Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:36:51 (4889)


[01:36]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. spurðist fyrir um það hvað það merkti sem stendur í 2. lið yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Þegar sú setning er höfð í huga og er skýrð þá þarf að rifja það upp að samningarnir voru gerðir í nokkurri tímaþröng því að þeir sem að þeim stóðu vissu að þinglausnir yrðu í lok þessarar viku. Það var þess vegna ekki hægt að ætlast til þess að þessi ríkisstjórn sem nú situr, rétt fyrir kosningar, efndi til mikils niðurskurðar eða tekjubreytinga, en til þess að hafa það alveg á hreinu gagnvart þeim sem sömdu í almennu kjarasamningunum var sagt mjög skýrt og greinilega frá því að þessar miklu skattabreytingar hlytu auðvitað að kalla á breytingar í ríkisfjármálunum. Og til þess að hafa það á hreinu gagnvart næstu ríkisstjórn, hver sem hún verður, þá var þetta sett inn í 2. lið og ég tel að það sé til mikillar fyrirmyndar. Þá getur næsta ríkisstjórn, hvort sem það verður ríkisstjórn þessara tveggja flokka sem nú sitja í ríkisstjórn, annars þeirra eða beggja eða hvaða flokkur sem kemur til með að sitja í ríkisstjórn, gengið að því sem vísu að þeim var það ljóst sem að samningunum stóðu að til slíkra ráðstafana yrðum við að grípa ef við ætlum að ná niður halla ríkissjóðs. En það er ekki hægt að ætlast til þess að núv. ríkisstjórn, á þeim örstutta tíma sem er til stefnu, komi fram með útfærðar tillögur í þessum efnum, enda þarf að líta til fleiri ára en ársins í ár þegar slíkar ákvarðanir eru teknar. En ég get lýst því yfir að Sjálfstfl. mun að sjálfsögðu, verði hann í næstu stjórn, taka á ríkisfjármálunum með viðeigandi hætti.