Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:13:31 (4882)


[01:13]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til þess að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi svör, ég hef ekki heyrt

áður að það sé mat fjmrn. að kostnaðurinn af þessum aðgerðum á árinu 1995 sé nettó jafnvel innan við milljarður kr. Mér finnst það satt að segja fjarska fróðlegt að heyra það. Þar af eru t.d. eingreiðslurnar sem menn reiknuðu með að þurfa að greiða upp á um það bil 500 millj. kr. og þar af er auðvitað húshitunarhækkunin upp á 50 millj. kr. Þó að það væri á heimildargrein reiknuðu allir með því að það þyrfti að borga. Þegar þessi atriði eru tínd saman og e.t.v. einhver fleiri er kannski hægt að halda því fram að nettóaukningin hjá ríkissjóði vegna þessara aðgerða og yfirlýsingar sé kannski þó nokkuð innan við hálfur milljarður króna. Það er allt annað heldur en það sem menn hafa látið í veðri vaka og ég held að það hljóti að koma ýmsum á óvart sem hafa viljað fjalla um þessi mál undanfarna daga ef nettóáhrifin af þessum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar á ríkissjóð á þessu ári eru um eða innan við 500 millj. kr. vegna þess að ég tel ekki eingreiðslurnar sem sérstök tíðindi af því að það var alltaf reiknað með því að eingreiðslurnar kæmu og það var alltaf reiknað með því að eitthvað af þessum húshitunargreiðslum kæmu. Því er ekki hægt að líta þannig á að um sé að ræða veruleg ný viðbótarútgjöld fyrir ríkissjóð þegar allt kemur til alls. Ég geri líka ráð fyrir því t.d. að menn hafi að undanförnu gert sér grein fyrir því að einhver hluti af þessum kostnaði í húsnæðismálum eða jafnvel allur gæti komið til svo að segja hvort eð var. Upplýsingar hæstv. fjmrh. voru afskaplega fróðlegar og ég þakka honum fyrir þær.