Stjórn fiskveiða

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 18:27:06 (4830)

[18:27]
     Flm. (Jóhann Ársælsson) :
    Hæstv. forseti. Mér er nokkuð mikill vandi á höndum að ræða þetta mál undir þeim kringumstæðum sem hér eru skapaðar fyrir umræður. Þetta er mjög stórt mál. Ég hafði beðið um lengri ræðutíma til þess að fjalla um það í upphafi, féll síðan frá því vegna þessara aðstæðna sem eru komnar hér upp. Mér skilst að það sé ekki meiningin að leyfa hér umræður og það er auðvitað sorglegt að í allan vetur höfum við beðið eftir því að fá tækifæri til þess að ræða um þessi mál sem hér er verið að setja fram í lagaformi. Það er sannast að segja ekki vansalaust að hér á hv. Alþingi skuli þessum málum ekki hafa verið gerð meiri skil í vetur heldur en raun ber vitni. En ég ætla að snúa mér að því að mæla fyrir málinu.
    Málið er á þskj. 384 og fjallar um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum. Flutningsmaður ásamt mér er Steingrímur J. Sigfússon.
    Það er öllum ljóst að hin svokallaða endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða, sem staðið hefur yfir á þessu kjörtímabili, hefur algjörlega mistekist. Engin heildstæð stefna er fyrir hendi í málefnum sjávarútvegsins af hálfu ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir fögur fyrirheit í stjórnarsáttmálanum. Það er skoðun flutningsmanna þessa frumvarps að hrinda beri af stað alvöruendurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða. Til að slík endurskoðun geti borið árangur verður að kalla til fulltrúa allra þeirra aðila í þjóðfélaginu sem mestra hagsmuna eiga að gæta og láta sig málið varða.
     Lagt er til að nefnd, sem sjávarútvegsráðherra skipi, hafi forgöngu um málið í samráði við sjávarútvegsráðuneyti og Fiskistofu, sem og samtök hagsmunaaðila. Þær tillögur, sem fram eru bornar í þessu frumvarpi til breytinga á lögunum um stjórn fiskveiða, eru einungis neyðarráðstafanir sem geta lítið dregið úr hinum ýmsum vanköntum kvótakerfisins, en helstu gallar kerfisins eru áfram til staðar.
    Til að draga úr vanda bátaútgerðarinnar sem nú á í gífurlegum erfiðleikum eru lagðar til nokkrar ráðstafanir. Fyrir báta 6 brl. og stærri, sem hafa orðið fyrir mestum skerðingum vegna samdráttar í þorskveiðum, er lagt til að úthlutað verði til jöfnunar 22 þúsund þorskígildislestum, þ.e. 10 þúsund þorskígildislestum meira en nú hefur verið gert. Skal úthlutun á þessum viðbótaraflarétti til skipanna í samræmi við aflaheimildir þeirra í viðkomandi tegundum. Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að mörgum útgerðarmönnum hefur ekki nýst úthlutun á tegundum sem bátar þeirra stunda ekki veiðar á. Skal við mat á bótunum taka tillit til skerðinga veiðiheimilda á undanförnum þremur fiskveiðiárum.
     Lagt er til að bátum, sem eru minni en 6 brl. og hafa stundað veiðar á aflamarki, gefist kostur á að velja þann kost að stunda veiðar með línu og handfærum. Þessir útgerðarmenn eru í þeim hópi sem hvað verst hefur farið út úr hinum miklu skerðingum á aflaheimildum til veiða á þorski á undanförnum árum. Bent skal á að einmitt þessir útgerðarmenn höfðu umtalsverða aflareynslu þegar kvótakerfið var sett á og völdu þess vegna aflamarkið. Það er þess vegna fráleitt að þeir hafi mun verri kost nú til útgerðar en hinir sem enga aflareynslu höfðu. Það verður út frá almennum réttlætissjónarmiðum ekki við annað unað en að útgerðarmönnum í sama útgerðarflokki sé gefinn kostur á svipuðum möguleikum til að fiska.
    Í þessu sambandi vil ég sérstaklega minna á það að á síðasta þingi, þegar verið var að afgreiða breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða, var tillaga af þessu tagi felld og það er í sjálfu sér óskiljanlegt í ljósi þess að svona tillaga eins og þessi átti ekki að kosta einn einasta fisk til viðbótar við það sem ákveðið var að kæmi í hlut bátanna undir 6 tonnum. En þessi tillaga var samt felld og eini rökstuðningurinn sem ég nokkurn tíma heyrði fyrir því að fella þá tillögu var sá að það væri ekki verið að koma til móts við aðra aðila. En þessir aðilar, sem gera út báta undir 6 tonnum, eru auðvitað alveg sérstakur hópur sem verður að skoða í ljósi forsögunnar, þ.e. þess sem ég var hér að segja áðan, þegar þeim var gefinn kostur á því að velja milli krókaleyfiskerfisins og þess að vera á aflamarki.

    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að látið verði staðar numið fjölgun svokallaðra fullvinnsluskipa. --- Nú vil ég biðja hæstv. forseta að kanna hvort hæstv. sjútvrh. er hér staddur því að ég hefði gjarnan haft áhuga á því að vita hvort hann væri ekki tilbúinn að taka undir þá tillögu hér. Ég hef heyrt yfirlýsingar frá hæstv. sjútvrh. um það að hann hyggist bera fram tillögur um að banna fjölgun frystiskipa fram að aldamótum og það væri kannski ráð að tryggja því málefni framgang með því að samþykkja þessa tillögu sem hér er lögð fram.
    Við leggjum einungis til að þetta verði bannað núna um tveggja ára skeið, að veita fleiri slíkum skipum veiðileyfi. Það er skoðun flutningsmanna að rétt sé að hafa rúman tíma til endurskoðunar á þessu atriði. Brýn nauðsyn er á að hér verði tekin upp stefna sem leggur áherslu á að fiskurinn verði unninn sem mest áður en hann er fluttur úr landi. Það er ekki gæfuleg þróun að á sama tíma og atvinnu vantar í landinu skuli vera fjárfest í vinnsluskipum sem grófvinna aflann úti á sjó.
    Það er rík ástæða til að taka það til alvarlegrar athugunar hvort þróunin sé í rétta átt hvað varðar fiskiskipaflotann, stærð og samsetningu. Þær gífurlegu fjárfestingar sem verið hafa í stórum skipum á sama tíma og lagðir eru milljarðar króna í úreldingu bátaflotans virðast ekki skynsamlegar hvorki út frá atvinnusjónarmiðum né með tilliti til nýtingar fiskimiðanna.
    Aldrei hafa heyrst glannalegri sögur af því hve miklum fiski er hent í sjóinn en nú og alveg sérstaklega á síðustu mánuðum og missiri. Í því sambandi væri kannski ástæða til þess að nefna það hér í sölum Alþingis að síðasta ákvörðun sjútvrn. í þessu efni, þ.e. að ekki skuli lengur leyfa frádrátt vegna smáfisks í afla frá kvótanum, hefur orðið til þess að verulega hefur dregið úr löndun á smáum fiski, undirmálsfiski. Það hlýtur að verða rannsóknarefni hvernig á því stendur að sú ákvörðun skuli hafa valdið því að minna berist á land af smáfiski og hlýtur að vera til umhugsunar fyrir þá sem þessa ákvörðun tóku.
    Í þessari tillögu er lagt til að heimiluð verði löndun á fiski utan kvóta sem annars vegar ætti að geta komið í veg fyrir þann ósóma að fleygja fiski í sjóinn og hins vegar gæti tryggt að réttar upplýsingar fáist um það magn af fiski sem raunverulega er drepið. Það sýnist sitt hverjum um hve miklu af fiski er fleygt fyrir borð en sú tilhögun, sem hér er lagt til að verði tekin upp, ætti að geta leitt í ljós svo óyggjandi væri hversu mikill vandinn er og hefur verið á undanförnum árum. Algjör nauðsyn er á að tekið verði á áhrifaríkan hátt á þessu máli. Það verður aldrei borin nein virðing fyrir stjórnkerfi í fiskveiðum sem veldur þeirri meðferð auðlindarinnar sem nú viðgengst.
    Í athugasemdum um einstakar greinar kemur m.a. fram um 1. gr., sem er eina greinin sem er raunverulega um breytingu á sjálfum lögunum, hinar greinarnar eru allar bráðabirgðaákvæði sem horfa til þess að koma málum í skárra horf heldur en nú er, og aðalákvæðið sem fjallar um það að raunveruleg endurskoðun fari fram á lögunum um stjórn fiskveiða, í athugasemdum við 1. gr. tillögunnar stendur m.a.:
    ,,Með þessari breytingu er verið að auka verulega það aflamagn sem nota má til jöfnunar`` --- og ég fór yfir áðan. Ég ætla í þessu sambandi að minna sérstaklega á hvernig hefur farið fyrir þeim sem hafa verið á aflamarki frá upphafi kvótakerfisins. Í fylgiskjölum á bls. 14, sem fylgja með tillögunni, má benda á bát sem hefur ekki bætt við sig neinum veiðiheimildum frá upphafi kvótakerfisins fram á þennan dag en engar selt heldur frá sér. Hann hafði 720 tonna afla á viðmiðunarárunum. Hann hefur núna 172 tonna afla. Hann hafði í upphafi tímabilsins 0,246% af heildarþorskaflanum en hefur núna 0,104. Þetta segir sína sögu um það hvernig þetta kerfi hefur malað aflaheimildir af bátaflotanum alveg sérstaklega og á þessu hefur ekki verið tekið. Við höfum lagt til áður svipaða tillögu og þessa, til þess að koma til móts við bátaflotann, en það hefur ekkert verið aðhafst í þessum efnum.
    Hæstv. forseti. Er hæstv. sjútvrh. nokkuð staddur í húsinu?
    ( Forseti (GHelg) : Forseti vill upplýsa að það er verið að kanna hvort hæstv. ráðherra er í húsinu.)
    Í bráðabirgðaákvæði IV, sem er raunverulega aðaltillaga þessa lagafrv., er farið yfir það hvaða ástæður eru fyrir því að tillagan er lögð fram og vitanlega er aðalástæðan sú að endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða mistókst. Með þjóðinni hefur verið mikil samstaða um að standa vörð um fiskstofnana og lífríkið í sjónum, það er sú auðlind sem verið hefur burðarásinn í atvinnulífi landsmanna. Hin mikla samstaða landsmanna í baráttunni fyrir yfirráðum Íslendinga yfir fiskimiðunum í kringum landið ber þess gleggstan vott. Árhundruðum saman höfðu erlendir fiskimenn haft aðgang að miðunum við landið og full yfirráð Íslendinga yfir 200 mílna fiskveiðilögsögunni var stórsigur í lífi þjóðarinnar. Þess vegna er eðlilegt að flestir landsmenn líti svo á að þessi auðlind, þ.e. fiskstofnarnir og lífríkið í sjónum, sé og eigi að vera um alla framtíð sameign allrar þjóðarinnar.
    Allt frá því að lög nr. 82 28. desember 1983, um breytingar á lögum nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, fyrstu lögin um kvótakerfið, voru sett hefur verið mikill ágreiningur um þau og framkvæmd þeirra. Mestur hefur ágreiningurinn verið um það ígildi eignarréttar á fiskstofnunum sem felst í því að einstakar útgerðir eigi rétt á að nýta ákveðinn hluta fiskstofnanna og hafi leyfi til að kaupa og selja þann rétt. Í reynd hefur rétturinn til aflahlutdeildar úr einstökum fiskstofnum og frjálst framsal aflaheimilda orðið í framkvæmd ígildi eignarréttar á viðkomandi fiskstofni.
    Ég vil vitna til þess, sem ég gerði reyndar fyrr í dag í þessu sambandi, að einn af aðalhöfundum kvótakerfisins, prófessor við Háskóla Íslands, Ragnar Árnason, segir í grein í Morgunblaðinu á sunnudaginn var, 19. feb., á einum stað:

    ,,Þó kastar fyrst tólfunum er þeir kenna kvótakerfið við miðstýringu, haftakerfi og forræðishyggju. Kvótakerfið er kerfi eignarréttar yfir heimildum til að nýta auðlindina. Sem slíkt er það algerlega hliðstætt alþekktum eignarréttarkerfum á landi, t.d. eignarrétti á landi, húsum, verksmiðjum, hlutabréfum og öðrum verðmætum.``
    Auðvitað hefur kvótakerfið frá því að frjálst framsal aflaheimilda var leyft virkað nákvæmlega svona. Það er óþolandi að í umræðu um þessi mál skuli menn ekki fást til þess að ræða málið út frá þeim forsendum sem þetta gefur. Ekki út frá þeim raunveruleika sem við erum að horfa framan í. En það er farið með veiðiheimildir algerlega sem ígildi eignarréttar útgerðarmanna. Og lögin um stjórn fiskveiða, með 1. gr. sem segir að þjóðin eigi þetta sameiginlega, stangast á við framkvæmdina. Á þessu verða menn að taka og það er auðvitað lagt til með þessari tillögu að menn fari yfir allt þetta mál. Framkvæmd laganna er þess vegna í andstöðu við það meginmarkmið um sameign þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum, sem þó var sett í 1. gr., eins og ég sagði hér áðan. Síðan hafa fjölmargir aðrir annmarkar komið fram við framkvæmd þessara laga og skulu hér rakin fáein dæmi:
    Tilflutningur á veiðiheimildum hefur valdið byggðaröskun og af þeim ástæðum hafa mörg sveitarfélög orðið að leggja mikla fjármuni í kaup á veiðiheimildum eða ábyrgðir tengdar slíkum kaupum. Satt að segja er sú uppfinning sem mest er stunduð og menn kalla tonn á móti tonni viðskipti, eitt af því svívirðilegasta sem menn hafa fundið upp í þessu sambandi. Fiskurinn er veiddur á heimamiðum viðkomandi byggðarlags og hann, sem áður var seldur á staðnum, er nú fluttur að miklum hluta og jafnvel allur burt til vinnslu annars staðar. Grundvellinum er þannig kippt undan fiskvinnslunni á staðnum og þar með viðkomandi byggðarlagi sem hefur byggst upp vegna hagstæðrar legu sinnar nálægt góðum fiskimiðum. Verð á aflaheimildum ákvarðast síðan af þessum viðskiptaháttum, þ.e. að þeir aðilar sem notfæra sér aflaheimildir sínar með þessum hætti til að keyra niður fiskverðið og vinna þess vegna á miklu lægri hráefnisverðum, geta notað mismuninn til að kaupa sér enn meiri veiðiheimildir og geta af sömu ástæðum borgað langtum hærra verð fyrir varanlegan kvóta.
    Venjulegir bátaútgerðarmenn eiga enga möguleika til að keppa um veiðiheimildir við aðila eins og þessa. Afleiðingin er sú að allur varanlegur kvóti sem losnar endar hjá aðilum sem notfæra sér aðstöðu sína með þessum hætti. Öll önnur fiskvinnslufyrirtæki en þau sem notfæra sér kerfið til að þrýsta niður hráefnisverðinu, þ.e. þau sem ekki eiga aðild að útgerð sjálf, og kaupa á fiskmörkuðum eða beint af útgerðum, eiga mjög undir högg að sækja og hafa fjölmörg hætt starfsemi og í sumum byggðarlögum er nú enginn fiskur unninn lengur af þessum ástæðum.
    Fjölmörg önnur vandamál fylgja þessu kvótakerfi. Það neyðir sem sagt þeirri stefnu upp á sveitarstjórnir, ef til lengri tíma er litið, að þær verði að hafa tök á veiðiheimildunum og verði þess vegna að kaupa þær veiðiheimildir sem losna. Verði kerfið fest endanlega í sessi til framtíðar munu byggðarlög, sem mjög eru háð fiskveiðum, verða að bregðast við með því að reyna enn frekar að ná tangarhaldi á þeim kvóta sem verður til sölu.
    Þróunin hefur einnig sýnt mjög skýrt að aflaheimildir safnast á stærstu aðilana í útgerðinni og færast þar með úr bátaútgerð til togskipaútgerðar. Í því sambandi er alveg sérstaklega mikið áhyggjuefni það misvægi sem myndast í sókninni. Það er þannig að við getum fræðilega staðið frammi fyrir því einn góðan veðurdag að allar veiðiheimildir verði komnar á hendur togskipaútgerðarinnar í landinu og að allur fiskur sem megi veiða verði veiddur fyrir utan 12 mílur, ef við yrðum svo heppnir að það yrði hægt að auka hér veiðiheimildir vegna þess að veiðistofninn hefði aukist og að það væri tæknilega mögulegt að hirða allan aflann fyrir utan 12 mílur. Sú hætta felst í því kerfi sem við höfum hér við lýði núna.
    Það er sannað, eins og ég kom að hér áðan, að afla er kastað í sjóinn. Það er sannað að afla hefur verið landað fram hjá vigt, tegundir hafa verið rangt skráðar og margt annars konar óhagræði fylgir sem ég ætla ekki að rekja hér. Ég verð því miður, hæstv. forseti, að hlaupa yfir margt af því sem ég ætlaði að koma að í þessari framsögu minni vegna þess að tími minn hefur verið skorinn svo niður sem raun ber vitni.
    Mig langar þó að koma að því sem ég tel að sé ástæðan fyrir því að við erum ekki komin enn þá lengra í endurskoðuninni á lögunum á stjórn fiskveiða, en það er að litlir en öflugir hópar í þessu þjóðfélagi hafa ráðin í hendi sinni, hafa þingmennina í vasanum, geta komið og sagt mönnum fyrir verkum, bæði ráðherrum og þingmönnum. Það hefur verið þannig og það hét á sínum tíma að hafa samráð við hagsmunaaðila og var alveg sérstaklega stundað og fundið upp í sambandi við undirbúninginn á lögunum um stjórn fiskveiða og það hefur sannarlega verið gert, að hafa samráð við hagsmunaaðila. Þeir hafa verið spurðir að öllu mögulegu.
    Ég ætla að benda á síðustu sönnunina fyrir því hvernig staðið er að þessum málum. Hæstv. sjútvrh. stóð fyrir ráðstefnu ekki fyrir löngu. Sú ráðstefna hét Viðreisn þorskstofnsins, það var ekkert minna. Hvernig fór hún nú fram? Jú, á þessa ráðstefnu sjútvrh. kom maður sem í dag er fisklaus maður og hann kom til að segja frá sínum hörmungum. Síðan voru tveir aðilar aðrir sem áttu að segja frá því hvernig ætti að skipta fiskinum á milli og hvernig ætti að finna það út hvað hann mætti veiða mikið, þ.e. segja frá ákveðinni aflareglu. Á eftir var síðan pallborðsumræða. Hverjir tóku þátt í þessari pallborðsumræðu? Jú, það voru Sigurður B. Stefánsson, framkvæmdastjóri Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka, Magnús Gústafsson, forstjóri Coldwater, Þorvaldur Garðarsson skipstjóri, Guðrún Marteinsdóttir, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, Kristján Halldórsson, skipstjóri hjá Útgerðarfélagi Akureyringa, Eiríkur Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf., Einar Svansson, framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar Skagfirðings, og sá sem stjórnaði öllu saman var Brynjólfur Bjarnason. Hver skyldi það vera? Formaður stjórnar Granda, forstjóri Granda, formaður stjórnar Hafrannsóknastofnunar. Þetta segir sína sögu um það hvernig menn standa að því að stjórna þessum málum. Það er raðað saman upp á eitt pallborð til þess að ræða um það hvernig eigi að reisa þorskstofninn við, hagsmunaaðilum úr einni tegund af útgerð við landið. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Og ef menn ætla sér ekki að horfa á þessi mál út frá hagsmunum lífríkisins, út frá hagsmunum byggðarlaganna við landið og út frá hagsmunum fólksins sem býr í byggðarlögunum, út frá hagsmunum sjómannanna og verkafólksins, þá verða þau aldrei leyst af neinni sanngirni.
    Við leggjum fram þessa tillögu hér --- það eru að vísu fáar beinar tillögur hér, einungis tillögur sem ég lýsti hér áðan --- til að taka á sárasta vanda bátaflotans og til að koma til móts við kröfur smábáta sem eru eðlilegar. Ég ætla að spyrja hæstv. sjútvrh., hvort hann mundi ekki beita sér fyrir því, ef hann er mættur hér, hæstv. forseti.
    ( Forseti (GHelg) : Forseti hefur ekki fengið fréttir af ferðum hæstv. sjútvrh.)
    ( VE: Þetta er hans eigið frv. Hann er að mæla fyrir sínu frv.)
    ( SJS: Hvað með það?)
    Hæstv. forseti. Er ekki óhætt að ég fái --- er bannað að maður óski eftir því að hæstv. sjútvrh. hlýði á mál mitt? ( SJS: Verslunarráðið bannar það.)
    ( Forseti (GHelg) : Forseti vill biðja hv. þm. að hlífa þingheimi við umræðum af þessu tagi. Vitaskuld hefur hver þingmaður leyfi til að óska eftir að eiga orðastað við ráðherra þess málaflokks sem hann er að ræða. En ég skal ítreka fyrirspurn mína um ferðir hæstv. sjútvrh.)
    Hæstv. forseti. Það er af einni ástæðu sem ég óskaði sérstaklega eftir því að hæstv. sjútvrh. mætti hér. Ástæðan er sú að í fjölmiðlum hefur hæstv. sjútvrh. lýst því alveg sérstaklega yfir að hann telji ástæðu til að bera fram tillögu um það að koma í veg fyrir fjölgun fullvinnsluskipa. Það fréttist af því að hann væri með tillögur um að það ætti að banna fjölgun fullvinnsluskipa a.m.k. til aldamóta. Í þessum tillögum sem við erum að leggja hér fram er lagt til að fjölgun fullvinnsluskipa verði bönnuð í tvö ár á meðan endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða fari fram. Ég ætlaði að spyrja hæstv. sjútvrh. að því hvort hann væri ekki tilbúinn til að beita sér fyrir því að þessi tillaga kæmist í gegn. Ég ætlaði líka að spyrja hæstv. sjútvrh. að því hvort hann væri tilbúinn að beita sér fyrir því að tillögunni um smábátana, sem við erum með hér líka, yrði komið í gegnum Alþingi fyrir þinglok. Því það er satt að segja aldeilis ótrúlegt að menn skuli ekki hér á hv. Alþingi hafa séð sóma sinn í að leysa það mál. Og trillukarlavinirnir, hæstv. umhvrh. og fleiri alþýðuflokksmenn, hafa nú ekki staðið sig betur en þetta í því að verja sína menn, að þeim hefur ekki tekist að fá svona mál eins og þetta í gegnum hv. Alþingi. Ég tel að það sé ekki vansalaust fyrir hv. Alþingi að fara hér heim af vettvangi nú á þessum vetri og skilja eftir menn með þær aðstæður sem þeim hafa verið búnar í þessari útgerð.
    Satt að segja og það skulu vera mín lokaorð, hæstv. forseti, að ég harma það að við skulum vera að ræða hér um sjávarútvegsmál á Alþingi núna við slíkar aðstæður sem þessar. Það hefði verið ástæða til að fara yfir alla sögu hæstv. ríkisstjórnar og afrek hæstv. sjútvrh. og stjórnarflokkanna í sjávarútvegsmálum áður en hv. Alþingi fer heim. Þar er sannarlega af mörgu að taka. Og ég er sannfærður um að í kosningaslagnum sem er fram undan þá verða þessi mál á dagskrá og þá munu menn ekki komast upp með að hverfa af vettvangi og forða sér þegar farið er að nefna fisk í nágrenni við þá.