Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 17:53:28 (4820)


[17:53]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að tala hér langt mál. Ástæðan er sú að ég hef verið fjarverandi og ekki sanngjarnt að ég fari að koma með heildarathugasemdir, en ég sé það við lestur þessa frv. að það er þó nokkuð mikill skilningsmunur á milli mín og þeirra sem sömdu þennan texta um það hvað eigi að festa í stjórnarskrá.
    Samkvæmt mínum skilningi á stjórnarskráin að vera mjög almenns eðlis og hún þarf að vera það vel og skýrt orðuð að það sé ekki auðvelt að benda á að þar rekist hvað á annars horn í þeim texta. Ég verð líka að segja að ég er ekki að öllu leyti sáttur við það sem menn hafa tekið út úr stjórnarskránni og er í þeim efnum t.d. sammála því sem hv. þm. Björn Bjarnason hefur vakið athygli á, að ef ráðist er á þetta land þá finnst mér ekki óeðlilegt að ríkisstjórn hafi rétt til að kveðja út vopnfæra menn. Það er mikill munur á þessu eða herskyldu, því verða menn að gera sér grein fyrir.
    Svo tala menn um að það megi engin nauðungarvinna eiga sér stað. Halda menn að þegar Hannes Hafstein kom í verstöð við Dýrafjörð og kvaddi menn út til starfa til að fara út að breskum togara að það hafi verið sjálfboðaliðasveit sem tók sig upp eftir erfitt dagsverk og vann það verk? Aldeilis ekki. Þeir hlýddu sínum sýslumanni í nafni þess valds sem hann hafði til að kveðja menn til liðs við sig og það vald var á þessum tíma einnig hjá hreppstjórum að þeir höfðu stjórnskipaðan rétt til þess að kveðja menn til liðs við sig í umboði sýslumanns.
    Ég hallast að því að hér hafi menn gengið of langt í því að hafa textann lengri og lengri vegna þess að einn hefur pantað þetta og annar hefur pantað hitt.
    Ég vil aftur á móti þakka fyrir það að jafnræðisreglan er sett í lög og það tel ég mikils virði. En þegar ég les 3. gr. eins og hún er í upprunalegum texta þar sem stendur, með leyfi forseta: ,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum án tillits til kynferðis . . .  `` Það er fyrst talið upp í textanum. Svo kemur breytingartillaga og þá er búið að botna textann: ,,Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.`` Á þá upprunalegi textinn bara við þá sem eru hvorugkyns? Eða hvernig ber að skilja þetta? Hvernig í dauðanum ber að skilja þetta? Hvaða kyn eru það sem menn eru að tala um? Ég átta mig bara ekki á þessu, ég segi það hreint út. Mér finnst að það eigi ekki að ganga þannig frá þessu að Háskóli Íslands geti haft það sem skemmtiefni að lesa upp kaflana og spyrja hvernig þetta sé hugsað. Annaðhvort erum við að tala um jafnrétti milli kynja og erum þá með þessi kyn í huga, konur og karla, eða að fyrra ákvæðið er óskiljanlegt venjulegum mönnum. Viðbótin er algjörlega óþörf, ( Gripið fram í: Hvernig var greinin?) hún á ekki rétt á sér.
    Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa alla 3. gr. eins og hún var upprunalega:
    ,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.`` Þarna er það innifalið sem svo er sett inn í breytingartillögu og má því ljóst vera að breytingartillagan verður fyrst og fremst til að gera þennan texta skoplegan ef hann er skoðaður.
    Ég staldra einnig örlítið við það atriði þar sem vikið er að því sem flokkast undir refsingu. 6. gr. hljóðar svo í upprunalegu frv:
    ,,Engan má beita ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.``
    Þarna er það bannað að nota refsingu nema hún sé nánast annaðhvort virðingarverð eða alls ekki ómannúðleg. Það er ákaflega erfitt að beita refsingu sem er virðingarverð, það held ég að við getum allir verið sammála um. Þá er það spurningin: Er refsing ekki alltaf á einhvern hátt niðurlægjandi fyrir þann sem verður fyrir henni? Er það ekki niðurlæging að vera dæmdur til að fara í tugthús, vera handjárnaður á almannafæri, borinn út af lögreglu? Ég á ákaflega erfitt með að átta mig á því t.d. að allt það sem íslenska tollgæslan aðhefst í dag til að framkvæma leit að fíkniefnum á Keflavíkurflugvelli fái staðist. Er það ekki niðurlægjandi undir sumum kringumstæðum? ( Gripið fram í: Það er ekki refsing.) Það er ekki refsing. Þarna eru sögð þau orð sem koma eins og frá guði þessa stundina. Það er bara ekki refsing ef tollverðir skipa mönnum að fara úr öllum fötunum og leita svo jafnvel innvortis á þeim að fíkniefnum. Ég segi eins og er að ég mundi nú frekar vilja vera einn í tugthúsinu í þokkalegum klefa en að búa við hitt.
    Við erum aftur á móti í 7. gr. með það alveg á hreinu að við ætlum að leyfa refsingu:
    ,,Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð á þeim tíma samkvæmt lögum eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi.`` Þetta stangast dálítið á við fyrri grein nema það sé hugsað svo að það verði þeir einir sem brotið hafi af sér áður en þessi lög voru samþykkt sem megi þá beita refsingu því að eftir að þessi stjórnarskrá hefur verið samþykkt þá sitja menn eiginlega fastir í 6. gr., að það sé ekki heimilt að beita refsingu.
    Mönnum finnst kannski að ég sé hér að fara yfir aukaatriði í þessu máli en ég held að það sé engin tilviljun að flestir þeir sem hafa sest við það erfiða verka að semja stjórnarskrá lögðu á sig mikla vinnu til að hafa orðalag í hvívetni á þann veg að ekki væri hægt að snúa út úr því sem þar stæði. Ég, sem aðrir hér inni, tók þátt í því að samþykkja það á Þingvallafundi að við skyldum gera að lögum frv. til stjórnarskipunarlaga að því er varðar mannréttindi og er að sjálfsögðu bundinn af því að stuðla að því að hér verði samþykkt slík lög. En mér þykir nánast vonlaust annað en að það verði aftur farið í það verk sem hér hefur verið unnið og menn endurmeti hvort það séu kannski ekki skynsamlegustu vinnubrögðin að láta

einn mann setjast yfir og semja eins og Thomas Jefferson fékk forðum að gera þegar Bandaríkin voru að rísa á legg. ( Gripið fram í: Hvað heitir okkar Thomas Jefferson?) ( SJS: Hann stendur þarna.) Það væri hugsanlega hægt að benda á mann eins og Magnús Thoroddsen, fyrrv. forseta Hæstaréttar. Það væri hugsanlega hægt að benda á hann og það er hægt að benda á fleiri. ( SJS: En ræðumann?) Það er eiginlega sjálfgefið að sá komi úr Norðurlandi eystra en auðvitað mætti athuga það.
    Það er svo að menn gera ekki mikið af því að semja saman skáldsögur. Það er yfirleitt einn rithöfundur og með önnur góð verk er það yfirleitt einn sem situr yfir þeirri ritsmíð. Og kannski er það vandamálið sem menn hafa þurft að glíma við hér að menn vildu alltaf fara út í upptalningu, bæta við. Bæta við þó búið væri í frumtexta að orða svo að það væri skýrt hvað við væri átt. Annaðhvort eru menn jafnir fyrir lögum eða þeir eru ekki jafnir fyrir lögum.
    Ég gat þess, herra forseti, að ég ætlaði að vera stuttorður og ég ætla að standa við það. En ég lýsi vonbrigðum með það hvernig til hefur tekist í þessum efnum en tel mig engu að síður bundinn af því að hér verði þessi kafli samþykktur þó að svo hafi til tekist en tel mig ekki bundinn af því að endursamþykkja hann á næsta þingi því það var ekki tekið fram í þáltill., það ég man. Við hljótum að gera okkur grein fyrir að hver kjörinn alþingismaður hefur rétt til þess að greiða atkvæði eins og hann telur rétt á næsta þingi hverjir sem þá verða kjörnir.