Merking þilfarsfiskiskipa

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 20:32:52 (4841)

[20:32]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 614 flyt ég ásamt hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni þáltill. um breytingu á merkingu þilfarsfiskiskipa.
    Þáltill. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að breyta reglugerð um merkingu skipa, nr. 550/1982, hluta N, lið 2.3, en þar segir að þilfarsfiskiskip skuli vera merkt með skipaskrárnúmeri á heppilegum stað á báðum hliðum. Í fyrsta lagi verði sú breyting gerð á að í stað skipaskrárnúmera komi kallmerki skipsins og í öðru lagi verði hæð merkingarstafa á þilfarsskipum breytt með eftirfarandi hætti.``
    Lauslega yfir það farið segir hér í fyrsta lagi að
    ef skipslengd sé á bilinu 15--20 m þá skuli hæð stafa vera 50 cm,
    ef skipslengd er á bilinu 20--45 m skuli hæð stafa vera 75 cm og
    ef skipslengd er 45 m eða lengri skuli hæð stafa vera 100 cm.
    Stafirnir verði settir á sérstök merkingarspjöld, svartir á lit á ljósum bakgrunni sem gefi endurskin.
    Í greinargerð segir m.a.:
    Reglur um merkingu skipa í núverandi mynd hafa verið í gildi í rúm 12 ár. Þar er gerð krafa um að stærri fiskiskip séu auðkennd með umdæmisstöfum og tölum á bóg beggja megin ásamt nafni. Auk þess skulu þilfarsskip merkt með skipaskrárnúmeri á heppilegum stað á báðum hliðum skipsins.
    Tveir helstu gallar núgildandi reglugerðar hvað varðar þilfarsskip eru að stærð stafa, sem mælt er fyrir um í 4. kafla reglugerðarinnar, er of lítil og að notast er við skipaskrárnúmer í stað kallmerkis viðkomandi skips. Sá háttur að merkja skip með sérstöku skipaskrárnúmeri er séríslenskt fyrirbæri sem hvergi þekkist annars staðar. Hins vegar eru kallmerki skipa alþjóðlegt kerfi sem fletta má upp í alþjóðlegum skipaskráningarbókum. Með þeirri breytingu sem orðið hefur á sókn íslenskra fiskiskipa, fjær landi og til fjarlægra miða, hlýtur sú krafa að koma fram frá erlendum aðilum sem sinna eftirliti á hafinu að íslensk fiskiskip verði merkt á þann hátt sem samræmist alþjóðlegum merkingum fiskiskipa. Er það ekki óeðlilegt svo mjög sem hér á undanförnum þingum hefur verið rætt um alþjóðleg samskipti að þetta mál verði tekið til gaumgæfilegrar athugunar Hvað varðar stærð stafa hlýtur það að teljast ákveðinn öryggisþáttur að hafa slíkar merkingar afgerandi þannig að þær séu nokkuð auðlesnar, t.d. frá þyrlum, og þannig sé auðvelt að þekkja skipið þegar og ef neyðarkall kæmi frá því. Staðsetning merkingarskilta á skipi yrði að taka mið af því hversu vel skiltin sæjust bæði frá sjó og úr lofti og því eðlilegt að efri brún spjalds hallaði um tíu gráður til að auðvelda aflestur úr flugvél.
    Í núgildandi reglugerð um merkingu íslenskra fiskiskipa eru ákvæði þess efnis að ef skip eru minni en 30 brt (undir 20 m að lengd) skal hæð stafa vera 25 cm en á skipum stærri en 30 brt (yfir 20 m að lengd) skal hæð stafa vera 45 cm. Þar sem íslensk fiskiskip undir 30 brt hafa ekki kallmerki yrði sú skráningarskylda sem nú gildir, þ.e. þetta séríslenska fyrirbrigði, að vera áfram við lýði fyrir hin smærri skip, enda ætti slíkt ekki að koma að sök, a.m.k. ekki vegna sóknar á fjarlæg mið.
    Ætla má að einhvern aðlögunartíma þurfi fyrir útgerðir og Siglingamálastofnun, sem og Tilkynningarskyldu íslenskra skipa, ef og þegar þessi breyting nær fram að ganga, en þó ætti að vera óþarft að hafa hann meiri en tvö ár.
    Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. samgn.