Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 22:10:09 (4855)


[22:10]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum o.s.frv. Þetta frv. er hluti af því sem þarf að afgreiða á þeim örstutta tíma sem eftir lifir þings vegna þeirra kjarasamninga sem gerðir voru fyrir örfáum dögum. --- Mér þykir vera órói á ráðherrabekknum.
    Þetta frv. felur í sér ýmislegt gott þó að ég hafi líka athugasemdir við það að gera hvernig að þessu hefur verið staðið og hvernig þessi atriði tengjast ýmsu sem við vorum að vinna að í hv. efh.- og viðskn. fyrir jólin, svo sem því sem kallað hefur verið tvísköttun á lífeyrisgreiðslur.
    Í tengslum við þetta mál er auðvitað nauðsynlegt að ræða yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 20. febr. sl. og stöðu launamála í landinu. Það er auðvitað ánægjulegt að kjarasamningar skuli hafa náðst og ég held að við hljótum að vera sammála um það þingmenn sem erum að fara aftur í framboð og eigum fram undan kosningabaráttu að það hefði verið býsna óþægilegt að standa í henni með allt logandi í vinnudeilum og verkföllum þannig að það er vissulega ástæða til þess að lýsa yfir ánægju yfir því að samningar skuli hafa tekist. En það er ekki þar með sagt að við kvennalistakonur séum ánægðar með þær áherslur sem fram komu í þessum samningum því hér er allt við það sama. Það er nokkuð óbreytt ástand og alls ekki tekið á þeim málum sem helst brenna á launafólki og almenningi öllum. Þá mundi ég nefna fyrst stöðu barnafjölskyldna sem hafa orðið að bera mjög svo auknar álögur á þessu kjörtímabili og svo það sem var verið að tala um rétt áðan, þann mikla og óréttláta launamun sem hér er á milli kynjanna og sem mjög brýnt er að taka á á næstu árum. Ég hefði viljað sjá slíkar áherslur í þessum kjarasamningum, en þess er kannski ekki að vænta meðan sama forustan er við völd, bæði hjá vinnuveitendum og Alþýðusambandinu, að það verði miklar áherslubreytingar. Því miður eru afar fáar konur meðal þeirra sem standa að kjarasamningum enda eru allar áherslur lýsandi fyrir það að það eru fyrst og fremst karlmenn sem þar koma að og því miður er þeirra hugsunarháttur þannig að þeir virðast ekki hafa áttað sig á því að konur eru tæplega helmingur af þeim sem eru á vinnumarkaði. --- Hæstv. forseti . . .


    ( Forseti (PJ) : Hér skal aðeins fara fram einn fundur í senn. Ég bið hæstv. ráðherra og hv. þm. að taka tillit til þess.)
    ( Gripið fram í: Ríkisstjórnina bara.) Ég vil benda hv. þm. á að ráðherrar sitja hér og fylgjast með umræðum og það á ekki að vera að trufla þá. (Gripið fram í.) Það á ekki að gerast í þingsal. Það er lágmark að umræður geti farið hér fram með eðlilegum hætti.
    Það sem hefði þurft að gerast í þessum kjarasamningum sem við stöndum frammi fyrir er fyrst og fremst það að það þarf að fara fram uppstokkun á launakerfinu, hvort sem litið er út á almennan vinnumarkað eða hjá ríkinu. Það þarf að stokka upp launakerfið, það þarf að gera það gagnsærra. Það þarf að vera ljóst fyrir hvað er verið að borga og það þarf að hækka grunntaxtana. Það þarf að afnema þetta sérkennilega launakerfi sem hér viðgengst þar sem menn ná upp tekjum sínum með yfirvinnu eða óunninni yfirvinnu eða greiðslum af ýmsu tagi sem skiptast mjög misjafnlega milli fólks. Það þarf að framkvæma nýtt starfsmat, bæði úti á almennum vinnumarkaði og þó sérstaklega hjá ríkinu, til þess einmitt að reyna að taka á þeim mismun á launum karla og kvenna sem ég hef gert hér sérstaklega að umtalsefni. Slíkt starfsmat hefur farið fram í ýmsum ríkjum heims. Ég nefni sérstaklega Kanada, Norðurlöndin og í ýmsum fylkjum Bandaríkjanna hafa verið gerðar tilraunir til starfsmats. Ég veit það t.d. frá Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, að þar fór fram ókynbundið starfsmat meðal ríkisstarfsmanna sem skilaði konum verulegri tekjuaukningu og slíkt starfsmat þarf að fara fram hér.
    Þá er líka nauðsynlegt að skoða sérstaklega stöðu barnafjölskyldna sem við vitum að hafa á þessu kjörtímabili orðið fyrir lækkun barnabóta. Þær hafa orðið fyrir skattahækkunum þessarar ríkisstjórnar. Þær hafa orðið að taka á sig skólagjöld, hærri sjúkrakostnað, o.s.frv. og allt þetta sem við höfum verið að slást hér við allt þetta kjörtímabil. Ég hygg að þeir hópar sem standa verst í samfélaginu séu einmitt fjölskyldur með lítil börn, sérstaklega með lítil börn. Reyndar er afar dýrt að eiga unglinga, þeir eru dýrir í rekstri, ef svo má að orði komast, en staða barnafjölskyldna hér á landi er allsendis óviðunandi.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er komið inn á húsnæðismál, en það er vægast sagt óljóst hvað þar er verið að tala um.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram hafa komið og ég vitna þar í viðtal við hæstv. forsrh., þá kosta þessar aðgerðir sem ríkisstjórnin ætlar að leggja út í 6,5 milljarða kr. á öllu samningstímabilinu eða til ársloka 1997 --- 6,5 milljarða kr. Við hljótum að spyrja: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að ná þessum peningum til baka? Hvernig á að ná í þessa peninga?
    Það er haft eftir hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í blöðunum og reyndar hefur hæstv. utanrrh. líka komist svo að orði, að það væru 10 milljarðar til ráðstöfunar og mér þætti fróðlegt að vita hvaðan þeir 10 milljarðar koma því að ríkissjóður er rekinn með allt að 10 milljarða kr. halla á ári hverju. Það er auðvitað ekki skynsamlegt að reikna sér efnahagsbata upp á allt að 10 milljarða og segja sem svo að þeir peningar séu til ráðstöfunar eða hvaðan sem þessi tala er komin. Ég vildi gjarnan fá skýringu hjá hv. þm. hvernig hún kemst að þessu miðað við þann mikla halla sem hér er á ríkissjóði.
    Þær spurningar vakna auðvitað hvar á að ná í þessa peninga til þess að mæta þessum miklu útgjöldum sem ríkissjóður ætlar að leggja út í. Þar með er ég ekki að gagnrýna þær aðgerðir sérstaklega. Þó að það megi segja sem svo að aðilar vinnumarkaðarins hafi á undanförnum árum í sínum samningum tíðkað það að senda reikninginn fyrst og fremst til ríkisstjórnarinnar og vinnumarkaðurinn hafi tekið ákaflega lítið á sig á undanförnum árum, þá er svo komið að ríkisstjórnin hefur gengið það nærri launafólki á þessu kjörtímabili að það má segja að það sé auðvitað réttlátt að einhverju sé skilað til þeirra aftur. En hallinn á ríkissjóði og staða ríkisfjármálanna, erlendar skuldir ríkissjóðs, eru áhyggjuefni og það væri fróðlegt að fá svar við því hjá hæstv. fjmrh. með hvers konar álögum eða hvers konar aðgerðum eigi að ná þessum peningum til baka. Og eins og kemur fram í umfjöllunum um þessa kjarasamninga þá er þetta óútfylltur tékki eða reikningur sem sendur verður næstu ríkisstjórn, hverjir sem hana skipa.
    Það er líka merkilegt að við það að skoða yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sjáum við, sem höfum fjallað um slíkar yfirlýsingar aftur og aftur á þessu kjörtímabili, ýmsa gamla kunningja í þessum plöggum og eins og einhver komst að orði þá er ríkisstjórnin alltaf að selja aðilum vinnumarkaðarins sömu aðgerðirnar aftur og aftur. Því er lofað ár eftir ár að taka á skattsvikum og því er lofað að liðka eitthvað fyrir varðandi atvinnusköpun o.s.frv. Það eru í þessu ýmis atriði sem ríkisstjórnin telur sig geta lofað aftur og aftur en maður spyr auðvitað: Hvað um efndirnar? Hverjar eru efndirnar t.d. þegar litið er á skattsvikin?
    Hér er líka að finna atriði sem voru til umræðu í hv. efh.- og viðskn. fyrir jól. Meðan verið var að ræða þar breytingar á tekjuskatts- og eignarskattslögunum þá kom fram einmitt þessi gagnrýni á það hvernig akstur á vinnustað væri skattlagður og rekstur á hópferðabifreiðum til að flytja starfsmenn. Þetta var rætt og það gafst hreinlega ekki tími til þess að vinna þessi mál og virtist reyndar sem ríkisstjórnarflokkarnir væru ekki tilbúnir til þess en þetta var tekið upp í kjarasamningunum núna. Það var sérstaklega Vinnuveitendasambandið sem benti á þessi atriði og þau eru hér komin og ég held að það sé ekki annað en hægt að fagna því.
    En eins og hér hefur verið bent á þá eru líka ýmis sérkennileg atriði í þessu frv. eins og það að ríkisstjórnin ætli að beita sér fyrir því að frv. um framhaldsskóla verði afgreitt á Alþingi. Þetta er afar sérkennileg yfirlýsing, en ég hygg að á bak við hana sé áhugi samtaka á vinnumarkaði, hvort sem eru vinnuveitendur eða samtök launþega, á því að það verði tekið á starfsmenntun og verkmenntun í landinu. Þar hefur Alþýðusambandið á undanförnum mánuðum verið að kynna sínar tillögur, sem vissulega eru góðra gjalda verðar, en það er nú svo að ég get upplýst það hér, vegna þess að um það var spurt, að vinna við framhaldsskólafrv. er afar skammt á veg komin í hv. menntmn. Hún hefur varla hafist. Það hefur farið gríðarlegur tími í grunnskólafrv. sem reyndar er ekki fullunnið að mínum dómi. Þannig að það eru auðvitað

engar líkur á því að frv. um framhaldsskóla verði afgreitt á þessu þingi og mundi líklega mæta miklum mótmælum vegna þess að samtök kennara hafa miklar athugasemdir við það frv. að gera rétt eins og grunnskólafrv. Þannig að þetta er sérkennileg yfirlýsing hér og við höfum reyndar spurt hæstv. menntmrh. um það hvað þetta þýði og ég veit ekki hvort hann var að vonast til þess að frv. yrði afgreitt, en það má ljóst verða að það verður ekki.
    Ég nefndi húsnæðismálin áðan og mér þykir þetta vera þunnur þrettándi sem hér kemur fram. Það á að kanna umfang vanskila og eðli greiðsluerfiðleika heimilanna á næstunni. Það kom út í fyrra, á síðasta þingi, viðamikil skýrsla frá félmrn. um skuldir heimilanna þar sem var að finna nákvæma greiningu á þeim skuldum, þannig að ég veit ekki hvað þarf að fara út í ítarlegar rannsóknir á því máli þegar þær staðreyndir liggja fyrir. En það er verið að kaupa sér ákveðinn frest með þessum rannsóknum að því er ég hygg.
    Aðrar þær breytingar sem hér eru tíundaðar í húsnæðismálum eru þegar komnar fram í frumvörpum ríkisstjórnarinnar sem væntanlega ná afgreiðslu á næstu dögum, eins og um það að verkalýðshreyfingin eigi áfram fulltrúa í húsnæðisnefndum sveitarfélaga og um afskriftir í félagslega húsnæðiskerfinu sem verði lækkaðar í 1%.
    Það sem vekur sérstaka athygli mína varðandi þessa yfirlýsingu er það sem snýr að atvinnuleysinu í landinu og það vekur furðu mína að samningsaðilar og þá sérstaklega verkalýðshreyfingin skuli ekki hafa lagt meiri áherslu á aðgerðir gegn atvinnuleysi en kemur fram í þessum samningum og þessari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það segir aðeins í 12. lið, með leyfi forseta:
    ,,Unnið verður að úrbótum í málum fólks í atvinnuleit með virkum aðgerðum á sviði verkmenntunar og starfsþjálfunar. Á þessu ári verður 15 millj. kr. viðbótarframlagi ráðstafað sérstaklega til þessara mála.``
    Þetta er auðvitað góðra gjalda vert, en miðað við þær tölur sem við höfum um atvinnuleysi frá janúarmánuði og miðað við þá spá sem liggur fyrir um atvinnuleysi á þessu ári þá undrast ég að það skuli ekki hafa verið samið um aðgerðir til þess að draga úr atvinnuleysi. Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh. hvort þau mál hafi ekki borið á góma í viðræðum aðila vinnumarkaðarins við ríkisvaldið og hvernig á því stendur að hér skuli ekki vera að finna fyrirheit um aðgerðir til þess að taka á atvinnuleysisvandanum sem er eitt stærsta vandamál sem við stöndum frammi fyrir hér á landi og við sjáum að atvinnuleysi er því miður orðið viðvarandi. Það er í 4, 5 og upp í 6% hér ár eftir ár, sveiflast svolítið til frá mánuði til mánaðar.
    Tíma mínum er nú alveg að ljúka, hæstv. forseti, en mig langar aðeins til að koma inn á þá umræðu sem fór fram áðan og snerti jafnrétti kynjanna. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gert nokkuð af því undanfarna daga að rifja upp aðgerðir sínar í jafnréttismálum á þeim sjö árum sem hún sat sem ráðherra jafnréttismála og ekki skal ég neita því að eitt og annað hefur hún gert. En við hljótum auðvitað að spyrja um efndir og það hvernig hlutirnir eru framkvæmdir. Hún nefndi framkvæmdaáætlun um jafnrétti til fjögurra ára, sem vissulega var samþykkt og hefur verið samþykkt í tvígang --- en hvað um efndirnar? Hvernig hefur þessu verið fylgt eftir? Hvernig fylgdi hún þessum áætlunum eftir í sinni tíð sem ráðherra? Hvað um jafnréttislögin? Það er til lítils að setja jafnréttislög og endurskoða jafnréttislög ár eftir ár ef þeim er ekki framfylgt. Það er einmitt megingallinn. Við erum sýknt og heilagt að setja lög á hinu háa Alþingi en þeim er bara ekki framfylgt. Eins og ég rakti í ræðu minni í gærkvöldi þá er nú eins og þessi blessuð jafnréttislög komi vinnumarkaðinum ekkert við. Ríkisstjórnin og báðir stjórnarflokkarnir og öll ráðuneyti standa að jafnréttisáætlunum fyrir sín valdsvið og sínar stofnanir og þeim er ekkert fylgt eftir. Þessu þarf auðvitað að breyta. Það þarf fyrst og fremst að breyta hugarfarinu og því hvernig menn nálgast þessi mál og styrkja jafnréttislögin á þann veg að mönnum sé hreinlega refsað fyrir að brjóta þau, að það verði tekið miklu harðar á því. Ég get nefnt sem dæmi að í Bandaríkjunum, þar sem hafa verið samþykktar slíkar áætlanir og atvinnumálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur með þau mál að gera á vinnumarkaði, þar er sérstakur starfsmaður í því að heimsækja fyrirtæki til þess að fylgjast með því hvernig lögum er framfylgt. Þeir eru látnir standa fyrir máli sínu og gera grein fyrir stöðu kynjanna innan fyrirtækjanna og þeir eiga yfir höfði sér lögsókn ef þeir ekki standa við þau lög sem gilda í landinu. En hér komast menn sífellt upp með lagabrot og jafnréttislögin eru því miður ekki nægur styrkur, en vonandi gerist það að það stjórnarskrárfrv. sem við vorum að ræða í dag verði til þess að styrkja stöðu kvenna hvað þetta varðar þannig að þær geti frekar leitað réttar síns.
    Hæstv. forseti. Þetta frv. sem við erum hér að ræða og tengist reyndar ýmsum öðrum málum eins og hér hefur komið fram, verður auðvitað að komast í gegn á næstu dögum og ég sem fulltrúi í hv. efh.- og viðskn. mun að sjálfsögðu leggja mitt af mörkum til þess að svo verði.