Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:11:10 (4881)


[01:11]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það má gera ráð fyrir því að kostnaðurinn á yfirstandandi ári vegna þessarar yfirlýsingar sé um 1.850 millj. en það skiptist þannig að vegna lífeyrissjóðsgreiðslnanna séu það 800 eingreiðslur, sem eru nefndar í yfirlýsingunni, kosta um það bil 500. Það á reikna með að atvinnuleysistryggingarnar kosti um 50, húsnæðismálin 200 og það sem eftir stendur um það bil 300 millj. kr. án þess að það sé frekar sundurgreint.
    Ég vil að það komi skýrt fram hér að 1. og 2. liðurinn í yfirlýsingunni verði aðalkröfur verkalýðssamtakanna og það má lesa í kröfugerð þeirra sem hefur birst, þ.e. vísitalan og hækkun skattleysismarka með þessum hætti sem þarna er gert. Það var spurt um hvaða áhrif vísitölubreytingin hefði á ríkissjóð. Það er með tvennum hætti. Það eru útistandandi verðbréf og hins vegar ýmsar viðmiðanir, einkum í skattalögum og má reikna með því að meðan laun batna og verðlag vex minna hafi það hagstæð áhrif á ríkissjóð þannig að það mundi vera ríkissjóði til tekna því að ríkissjóður er skuldari fyrst og fremst.
    Það skal tekið fram að 4. liðurinn um hert skatteftirlit er krafa ASÍ, liður 2 e, og þetta um jöfnun húshitunarkostnaðar er líka krafa ASÍ. Liður 3, og það er ekki rétt að segja að í fjárlögum sé skylt að gera þetta, heldur var í 6. gr. fjárlaga heimild og hún var skilyrt í fjárlögunum við það að peningar kæmu frá orkufyrirtækjunum. Svona má áfram telja og ég held að það verði sagt um þessa yfirlýsingu að hún er í takt við það sem um var beðið. Hún var samþykkt af verkalýðsforustunni og ég held að ríkisstjórn og verkalýðsforusta hafi gert sér far um það að komast að niðurstöðu sem gæti tryggt stöðugleikann og ég get ímyndað mér að þegar nettó er litið á niðurstöðuna fyrir ríkissjóð, tekið tillit til veltubreytinga og þess háttar, gæti niðurstaðan verið sú að ríkissjóður tapaði eða yki hallann um 6 milljarða eða þar um bil, minna ef eitthvað er.