Vísitala neysluverðs

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:46:36 (4894)


[01:46]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um vísitölu neysluverðs. Með frv. er gerð tillaga um að sett verði ný lög er komi í stað núgildandi laga um vísitölu framfærslukostnaðar og skipan kauplagsnefndar. Þetta er nauðsynlegt vegna þeirra breytinga á verðtryggingu sparifjár og lánsfjár sem ríkisstjórnin ákvað að beita sér fyrir í tengslum við lausn kjarasamninga.
    Sem kunnugt er felst breytingin í því að verðtrygging miðist framvegis við vísitölu framfærslukostnaðar í stað lánskjaravísitölu. Óráðlegt er talið að gera þá breytingu að óbreyttum lögum um vísitölu framfærslukostnaðar, þau lög eru úrelt og tæpast nógu traustur grundvöllur fyrir hið nýja hlutverk sem vísitölunni er ætlað að gegna.
    Meginbreytingarnar sem lagt er til að gerðar verði á lögum um vísitöluna eru eftirfarandi:

    Í fyrsta lagi er lagt til að skýrt verði kveðið á um hlutverk vísitölunnar, að hún sé reiknuð í því skyni að sýna breytingar á verðlagi einkaneyslu. Í þessu felst engin breyting á hlutverki hennar, vísitalan er almennur mælikvarði fyrir verðbreytingar neysluverðs en nauðsynlegt er að um það séu skýr ákvæði í lögum.
    Í öðru lagi og tengt hinu fyrra, er lagt til að sett verði ákvæði um grunn vísitölunnar og reglubundna endurnýjun hans á grundvelli neyslukannana svo og ákvæðum um hvernig þær skulu gerðar. Tilgangur þessa er að tryggja að neyslukönnun og vísitölugrunnurinn sem á henni er byggð samræmist hlutverki vísitölunnar sem almenns verðmælis.
    Í þriðja lagi er lagt til að hið gamla heiti vísitölunnar verði fellt niður og nýtt tekið upp í staðinn.
    Vísitalan hefur um langt skeið ekki verið mælikvarði fyrir framfærslukostnað heldur almennur kvarði fyrir breytingar neysluverðlags. Þess misskilnings gætir hins vegar oft að hún sé eins konar nauðþurftarvísitala, hún sýni hvað heimilin þurfi til framfærslu. Hið gamla heiti er því villandi. Lagt er til að vísitalan beri heitið vísitala neysluverðs. Það gefur til kynna hvað hún mælir raunverulega, enda þykir miklu skipta bæði í innlendum og erlendum samskiptum að heitið sé réttnefni og gefi ekki tilefni til misskilnings og mistúlkunar.
    Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að Hagstofa Íslands reikni og birti vísitöluna eins og nú á sér raunverulega stað, en samkvæmt gildandi lögum er kauplagsnefnd, skipuð fulltrúum tilnefndum af aðilum vinnumarkaðarins og Hæstaréttar, formlega ábyrg fyrir vísitölunni. Ákvæðinu um kauplagsnefnd má rekja til þess tíma er laun voru verðtryggð miðað við vísitöluna, en í reynd hefur nefndin um árabil starfað sem ráðgjafaraðili en ekki sem ábyrgðaraðili. Nauðsynlegt er og ekki síst nú þegar beita á vísitölunni til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár að Hagstofan beri alla ábyrgð á vísitölunni. Þannig er komið í veg fyrir tortryggni um að aðilar vinnumarkaðarins geti haft óeðlileg áhrif á gerð vísitölunnar og útreikning hennar og þar með verðtryggingu á fjármagnsmarkaði.
    Reglubundinn útreikningur neysluverðs vísitölu er hins vegar eðlilegt hlutverk hagstofa hvar sem er í heiminum. Í stað ábyrgðarhlutverks er lagt til að nefndin starfi áfram sem ráðgjafarnefnd. Tekið skal fram að þessar tillögur eru gerðar í samráði við forustumenn Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands og eru þeir meðmæltir þeim, svo og frv. í heild.
    Í fimmta lagi er lagt til að lögin kveði á um mánaðarlegan útreikning eins og verið hefur í reynd í meira en áratug, en samkvæmt gildandi lögum þarf ekki að reikna vísitöluna oftar en fjórum sinnum á ári.
    Í sjötta og síðasta lagi er lagt til að í lögunum verði mælt fyrir um að vísitala skuli eftir því sem kostur er miðast við meðalverðlag í landinu. Nærri lætur að um helmingur útgjalda í grunni vísitölunnar eigi við landið allt en að öðru leyti miðast vísitalan við verð á höfuðborgarsvæðinu og á það sérstaklega við um verð á matvöru, óáfengra drykkja og hreinlætisvöru. Af tillögu frv. leiðir að farið verður að safna verðupplýsingum utan höfuðborgarsvæðisins, einkum í fyrrnefndum vöruflokkum. Telja verður að í þessu felist töluverð framför.
    Að lokum skal það tekið fram að með frv. þessu er ekki verið að breyta eðili vísitölunnar eða aðferðum við gerð eða útreikning hennar. Á hinn bóginn er verið að endurbæta lögin, skerpa ýmis lagaákvæði og setja ný til þess að taka af tvímæli um hlutverk vísitölunnar sem verðmælikvarða og færa lögin til raunveruleikans. Nauðsynlegt er að þessar endurbætur verði gerðar áður en nýskipan verðtryggingar sparifjár og lánsfjár verður tekin upp og tekur gildi og frv. verði því afgreitt á þessu þingi.
    Ég vil rétt geta þess í lokin að það skorti á að frv. fylgdi umsögn frá fjmrn. varðandi kostnaðarauka fyrir ríkissjóð en Hagstofa Íslands áætlar að stofnkostnaður vegna þessara breytinga verði 300 þús. kr. en árlegur rekstrarkostnaður um 800 þús. kr. og þá er það aðallega vegna þess að þarna verður safnað upplýsingum ekki bara af höfuðborgarsvæðinu eins og fram til þess heldur jafnframt af landinu öllu.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.