Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 22:59:14 (4861)


[22:59]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi taka það fram að það hefur komið fram í fréttum af hálfu Þjóðhagsstofnunar að þær tölur sem Alþjóðavinnumálastofnunin miðar við eru gamlar og úreltar tölur og það hélt ég að hv. þm. vissi.
    Í öðru lagi er nauðsynlegt að það sé rifjað upp nú, ekki síst vegna þess að það er gefinn kostur á því, að hér stóðu hv. þm. Alþb. fyrir jólin og sögðu: Nú verður vaxtasprenging og gengisfelling. Þetta voru þeirra orð fyrir jól, en hver er niðurstaðan? Niðurstaðan er sú að þessir kjarasamningar hafa orðið til þess að vextir hafa lækkað, um 20--40 punkta hafa vextir verið að lækka að undanförnu. Og það er rangt að það hafi gerst með Seðlabankann sem hv. þm. var að lýsa, því það hefur þvert á móti gerst á undanförnum dögum að Seðlabankinn hefur verið að losa sig við ríkisverðbréfin. Ég harma það að hv. þm. skuli ekki fylgjast betur með en hann gerir ef það á að taka mark á orðum hans hér í kvöld. ( ÓRG: Hver er þá . . .  ) Það er nefnilega þannig að í húsnæðismálunum (Gripið fram í.) --- Ef hv. þm. getur setið á sér . . .   Hvers konar ójafnvægi er þetta hjá fyrrv. ráðherra? --- Hef ég orðið eða hann?
    ( Forseti (PJ) : Hæstv. ráðherra er í andsvari og er að svara hv. 4. þm. Norðurl. e.)
    Það heyrist hér, virðulegi forseti, hvað hv. þm. á bágt með það að hlusta á sannleikann um sjálfan sig. Það er athyglisvert hvernig hv. þm. lætur þegar það er sagt hér að það var allt bull og vitleysa sem hann sagði í þessum málum fyrir jól. Og nú hefur það gerst að vextirnir hafa lækkað og það kemur þeim vel líka sem eru að byggja, það kemur mönnum vel sem standa í húsnæðismálum.
    Og að lokum þetta: Það fyrirtæki sem metur lánshæfni Íslendinga, sem er Moody's Investor's Service, hefur sagt: Íslendingar hafa jafngóða lánshæfni og áður vegna þess og vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, af því að þeir hafa trú á aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Og nú hefur það komið í ljós að samningarnir sem gerðir hafa verið eru þess eðlis að þeir eru forsenda áframhaldandi stöðugleika. Það er sorglegt að horfa upp á stjórnarandstæðinga eins og hv. þm. að hann getur ekki tekið því og tekur því svona illa þess vegna.