Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 18:09:29 (4822)


[18:09]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Hér er það sett fram að það sé hugsun á bak við þetta og sú hugsun kemur m.a. fram í greinargerð og þar tala menn um jákvæða mismunun. Nú stenst það alls ekki texta brtt. því þar er talað um jafnan rétt í hvívetna. En þá eru menn aftur á móti komnir í þá gömlu bók sem menn lásu og Orwell skrifaði. Þar átti þetta mikla jafnrétti að vera en menn áttu að vera misjafnlega jafnir. Misjafnlega jafnir. Sé textinn lesinn saman við greinargerðina þá stendur það eftir að nú ætla menn að hafa menn misjafnlega jafna.
    Ég verð að segja eins og er að ég treysti mér til þess að standa að því sem hægt er að tryggja með lögum og sé ekki yfir höfuð hvernig við getum tryggt annað í þjóðfélaginu. Ef við ætlum að hafa frjálsa samninga þá eru þeir frjálsir. Ef við ætlum ekki að hafa frjálsa samninga þá eru þeir ekki frjálsir. Þess vegna hlýtur grunnhugsunin í þessu fyrst og fremst að vera sú sem snýr að lögum því að stjórnarskráin er sett sem rammi utan um öll önnur lög.