Stjórn fiskveiða

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 18:53:03 (4831)


[18:53]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér þykir miður að jafnþarft mál eins og hér er hreyft skuli ekki fást rætt í hinu háa Alþingi, en það mun vera eftir samkomulagi við hv. framsögumann fyrir málinu sem það er.
    Ég vil leyfa mér að taka undir bráðabirgðaákvæði III þar sem ég tel að það sé löngu tímabært að menn leiti leiða til að allur afli komi á land. Hér er bent á eina leið. Ég skal ekki fullyrða hvort hún er sú besta en hún vekur upp þetta mál og umræðu um það, sem ég tel að hefði verið þörf og þurft að fara hér fram.
    Ég vil aðeins benda á það að ég hefði talið eðlilegt að útgerðin hefði fengið einhvern hluta af þeim undirmálsafla sem útgerðin kæmi með á land til að komast hjá þeirri freistingu sem óneitanlega verður enn til staðar hjá útgerð, að henda undirmálsfiski í hafið. Þannig að ég teldi eðlilegt að útgerð yrði umbunað á einhvern hátt, m.a. með því að hún fengi þá einhvern hlut. Síðan vil ég taka undir það hvað á að gera við það verðmæti sem situr þá eftir, en gert er ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði III að það renni til þyrlukaupasjóðs Landhelgisgæslunnar.
    Þetta vildi ég láta koma hér fram í örstuttu máli úr því að það er ekki heimiluð umræða um málið. Þess vegna vildi ég nýta mér þingsköpin og koma þessu fram í andsvari.