstöðu. Þá dettur þeim í hug að stinga upp á því að fara að setja í stjórnarskrá ákvæði sem ekki á þar heima og er þýðingarlaust sem slíkt í stjórnarskránni, a.m.k. í sambandi við Evrópumál, þ.e. að fara að stjórnarskrárbinda að fiskimiðin séu þjóðareign. Þetta átti að vera einhvers konar vísun eða passi fyrir hæstv. utanrrh. til þess að óhætt væri fyrir hann að fara til Brussel og semja um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
    Upphaflega þegar ég heyrði hvað þeir höfðu verið að álykta á krataþinginu þá leit ég á það sem brandara og tók það ekki alvarlega því náttúrlega var svona ákvæði gjörsamlega þýðingarlaust í þessu sambandi. Auðvitað er enginn ágreiningur um það að fiskimiðin séu þjóðareign, en það er heldur engin trygging í samningum við Evrópubandalagið þó það standi í stjórnarskránni. Ef við gerðumst aðilar að Evrópubandalaginu, sem ég vona að verði aldrei, þá verður að breyta stjórnarskránni og þá er ekkert hald í þessu ákvæði. Ekki nokkurt einasta hald. En með því að ríkisstjórnin hefur samþykkt að fara á flot með þetta stjórnarskrármál þá verð ég að líta svo á að það sé verið að draga lokur frá hurðum og ef núv. ríkisstjórn fær, móti minni von, meiri hluta í næstu kosningum og heldur áfram að stjórna, eins og sumt virðist benda til að geti hent, þá sé þetta staðfesting á því að núv. stjórnarflokkar eða Sjálfstfl. sé tilbúinn að gera það fyrir Alþfl. að fitla áfram við aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þess vegna þykir mér það mjög slæmt og bið ég hv. 8. þm. Reykv. að hlusta, ef þessu stjórnarskrármáli er stefnt í óefni með því að fara að koma með svona fráleitar hugmyndir inn á síðasta eða næstsíðasta degi þingsins, að gera meira heldur en samkomulag hefur orðið um milli allra flokka á Alþingi í stjórnarskrármálinu. Samstaðan hefur verið góð. Við höfum unnið þetta af heiðarleika og samviskusemi og lagt okkur fram við að ná saman, en ef þessi tillaga kemur fram og á að fara að berja hana hér áfram í þinginu þá finnst mér að ríkisstjórnin komi í bakið á okkur sem höfum verið að leggja gott til mála í þessu sambandi.
    Frú forseti. Ég lýk máli mínu.