Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:16:58 (4884)


[01:16]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Óttalega leggst nú lítið fyrir fjmrh. sem er alveg ágætur í reikningi og hefur kennt einum manni hér inni meira að segja reikning sem er einn besti reikningsmaður hússins og ber kennsluhæfileikum fjmrh. gott vitni.
    Af hverju er hæstv. ráðherra að stilla þessu upp svona? Það sem ég var hér að fara yfir var nettóáhrif á ríkissjóð gjalda- og teknamegin þegar það er vegið saman inn í fjárlögin árið 1995. Það sem hv. 8. þm. Reykn. hefur verið að fara yfir ef ég kann það rétt eru fyrst og fremst heildarútgjöldin sem lofað er að komi til útborgunar á samningstímanum. Hæstv. fjmrh. reynir að setja þetta upp eins og einhverjar óskaplegar andstæður, hvor hefur rétt fyrir sér og hvor hefur rangt fyrir sér. Málið liggur ekki svona. Það vill svo til í þessu tilviki eins og yfirleitt í mínum góða flokki að báðir þessir sómamenn hafa rétt fyrir sér.