Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 21:03:51 (4848)

[21:03]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Þetta frv. er ekki langt en það er flutt í tengslum við kjarasamninga sem gerðir voru á milli landssambandanna innan

Alþýðusambands Íslands annars vegar og Vinnuveitendasambands Íslands hins vegar. Þá mun síðar á þessum fundi verða mælt fyrir nokkrum öðrum frv., þ.e. 45.--48. dagskrármál, sem varða breytingar á vísitölu, greiðslu Atvinnuleysistryggingasjóðs til fiskvinnslufólks og sérfrumvarp um atvinnuleysistryggingar. Allt eru þetta frv. sem með einum eða öðrum hætti tengjast þeim kjarasamningi sem gerður var.
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þennan kjarasamning. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún telji að hann sé gerður innan þeirra marka sem efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir og telja má að hann sé gerður með þeim hætti að tryggður sé efnahagslegur stöðugleiki út samningstímabilið ef aðrir kjarasamningar taka mið af því sem þar gerðist.
    Það er fróðlegt, virðulegi forseti, að líta til þess hvað hefur gerst á síðustu örfáum dögum þegar ljóst var að stór verkalýðsfélög samþykktu samninginn. Sú breyting sem hefur orðið t.d. á vöxtum á fjármagnsmarkaði, verðbréfamarkaðnum, gefur til kynna að almenningur hér á landi hefur trú á því að stöðugleikinn haldi áfram, að verðlag verði tiltölulega stöðugt, að viðskiptajöfnuður verði til staðar og þannig sé hægt að segja að kjarasamningar með þessum hætti séu forsenda hagsældar í landinu á næstu árum.
    Kostnaður við þessa kjarasamninga er að sjálfsögðu nokkur, en það verður að hafa það í huga að ef ekki hefðu verið gerðir kjarasamningar í þessum dúr má búast við því að kostnaður ríkissjóðs hefði jafnvel orðið enn meiri. Á næstu árum verður að sjálfsögðu að mæta þessum kostnaði og viðamiklum skattabreytingum sem hér eru að eiga sér stað, annaðhvort með niðurskurði á ríkisútgjöldum eða með auknum tekjum. Þetta var sérstaklega tekið fram við viðmælendur ríkisstjórnarinnar og þeim gert ljóst að næsta ríkisstjórn hlyti að leita allra leiða til þess að ná niður ríkissjóðshallanum á næsta kjörtímabili. Ekki má þó gleyma því að með batnandi tíð eykst veltan í þjóðfélaginu og þess vegna má búast við meiri tekjum ríkissjóðs, en ríkinu veitir ekki af þeim tekjum til þess að draga niður í ríkissjóðshallanum. En það er ljóst að ef ekki verður tekist á við það vandamál með batnandi efnahag þjóðarinnar þá eru núlifandi Íslendingar að velta vandanum yfir á komandi kynslóðir.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru nokkur atriði sem snúa að fjmrn. Í öðrum lið yfirlýsingarinnar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Á árinu 1995 verður heimilt að draga 2% af 4% framlagi launþega í lífeyrissjóð frá tekjum við álagningu skatta og komi þetta til framkvæmda 1. apríl. Frá og með 1. júlí 1996 verður heimilt að draga frá 3% og allt 4% framlagið frá 1. júlí 1997. Hér er um mjög víðtæka breytingu að ræða sem hefur í för með sér verulegt tekjutap fyrir ríkissjóð og sveitarfélögin. Þessu verður að mæta með auknum tekjum og/eða niðurskurði útgjalda.``
    Ég mun síðar fjalla frekar um þennan annan lið yfirlýsingarinnar sem svarar til 2. gr. lagafrv. og 3. gr. b.
    Í yfirlýsingunni segir síðan í þriðja lið:
    ,,Eingreiðslur í almanna- og atvinnuleysistryggingum verða greiddar í samræmi við ákvæði um eingreiðslur í kjarasamningum.`` Ekki þarf að breyta lögum til þess að af þessu geti orðið nema að því leyti sem gildir um atvinnuleysistryggingar og fyrir því er séð í lagafrv. sem þegar hefur verið lagt fram og mælt verður fyrir síðar í kvöld.
    Í fjórða lagi segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Í framhaldi af viðamiklum aðgerðum til að draga úr skattsvikum verður enn gert átak til að fylgja eftir þeim árangri sem náðst hefur og efla skattrannsóknir. Þrjú frv. sem styrkja þetta átak eru nú til afgreiðslu á Alþingi og stefnt verður að afgreiðslu þeirra.``
    Það er vissulega, virðulegi forseti, ánægjulegt að verða þess áskynja í viðræðum við fulltrúa verkalýðsfélaganna þegar þeir lýsa yfir ánægju sinni með það hvernig staðið hefur verið að þessum málum á yfirstandandi kjörtímabili. Þau þrjú frv. sem þarna er verið að vísa til hafa þegar verið afgreidd úr nefnd og vonast er til að þau geti orðið að lögum annaðhvort síðar á þessum sólarhring eða þá á morgun, allavega áður en þingi er slitið.
    Í fimmta lið yfirlýsingarinnar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir afgreiðslu frv. til laga um breytingar á skattalögum þar sem m.a. er kveðið á um að reki vinnuveitandi hópferðabifreið til að flytja starfsmenn sína til og frá vinnu teljist hlunnindi starfsmanna af slíkum ferðum ekki til skattskyldra tekna.``
    Þetta er samsvarandi yfirlýsing og er að finna í 1. gr. frv. sem ég er nú að mæla fyrir.
    Í sjötta lið yfirlýsingarinnar er fjallað um skattmat á kostnaði vegna ferða og þar sagt frá því að því verði breytt eins og þar er lýst. Þetta er ekki lagaatriði heldur reglugerðar og hefur það þegar verið undirbúið þannig að heimilaður verður frádráttur vegna þeirra ferða sem farnar eru á vegum atvinnurekenda án tillits til fjölda ferðanna á ári, en þó þannig að hámark í hverri ferð verða 30 dagar. Í núgildandi skattmati er gert ráð fyrir að heildarfjöldi daganna sé 30.
    Í ellefta lið yfirlýsingarinnar er að finna stefnuatriði þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta, en þar er fjallað um húsnæðismál:
    ,,Stefnt verður að fjölgun greiðsludaga vegna vaxtabóta og að greiðslur þeirra gangi til greiðslu afborgana af lánum hjá Húsnæðisstofnun.``
    Þetta mál mun að sjálfsögðu verða skoðað og stefnt að því að koma því í framkvæmd í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Hér er um það að ræða að þeir sem skulda, eru í vanskilum hjá Húsnæðisstofnun, fá ekki útgreiddar vaxtabætur heldur gangi vaxtabæturnar til greiðslu á sannanlegum vanskilaskuldum hjá stofnuninni. Jafnframt verður kannað hvort hægt er að koma því við að vaxtabæturnar verði greiddar oftar en einu sinni á ári. Þetta verður til skoðunar en kemur ekki fram í því frv. sem ég mæli hér fyrir.
    Í 13. lið yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, sem hæstv. forsrh. skrifar undir, segir orðrétt:
    ,,Ríkisstjórnin mun í samráði við aðila vinnumarkaðarins undirbúa aðgerðir sem takmarki svonefnda gerviverktöku og tryggi réttindi launþega.``
    Hér eru á ferðinni tvö mál, virðulegi forseti, annars vegar það þegar vinnuveitandi nánast þvingar launþega til þess að gerast verktaki, en með þeim hætti sleppur hinn eiginlegi vinnuveitandi við að greiða staðgreiðslu skatts og aðrar greiðslur sem venjulega ganga til stéttarfélaga til að mynda. Réttindi verktaka eru oft minni og lakari heldur en launþega og nokkuð hefur borið á því að kvartað hefur verið til verkalýðsfélaganna og reyndar annarra þegar um slíka samninga er að ræða. Stundum eru þeir eðlilegir en í öðrum tilvikum óeðlilegir og er sjálfsagt að kanna það mál. Hins vegar er hér á ferðinni stærra vandamál sem lýtur að því að ýmsir setja á stofn verktakafyrirtæki, þetta eru aðallega undirverktakar, bjóða í verk, borga hvorki skatta né skyldur, fara á hausinn en láta stofna ný félög í nafni fjölskyldumeðlima, kunningja eða vina sem eru leppar, mynda hlutafélög, leika síðan sama leikinn, undirbjóða í verk og gera þannig öðrum fyrirtækjum sem hafa allt á hreinu erfitt fyrir í samkeppninni. Þetta eru mál sem hafa þýðingu bæði fyrir vinnuveitendur, launþegasamtökin og ríkið og þess vegna ber að taka á því máli.
    Í fimmtánda lagi í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sagt orðrétt:
    ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir afgreiðslu frv. til laga um breytingu á skattalögum þar sem m.a. er kveðið á um að sannanlega tapað hlutafé í félögum sem orðið hafa gjaldþrota skuli teljast til rekstrargjalda. Sama mun gilda um hlutafé sem tapast hefur vegna þess að það hefur verið fært niður í kjölfar nauðasamninga.``
    Á þessu atriði er tekið í frv. því sem ég mæli hér fyrir í 3. gr. a-lið.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér fjallað nokkuð um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til þess að sýna hvernig hún tengist því frv. sem hér er til umræðu og til þess að vísa til þeirra kafla í yfirlýsingunni eða liða í yfirlýsingunni sem snúa að fjmrn. sérstaklega. Aðrir ráðherrar munu mæla fyrir öðrum efnisatriðum sem koma fram í yfirlýsingunni síðar í kvöld þegar rædd verða frv. sem tengjast öðrum og mikilvægum atriðum yfirlýsingarinnar.
    Í 1. gr. I. kafla þessa frv. sem hér er til umræðu er fjallað um akstur á vinnustað utan vinnutíma. Þar er lagt til að hlunnindi manna sem fá endurgjaldslausar ferðir með hópferðabifreið á vegum vinnuveitanda teljist ekki til skattskyldra tekna. Með hópferðabifreið er átt við hópferðabifreið eins og hún er skilgreind í lögum um vörugjald af ökutækjum, þ.e. ökutæki sem tekur 10 eða fleiri í sæti, þar með töldum ökumanni. En sú villa er í greinargerð með 1. gr. frv. að sagt er að um sé að ræða bifreið fyrir 10 eða fleiri auk ökumanns. Með öðrum orðum þarna hefur slæðst inn villa og munar þar einum farþega, en það þarf að sjálfsögðu að vera skýr skilgreiningin á hugtakinu hópferðabifreið í lögum því stundum er vitnað til þess hugtaks. Þetta eiga að vera 10 að meðtöldum ökumanni.
    Það má spyrja hvers vegna er ekki allt gefið frjálst í þessum efnum og því er til að svara að þegar lögum var breytt 1988, þegar núgildandi skattalög voru sett, þá var meginþráðurinn, rauði þráðurinn, í þeirri breytingu að hverfa að mestu frá frádráttarliðum ýmiss konar. Þar á meðal var að kröfu verkalýðssamtakanna meðal annars gert ráð fyrir því að hlunnindi eins og þau að vera ekið á vinnustað á vegum vinnuveitanda væru skattskyld hlunnindi enda voru nokkur brögð að því að þau hlunnindi væru óeðlilega mikil og góð og kæmu í stað launa sem hjá öðrum launþegum eru skattskyld.
    Smám saman hefur komið í ljós að þessi harða ófrávíkjanlega regla getur komið sér illa, ekki síst þegar um það er að ræða að stækka atvinnusvæðið. Þá kemur það illa út að fólk sem þarf kannski að ferðast tugi kílómetra í bifreið á vegum viðkomandi fyrirtækis utan vinnutíma skuli þurfa að borga skatt af þeim hlunnindum þegar tekið er tillit til þess að fólki sem er ekið innan vinnutímans er á fullum launum þegar aksturinn á sér stað. Til eru dæmi um þetta og kannski er skýrasta dæmið það þegar starfsemi Flugleiða, þ.e. flugvirkja flugfélagsins, var flutt frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkurflugvallar, að þegar starfsemin var á Reykjavíkurflugvelli voru starfsmenn keyrðir í vinnutímanum til Keflavíkurflugvallar og þurftu ekki að borga neina skatta, voru á launum þegar þeim var ekið, þegar starfsemin var síðan flutt til Keflavíkurflugvallar og menn áttu að mæta þar í sinn vinnutíma á tilteknum tíma en var ekið þangað í sínum eigin tíma voru viðkomandi aðilar látnir greiða skatt af slíkum hlunnindum. ( Gripið fram í: Hvernig er þetta hjá ráðherrunum?) Vegna frammíkalls hv. þm. þykir mér afar mikilvægt að það komi fram að ráðherrar borga skatt af þeim hlunnindum að vera ekið á vinnustað frá heimilum sínum. Þetta er nýmæli sem núv. ríkisstjórn tók upp en hafði ekki gilt í fyrri ríkisstjórn, þar á meðal þeirri ríkisstjórn sem hv. þm. studdi á sínum tíma. Mér er því mikið ánægjuefni, virðulegi forseti, að fá tækifæri til þess vegna frammíkalls hv. þm. að taka þetta sérstaklega fram í minni ræðu.
    Í 2. gr. er fjallað um stærsta málið, kannski það mál sem vegur hvað mest og það er að þar er lagt til að launþegar megi draga frá skattskyldum tekjum sínum iðgjald í lífeyrissjóði sem starfa samkvæmt lögum eða hlotið hafa staðfestingu fjmrn. Almennt er það fyrirkomulag á iðgjaldagreiðslum í lífeyrissjóði að iðgjaldið er tvískipt. Annars vegar greiðir launþeginn iðgjald sem dregið er af launum hans og hins vegar leggur vinnuveitandinn fram mótframlag sem ekki er dregið af launum starfsmannsins. Í þessari grein er lagt til að launþeginn geti dregið frá iðgjald það sem dregið er af launum hans að hámarki 4% af heildarlaunum. Sams konar ákvæði er í b-lið 3. gr., að því er varðar launþegahluta iðgjalds manns sem vinnur við eigin atvinnurekstur.
    Virðulegi forseti. Óþarfi er að fjölyrða um þetta mál, það þekkja flestir. Sumir telja að um tvísköttun lífeyrisgreiðslna sé að ræða hvað þetta snertir. Á það fellst ég ekki. Hér er um það að ræða að heimila frádrátt og hefur í raun og veru ekki með tvísköttun að gera. Það skiptir í sjálfu sér kannski ekki öllu máli, aðalatriðið er að það kom sterk eindregin krafa fram af hálfu aðila vinnumarkaðarins um það að horfið væri að því ráði sem hér er lýst í þessu frv. Þeim var á fundi með ríkisstjórninni gerð grein fyrir því að slík útgjöld sem af þessu hlyti að stafa, eða öllu fremur tekjutap sem af þessu stafaði, hlyti að vera mætt annaðhvort með niðurskurði eða auknum tekjum öðrum. Það háttar þannig til með útgjöld ríkisins að þar er oft um viðkvæm útgjöld að ræða, útgjöld sem snerta þá sem búa í strjálum byggðum eða þurfa að njóta greiðslna úr ríkissjóði í gegnum almannatryggingakerfið og síðan fjárfestingar og laun opinberra starfsmanna. Menn verða þess vegna að átta sig á því að tekjutap á borð við þetta getur ríkissjóður ekki borið nema á móti komi einhverjar nýjar tekjur eða niðurskurður á þessum útgjöldum sem ég nú lýsti. Það er ekki nóg að bíða eftir því að veltubreytingar auki tekjur ríkissjóðs, sem þær sannarlega gera, því ríkissjóður er nú þegar rekinn með umtalsverðum halla þótt hitt sé rétt að okkur hafi tekist hér á landi að hafa hallann minni en í flestum nálægum löndum sem hafa átt við ýmsa erfiðleika að etja á undanförnum árum.
    Þetta vil ég að komi skýrt fram vegna þess að það væri ekki ábyrgt af ríkisstjórninni að láta þessar tekjur eftir nema gera ljóst að næsta ríkisstjórn þurfi að sjálfsögðu á næstu árum, á samningstímabilinu, að grípa til viðeigandi aðgerða. Með þessari yfirlýsingu eru stjórnarflokkarnir að segja það að þeir séu tilbúnir fyrir sitt leyti verði þeir í ríkisstjórn, annar hvor eða báðir, að grípa til viðeigandi aðgerða til að stefna ríkisfjármálum ekki í hættu. Þetta vil ég taka skýrt fram af þessu tilefni.
    Í 3. gr. er fjallað um það að draga megi sannanlegt tap af hlutafé frá tekjum í reikningum félaga þegar um er að ræða skattgreiðslur. Það er sem sagt heimilt að draga þetta hlutafé frá en það hefur ekki verið heimilt hingað til. Það er von ríkisstjórnarinnar og þeirra sem um þetta mál fjölluðu að þessi grein leiði til þess að fyrirtækin hér á landi séu frekar tilbúin til þess en hingað til að leggja áhættufé í annan rekstur, skyldan eða óskyldan.
    Í 4. gr. eru gildistökuákvæði. Í 5. gr. eru bráðabirgðaákvæði þar sem lýst er nákvæmlega hvernig skiptingin er á milli tímabila varðandi frádrátt lífeyrisiðgjaldagreiðslna og sama gildir um I. og II. lið.
    Í II. kafla eru gerðar samsvarandi breytingar sem leiða af breytingum á tekjuskattslögunum á lögunum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
    Virðulegi forseti. Ég hygg að óþarfi sé að fara mörgum fleiri orðum um þetta frv. Um það og efnisatriði þess hefur mikið verið fjallað á undanförnum dögum. Málið er kunnugt öllum hv. þm. sem fengið hafa í hendur yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Um málið hefur verið fjallað í blöðum og öðrum fjölmiðlum og atriðin eru tiltölulega einföld. Það kann að vera í einstökum smáatriðum einhver missmíð á frv. sem ég held þó að sé ekki stórvægileg en sé svo þá veit ég að hv. nefnd sem fær málið til meðferðar og umfjöllunar mun sníða þá agnúa af enda er mér kunnugt um að nefndin hafi skenkt þessu máli nokkurn þanka því a.m.k. tvö efnisatriði frv. voru til umræðu af sérstökum ástæðum í nefndinni fyrir nokkrum vikum síðan.
    Að svo mæltu, virðulegi forseti, legg ég til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.