Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:15:36 (4883)


[01:15]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. spurði áðan um hvers vegna liður nr. 16 væri inni og það skal tekið fram að liður nr. 16 kom frá Vinnuveitendasambandinu og Vinnumálasambandinu og snýst um það að þeir vilja gera mun á fyrirtækjum sem eru innan þessara sambanda og utan. Þeir telja að ýmis fyrirtæki sem vilja ekki vera þátttakendur í þessum samtökum standi illa og of miklir peningar úr Ábyrgðasjóði launa fari til slíkra fyrirtækja.
    En það er athyglisvert, virðulegi forseti, að hlusta á hv. þm. telja saman hver útgjöldin eru eftir mína ræðu og hlusta síðan á hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, formann Alþb., í hverri ræðunni á fætur annarri klifa á einhverjum 4 milljörðum kr. Þegar hv. þm. Svavar Gestsson kemur hingað upp og segir að líklega sé þetta ekki nema um það bil 500 millj. á næsta eða þessu ári, en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson talar aldrei um þessa kjarasamninga né þessa yfirlýsingu án þess að nefna 4 milljarða. Nú er spurningin: Hvor skyldi hafa réttara fyrir sér, félagi Svavar, hv. þm., eða Ólafur Ragnar, formaður Alþb.