Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 18:07:03 (4821)


[18:07]
     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það liggur í augum uppi að það stendur enginn að því af núverandi þingmönnum að samþykkja stjórnarskrárfrumvarp ef hann ætlar ekki síðan að fylgja því eftir að loknum kosningum ef hann fær umboð til þess. Annars væri þetta verk sem betur væri óunnið ef menn ætluðu ekki að fylgja því eftir og koma því heilu í höfn endanlega.
    Ég vildi aðeins víkja að því sem hv. þm. nefndi áðan um 3. gr. þar sem stendur að allir skuli vera jafnir fyrir lögum án tillits til kynferðis eins og stóð í upphaflega frv. Síðan segir í viðbótinni: ,,Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.`` Hv. þm. spurði að því við hverja væri átt í fyrra tilvikinu og hallaðist helst að því að það væru þeir sem væru hvorugkyns úr því að þetta væri tvítekið. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að svara þessu vegna þess að þetta er ekki sett alveg út í bláinn. Menn skulu ekki halda að ákvæði af þessu tagi hafi verið sett að algjörlega vanhugsuðu máli. Í öðru tilvikinu er talað um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum. Í hinu tilvikinu er talað um að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Þetta er ekki það sama. Þetta felur ekki efnislega í sér það sama. Í öðru tilvikinu er fyrst og fremst miðað við lögin en í síðara tilvikinu, sem er mikið víðtækara er átt við í öllum tilvikum, hvort sem um er að ræða tilvik sem grundvallast af lögum eða einhverjum öðrum atvikum í þjóðfélaginu. Það getur t.d. átt við kjarasamninga, launakjör, starfskjör og ýmislegt fleira. Þótt athugasemd hv. þm. sé skemmtileg þá er hún ekki rétt að sama skapi. Það er hugsun á bak við þessa breytingartillögu og hún á fyllsta rétt á sér.