Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 22:05:03 (4851)


[22:05]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur haft þann hátt á að koma hingað og ráðast á ríkisstjórnina fyrir aðgerðir sem hún hefur sjálf tekið þátt í. Hún hefur jafnan þann hátt á að rekja feril hennar og skammast síðan út í hana fyrir aðgerðir sem hún hefur sjálf greitt atkvæði með og jafnvel stundum haft frumkvæði að. Það er nauðsynlegt að þessi hv. þm. svari ákveðnum spurningum. Til að mynda hefur hv. þm. komið hingað upp í kvöld og vakið athygli á því að kynbundinn launamunur hafi aukist. Hv. þm. vakti sérstaklega athygli á því að það hefði gerst í opinbera geiranum. Mig langar til að spyrja hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur: Hvað gerði hún til að draga úr kynbundnum launamun í opinbera geiranum á meðan hún var jafnréttismálaráðherra í átta ár? ( Gripið fram í: Heyr, heyr.)