Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 17:38:03 (4819)


[17:38]
     Frsm. stjórnarskrárnefndar (Geir H. Haarde) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú við lok þessarar umræðu þakka þeim sem hafa tekið þátt í henni og lagt fram sín sjónarmið um það mál sem hér er til meðferðar. Mér þykir leitt að umræðan hefur að þó nokkru leyti snúist um hugmyndir sem reifaðar hafa verið um annað frv. sem e.t.v. kæmi hér fram, en er ekki hluti af þessu máli. Ég skil hins vegar vel ástæðurnar fyrir því að menn hafa þurft að tjá sig um það efni, þ.e. spurninguna um hugsanlegt nýtt stjórnarskrárákvæði um eignarrétt á auðlindum í hafinu. En ég tel að það hafi verið afar óheppilegt hvernig það mál allt bar að og hvernig það blandast inn í þá umræðu sem hefur verið í gangi á vettvangi nefndarinnar og afgreiðslu þess máls sem nú er hér komið til 2. umr. og hefur fengið bærilegar undirtektir eftir því sem mér hefur heyrst á máli manna hér í dag. Ég harma þetta, en ég treysti því að þetta verði ekki til þess að leggja stein í götu þess góða máls sem við erum hér með til meðferðar.
    Ég tel að það hafi nú komið fram í máli manna hér nokkuð almenn samstaða um að rétt sé að afgreiða málið á grundvelli þeirra brtt. sem nefndin hefur lagt hér fram með þeim skýringum sem fram koma í nál. Ég vil fyrst láta þess getið að mér láðist að nefna eina brtt. sem fram kemur á þskj. 759, en ég vil gera það núna formsins vegna að láta þess getið að það hefur verið bætt inn í 14. gr. einu atriði þegar verið er að tala um rétt sem tryggður skuli í lögum til aðstoðar. Þar hefur verið bætt inn í upptalninguna orðinu ,,örbirgð`` þannig að ákvæðið hljóðar nú þannig:
    ,,Öllum sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.`` Þetta vildi ég að kæmi hér fram.
    Að öðru leyti vil ég ítreka um þá grein og önnur þau efnahagslegu og félagslegu réttindi sem tryggð eru með þessu frv. að á þeim hefur ekki verið gerð efnisbreyting í þessari meðferð. Þessi réttindi voru fyrir hendi í frv., eðlilega, og þau eru það enn og það hefur engin breyting orðið á því hvorki af né á.
    Ég vil þá koma nokkuð að þeim athugasemdum sem fram hafa komið í umræðunni og spurningum sem lagðar hafa verið hér fram, án þess að ég geti nefnt hvert einasta atriði sem komið hefur fram í máli manna.
    Hv. þm. Björn Bjarnason kom hér að nokkrum mikilvægum atriðum sem ég vil nefna. Fyrst varðandi 11. gr. Þar hafa fleiri gert að umtalsefni, spurninguna um hvort rétt hefði verið að nefna að tjáningarfrelsi mætti einungis setja skorður ef það væri nauðsynlegt í lýðræðislegu þjóðfélagi. Ég gat þess áðan í framsöguræðu minni að við töldum ákveðna vankanta á því vegna þess að sumar þær takmarkanir sem við höfum sett í okkar þjóðfélagi eru ekkert bundnar við það að þjóðfélagið sé lýðræðislegt. Ég nefndi dæmin um tóbaksauglýsingar og skoðanir á kvikmyndum, bann við ofbeldiskvikmyndum. Slíkar takmarkanir hafa ekkert með það að gera hvort þjóðfélagið er lýðræðislegt eða ekki og ef þær eru nauðsynlegar eins og við teljum vegna heilsu manna þá er það væntanlega hvort tveggja í lýðræðislegum þjóðfélögum og ólýðræðislegum sem þau sjónarmið gætu átt við. Og til þess að vera ekki að setja þetta mál inn í eitthvert slíkt samhengi þá var horfið að því orðalagi sem fram kemur í brtt. Hins vegar hafa margir sagt að réttast væri að taka orðalagið beint upp úr mannréttindasáttmála Evrópu, en við töldum hins vegar, að vel athuguðu máli, að það væri hentugra við okkar aðstæður að fara þessa millileið sem svo má kalla.
    Hv. þm. spurði að því hvernig 12. gr. frv. og skýringarnar við hana í nál. vikju við þeirri skyldu sem lögð er á opinbera starfsmenn með lögum til þess að greiða til starfsmannafélaga án tillits til þess hvort þeir eru í félaginu eða eru í einhverjum samtökum slíkra starfsmanna. Ég tel að hið rétta svar við því á grundvelli þessa plaggs sé það sem fram kemur í nál., þ.e. að þetta frv. hefur ekki breytingar í för með sér á réttarstöðunni á þessu sviði. Ef það var talið standast stjórnarskrána fyrir þessa breytingu að setja þetta í lög, þá hefur ekki orðið breyting á því núna. Hins vegar er það auðvitað háð mati löggjafans hvort hann kýs að gera það. Hann sem sagt má hafa þetta svona en hann má þá líka breyta því ef hann vill. Löggjafinn má gera það. Þannig að það er ekki neitt í þessu að mínum dómi sem mun knýja löggjafann til þess að gera slíka breytingu eða gera honum það skylt. En hitt er annað mál að þessi ákvæði hafa sætt gagnrýni og eru fjarri því að vera óumdeild.
    Að því er varðar ábendingar og gagnrýni hv. þm. á þá tillögu sem fram er komin um að tilgreina sérstaklega stjórnmálafélög og stéttarfélög þá er það nú, eins og ég lét getið í minni framsögu, vitanlega ekkert sjálfsagt mál að gera þetta og auðvitað má segja eins og ég reyndar sagði að ákvæðið eins og það

er í frv. nær að sjálfsögðu einnig til stjórnmálafélaga og stéttarfélaga, á því er auðvitað ekkert vafamál. Hins vegar þótti ekkert athugavert við það, eins og ég sagði, að nefna tvo mikilvæga flokka félaga í okkar þjóðfélagi sérstaklega. Ég tel hins vegar ekki að það hafi neina réttarlega þýðingu í sjálfu sér. Ég er ekki sammála því að það veiti viðkomandi félögum einhverja sérstaka vernd sem ekki er tekin fram í stjórnarskránni að öðru leyti. Það er hins vegar vakin athygli á því að þarna eru tveir mikilvægir flokkar félaga sem nefndir eru á nafn. Ég óttast ekki að síðar meir verði lagður í þetta einhver skilningur annar heldur en sá sem til að mynda við hv. 3. þm. Norðurl. v. höfum talað hér um. Auðvitað má velta því fyrir sér eins og hv. 3. þm. Reykv. gerði, en ég ber ekki sama ugg í brjósti og hann í þessu tilliti. Og hættan á gagnályktun um að önnur félög megi ekki stofna tel ég að geti nú ekki verið fyrir hendi.
    Ég kem þá að fyrirspurn hans um neyðarrétt, en hann vék að nál. um það atriði. Þetta mál er þannig að það komu ábendingar frá Amnesty International um að það væri rétt að setja sérstakt neyðarréttarákvæði inn í stjórnarskrárfrv. til þess að koma í veg fyrir að ákveðin grundvallarmannréttindi yrðu brotin á tímum neyðarástands. Við ákváðum að gera þetta ekki og við svörum því í nál. hvers vegna það var ekki gert. Það er vegna þess að við teljum að það sé ekki rétt að taka út úr ákveðin mannréttindaákvæði og segja að þau séu meira virði en önnur og það megi ekki brjóta þau á neyðartímum af því að þá er gefið færi á gagnályktun um að það megi brjóta einhver önnur. Og við teljum auðvitað að öll ákvæði stjórnarskrárinnar séu jafnrétthá að þessu leyti til.
    Einnig bendum við á að ef á annað borð er farið út í það að brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar á neyðartímum þá sé engin trygging fyrir því að slíkt neyðarréttarákvæði verði ekki líka brotið. Þannig að þetta sé þegar af þeirri ástæðu haldlítið fyrirbæri. En spurning þingmannsins var um það hvort vísað væri þá á bug fordæminu frá því í stríðsbyrjun. Það tel ég nú að sé ekki. Auðvitað vita allir menn að ef til sérstaks neyðarástands kemur þá er hinn stjórnskipulegi neyðarréttur áfram fyrir hendi. Það þarf ekki annað en nefna lítið skólabókardæmi um að það getur þurft að hverfa frá ákvæðum stjórnarskrárinnar eins og t.d. það að hér segir að Alþingi skuli sitja í Reykjavík, ef ég man rétt, eða það er kveðið á um að stjórnarstofnanir skuli vera í Reykjavík. Það kann vel að vera svo að vegna náttúruhamfara reynist það ókleift og þá þarf að brjóta það ákvæði. Það gerist þá af sjálfu sér vegna aðstæðna sem ekki verður ráðið við. Þannig að ég tek undir það sjónarmið sem ég tel að hafi komið fram hjá hv. þm. um þetta atriði, að það eigi ekki --- og ég tel að það hafi ekki verið gert með þessu nál. --- að strika út eitthvað sem heitir stjórnskipulegur neyðarréttur hérlendis.
    Varðandi málsmeðferðina í þessu máli þá er ekkert um það að fást að tíminn sem fyrir hendi var í málinu var naumur. Það vissu allir þegar þál. var samþykkt 17. júní sl. En ég tel að það hafi verið unnið eins hratt og vel í þessu og nokkur tími gafst til og mér sýnist að niðurstaðan sé að verða þannig að meira að segja þeir sem uppi höfðu mestu stóryrðin í þjóðfélaginu séu farnir að taka undir það að það ætti nú að afgreiða þetta mál. Mér hefur heyrst það á viðbrögðum í fjölmiðlum í dag.
    Að því er varðar framhaldsmeðferð málsins þá liggur það auðvitað fyrir að til þess að þessi breyting nái fram að ganga á stjórnarskránni þá þarf að samþykkja nýtt frv. á næsta þingi, 119. þingi, en það þarf að vera óbreytt til þess að það nái fram að ganga. Þannig að mér finnst nú að það hafi verið gefið einum of mikið undir fótinn hér í umræðunni með að það sé unnt að koma fram einhverjum breytingum við seinni umferðina í þessu máli. Það er að sjálfsögðu ekki hægt og er skýrt ákvæði um það í 79. gr. stjórnarskrárinnar. ,,Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta [stendur þar] skal hún staðfest af forseta lýðveldisins og er hún þá gild í stjórnskipunarlög.``
    Það hafa margir sent þingnefndinni skoðanir sínar og álit og það hafa margir farið hörðum orðum um það sem hér er verið að vinna eins og við höfum mörg hver talað um í þessari umræðu. Einn aðili sem var vitnað til í umræðunni hér í dag, Dómarafélag Íslands, sendi hingað álit sem hv. 3. þm. Reykv. las upp úr og eru svona vangaveltur um það hvernig eigi að standa að svona máli. Ég verð nú að segja að mér finnst að þessi umsögn --- ég nefni hana af því að hún var áður nefnd --- byggist ekki á þeim staðreyndum sem fyrir liggja í málinu og þeirri vinnuáætlun sem samþykkt var á Þingvöllum hinn 17. júní, um að endurskoða skyldi VII. kafla stjórnarskrárinnar fyrir næstu reglulegar kosningar. Þá var verið að tala um VII. kaflann en ekki eingöngu mannréttindaákvæðin. En það sem ég vildi vekja athygli á í sambandi við álit Dómarafélagsins er það að Dómarafélagið sendi frá sér tvö álit. Dómarafélagið sendi fyrst álit þar sem niðurlagsorðin eru eftirfarandi:
    ,,Það er krafa Dómarafélags Íslands, með vísan til framangreindra raka, að frv. til breytingar á stjórnarskrá verði ekki barið í gegn fyrir þinglok heldur gefinn eðlilegur vaxtartími og vandað verði til þess bæði hvað varðar hugsun og orðalag eins og frekast er unnt.``
    Ja, það er nú eitthvað annað sem hefur verið að gerast í þessari stjórnarskrárnefnd heldur en að vanda til hugsunar og orðalags, má skilja af þessu orðalagi. En síðara álit Dómarafélagsins var óbreytt því fyrra nema það að þessi málsgrein var felld brott og ég lít nú svo á að þar með hafi Dómarafélagið lagt blessun sína yfir það að rétt væri nú að ljúka afgreiðslu málsins.
    Hitt verð ég að segja í þessu sambandi að ég tel þessi vinnubrögð af hálfu svo virðulegs félags sem Dómarafélags Íslands með þessi tvö álit sín, því félagi til lítils sóma.