Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 00:33:59 (4870)


[00:33]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nú ekki svo að megintilgangurinn hafi verið að vekja athygli með þessari umræðu á frv. okkar framsóknarmanna um greiðsluaðlögun, síður en svo. Ég var hins vegar fyrst og fremst í þessari umræðu að vekja athygli á því hversu innihaldsrýr þessi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar er og hvers megi vænta ef reynslan af fyrri yfirlýsingum og efndum á yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar er höfð í huga fyrir verkalýðshreyfinguna.
    Að hverjum þessar fyrirspurnir snúa, hæstv. félmrh., þá er það alveg ljóst að þær snúa að hæstv. ríkisstjórn og ég vænti þess að hæstv. félmrh. sé hluti af ríkisstjórninni. Þær snúa að þeim aðilum m.a., hæstv. félmrh., sem hvað eftir annað hafa lýst því hér yfir við umræðu um greiðsluerfiðleika heimilanna að það sé að vænta aðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það sé verið að skoða frv. um greiðsluaðlögun. Þetta sé allt saman að koma. Nú eru kannski ekki nema þrír sólarhringar þar til að þingi lýkur. Og hvað hefur gerst? Það hefur ekkert annað gerst en Seðlabankinn á að skoða hlutina, skoða hluti sem liggja alveg ljósir fyrir. Háskólinn á að skoða hluti sem liggja líka alveg ljósir fyrir.
    Það er engin blekking, hæstv. félmrh., að halda því fram að vextirnir í félagslega eignaríbúðalánakerfinu hafi hækkað um 140%. Þegar þessir einstaklingar gerðu sínar áætlanir um að standa í skilum og geta staðið undir þeirri greiðslubyrði sem af þeim lánum hlytist sem þeir voru að takast á herðar var gert ráð fyrir 140% lægri vöxtum og vaxtabótum auðvitað, hæstv. félmrh. Síðan eru vextirnir hækkaðir og það voru allar áætlanir þessa fólks settar úr skorðum. Það þarf engan stóran hagspeking til að sjá að slíkt muni gerast.