Fyrning skulda og annarra kröfuréttinda

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 19:19:21 (4840)

[19:19]
     Flm. (Jóhann Ársælsson) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 673 flyt ég ásamt hv. þm. Margrét Frímannsdóttir. till. til þál.
    Tillgr. er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem taki til endurskoðunar lög nr. 14 frá 1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Í starfi nefndarinnar verði við það miðað að nýtt frumvarp verði lagt fyrir Alþingi á komandi hausti.
    Lögin um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14 frá 1905, eru í ýmsu úrelt og margt í þeim er ekki í samræmi við nútímann og önnur lög sem yngri eru. Sem dæmi má taka 5. mgr. 1. gr. en hún hljóðar svo: ,,Þau réttindi fyrnast ekki, er hvíla á fasteign sem ævarandi afgjaldskvöð, og eigi heldur kröfur til endurgjalds þegnum sveitarstyrk.`` Þessi málsgrein er aftan úr grárri forneskju. Öll viðhorf hvað varðar félagshjálp og rétt fólks til hennar hafa breyst frá því að þessi ákvæði voru lögfest. Þá má benda á 13. gr. laganna þar sem kveðið er á um að ýmsar kröfur á einstaklinga, sem verða gjaldþrota, fyrnist á

10 árum. Þessi ákvæði eru í ósamræmi við lík ákvæði í lögum þar sem fjallað er um gjaldþrot félaga. Ekki verður séð að einstaklingur, sem haft hefur rekstur með höndum og verður gjaldþrota, eigi að þurfa að sæta miklu harðari kostum eftir gjaldþrotameðferð en sá sem rak starfsemi sína undir nafni hlutafélags. Það er skoðun flutningsmanna að það sé sjálfsagt réttlætismál gagnvart þeim einstaklingum sem verða gjaldþrota að þeir séu jafnir fyrir lögunum hvað varðar fyrningar skulda og annarra kröfuréttinda eins og aðrir aðilar sé eðli máls hið sama, einnig að ákvæðið um að ,,kröfur til endurgjalds þegnum sveitarstyrk`` fyrnist aldrei sé algerlega úr takt við nútímaviðhorf fólks til réttinda einstaklinga til félagshjálpar. Það er niðurlægjandi fyrir fólk sem á fullan rétt til aðstoðar samfélagsins að hafa slíkt ákvæði í lögum. Einnig er nauðsynlegt til að almenns samræmis verði gætt að taka þessi lög til endurskoðunar.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að máli þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til allshn.