Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:38:52 (4890)


[01:38]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir mjög hreinskiptið og hreinskilið svar í þessu efni og það liggur þá alveg fyrir eða ég skildi mál hans svo, að það eru ekki á þessu stigi neinar hugmyndir um það hvernig eigi að mæta þessu og ljóst að þessum víxli er algjörlega vísað á næstu ríkisstjórn. Mig langar þó til þess að spyrja hæstv. fjmrh. að lokum eftir því hvort það sé svo að það hafi þá ekki einu sinni legið fyrir neinar hugmyndir um það, það hafi ekki komið fram í viðræðum við þá aðila sem stóðu að þessu samkomulagi, þ.e. aðila vinnumarkaðarins beggja vegna borðs, við hæstv. ríkisstjórn, þegar gengið var frá þessari yfirlýsingu, engar hugmyndir um það hvar kynni að verða borið niður, hvort það væri í skattaálögum og þá hvers eðlis þeir skattar ættu að vera eða hvar ætti helst að leggja niðurskurðarhnífinn til atlögu við ríkisútgjöldin?