Einkanúmer á ökutæki

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 19:06:31 (4837)


[19:06]
     Flm. (Árni Johnsen) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var einu sinni ungur mjólkurskoðunarmaður sem var frægur fyrir það þegar hann kom í fjós á umráðasvæði sínu að hafa allt á hornum sér. Hann kom inn og sparkaði í koppa og kirnur og tuldraði og blés til allra átta. Því miður minnti málflutningur hv. þm. Guðna Ágústssonar nokkuð á þennan unga mjólkurskoðunarmann forðum því það er engin ástæða til þess að hafa þetta mál á hornum sér. Þetta er ekki stórt mál, en þetta er skemmtilegt mál og það er auðvitað út í hött að vera að tala um að það verði einhver sérréttindi að geta keypt einkanúmer í þessu kerfi, ef þessi tillaga verður samþykkt eða afgreitt samkvæmt henni, vegna þess að það er talað um að verð á bílnúmeri sé tvisvar eða

þrisvar sinnum hærra en á fastskráningarnúmeri, sem er um 6--7 þús. kr. Þarna er talað um 10--15 þús. kr. Á Norðurlöndum er hins vegar verð á svona fastnúmeri 70--100 þús. kr. og hv. þm. Guðni Ágústsson getur þá þakkað fyrir að búa ekki í slíku umhverfi með það mat.
    Hér er ekki um neitt tildurmál að ræða. Hér er um að ræða mál sem margir landsmenn hafa mikinn áhuga á og það er nánast á degi hverjum til að mynda sem hringt er í Bifreiðaskoðun Íslands og spurt hvort ekki sé hægt að fá gamla kerfið upp eða eitthvað í samræmi við það og þarna er ekki verið að neyða neitt upp á neinn. Þarna er aðeins verið að auka fjölbreytni og það kemur svo sem ekkert á óvart þó að hv. þm. Guðni Ágústsson þoli ekki fjölbreytni. Það getur maður skilið af mörgum ástæðum, virðulegi forseti.