Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:00:59 (4874)


[01:00]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson nefndi að hann hefði ekki verið mjög hreykinn af því 1986 að hafa staðið að því að samþykkja lög um lækkun á aðflutningsgjöldum af bifreiðum og ekki áttað sig á hvernig það hefði komið við láglaunafólk. Ég vil hins vegar leyfa mér að fullyrða að sú hækkun og miðað við stighækkandi skatta á bifreiðar hafi þó komið miklu betur við láglaunafólk en sú aðgerð sem nú er ákveðin um að launafólk fái að draga lífeyrisgreiðslur sínar frá tekjum áður en staðgreiðsla skatta er reiknuð.

    Nú er ég ekki að gera lítið úr því prinsippi að tvískatta ekki lífeyri. En ég bendi á að sá sem er með 50 þús. kr. í tekjur fer að draga af þegar þetta er að fullu komið til 2.000 kr. áður en skatturinn er reiknaður út. Forstjórinn sem er með 500.000 kr. fær að draga 20.000 kr. og til viðbótar við þetta fær sá sem er með 50.000 kr. engan skattafrádrátt því að í forgjöf var hann undir skattleysismörkum, hann greiddi engan skatt. Hann hefur samkvæmt þessum útreikningi núll kr. út úr þessu en reiknum með að forstjórinn sé með 50% skatthlutfall og hann hefur þá 10.000 kr. hreint í vasann. Í heild kostar þetta ríkissjóð 2,2 milljarða á ári. Meira en það. Ríkisstjórnin sagði: Við ætlum að taka þetta allt til baka í hækkuðum sköttum eða lækkuðum kostnaði og ég leyfi mér að fullyrða að þeir taka þetta ekki til baka í sömu hlutföllum þannig að 500 þús. kr. maðurinn skili sínum 20 þúsund kr. Burt séð frá prinsippinu um að það eigi ekki að skattleggja lífeyrissjóð og lífeyrisgreiðslur er um að ræða mestu aðgerð af hálfu ríkisins til kjaraójöfnuðar sem hefur gerst um langt árabil.